Auglýst var eftir ríkisstjórninni á Alþingi í vikunni. Það gerði sá athuguli þingmaður Viðreisnar Þorsteinn Víglundsson. Hann hafði tekið eftir því að ríkisstjórn sem áformaði að leggja fram 48 mál í janúar og febrúar hefur einungis lagt fram fimm. Einhver myndi kalla þetta kulnun í starfi, hér áður fyrr hét þetta víst leti.

Þingmaður Viðreisnar spurði hvort ríkisstjórnin hefði lagt niður störf, eða kannski farið í langt vetrarfrí. Hann vildi vita hvar hún væri niðurkomin. Svo heppilega vildi til að að minnsta kosti einn þingmaður Sjálfstæðisflokks var á Alþingi, vinnustað sínum, þennan dag. Sá heitir Birgir Ármannsson og varð heldur stúrinn vegna þess að stjórnarandstöðuþingmaður hafði tekið eftir því hversu verklítil þessi ríkisstjórn raunverulega er. Birgir kom ríkisstjórninni til varnar. Hann sagði að sú ríkisstjórn væri ekki endilega best sem legði fram flest frumvörp og samþykkti flest mál. Má svo sem til sanns vegar færa að best sé að ríkisstjórn sem iðulega gerir meira ógagn en gagn sé sem aðgerðaminnst. Almenningur fær þá allavega frið fyrir henni á meðan.

Það er þó ekki eins og ráðherrar ríkisstjórnarinnar fái ekki hugmyndir, þær eru bara svo oft ekki nægilega góðar. Mikið væri nú gaman ef ráðherrar landsins myndu vakna einn morguninn, hugsa um fegurð landsins og mikilvægi náttúruverndar og heita sjálfum sér því að gerast talsmenn náttúrunnar og leggja sitt af mörkum í baráttunni fyrir verndun hennar. Enga Hvalárvirkjun á minni vakt, takk fyrir! En þannig vakna ráðherrar ekki, nema kannski umhverfisráðherrann velviljaði stutta stund, svona rétt áður en hann rankar við sér í hinum ískalda raunveruleika og man að hann er í ríkisstjórnarsamstarfi með flokki virkjanasinna, Sjálfstæðisflokknum, og öðrum flokki, Framsóknarflokki, þar sem orðið náttúruvernd hefur nákvæmlega ekkert vægi.

Mikið væri líka gott ef dómsmálaráðherra landsins myndi svo vakna endurnærður og segja við sjálfan sig: Nú ætla ég að tala af einlægni máli þeirra foreldra sem hingað leita í neyð í von um að geta boðið börnum sínum nýtt og betra líf. Ég ætla að segja eins og Píratinn sagði á þingi á dögunum þegar hann mótmælti brottvísun íranska trans piltsins Mani: Dyflinnarreglugerðin, bla, bla, bla – og bæta síðan við: Breytum skipulaginu!

Þetta mun ekki gerast. Hins vegar fékk nýsköpunarráðherrann hugmynd sem kynnt var í sömu viku og þingmaður Viðreisnar lýsti eftir ríkisstjórninni. Ráðherrann ætlar að leggja niður Nýsköpunarmiðstöð Íslands og finna verkefnum innan hennar annan farveg. Þetta hljómar eins og hugmynd ráðherra sem hefur lítið við að vera. Er þetta virkilega brýnt hagsmunamál fyrir íslenska þjóð? Sjálfsagt útskýrir ráðherra nauðsyn þessa á þingi í löngu og staglkenndu máli, á þann hátt að enginn verður nokkru nær.

Kannski er öllum fyrir bestu að þessi ríkisstjórn sé sem aðgerðaminnst.