Íslendingar hafa fram til þessa ekki verið þekktir fyrir að vera matvælaþjóð á erlendri grundu. Á undanförnum árum hefur vitund útlendinga um tilvist okkar vissulega aukist til muna en fáir tengja okkur t.d. við fiskveiðar þrátt fyrir þann magnaða árangur sem við höfum náð á því sviði, ekki síst fyrir tilstilli okkar framúrskarandi fiskveiðistjórnunarkerfis. Sú staðreynd að sjávarútvegur á Íslandi er ekki ríkisstyrktur heldur hagnaðardrifinn, veitir mikilvægt forskot því það hefur gefið okkur færi á að fjárfesta í veiðum og vinnslu sem tryggir mikil gæði. Ört stækkandi hópur kröfuharðra neytenda velur af kostgæfni þær vörur sem hann ákveður að kaupa og er líka tilbúinn að greiða hærra verð fyrir heilnæmar vörur sem teljast sjálfbærar. Íslenskur sjávarútvegur hefur einstakt tækifæri til að ná til þessa hóps.

Ákvörðun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að heimila áframhaldandi hvalveiðar og yfirlýsing Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi þar sem ákvörðunin er beinlínis talin skynsamleg ber hins vegar vitni um hrópandi skilningsleysi á eðli þeirra markaða sem borga hæst verð og fullkomið andvara- og metnaðarleysi í markaðsstarfi erlendis. Neytendur stýrast nefnilega öðru fremur af tilfinningum og þegar litið er framhjá því geta hlutirnir snúist hratt í höndunum á okkur.

Í tilkynningu SFS er því réttilega haldið fram að erfitt sé að takast á um tilfinningar. Það sagði hins vegar enginn að þetta ætti að vera auðvelt og þegar tiltekin grein hefur jafn veigamiklu hlutverki að gegna í undirstöðum samfélagsins þá er ekkert óeðlilegt að það kalli fram tilfinningar. Meðalmennska á borð við það að treysta sér ekki til að að takast á við erfiðar ákvarðanir og taka tillit til tilfinninga ber vott um virðingarleysi gagnvart verðmætunum sem um er að ræða og þeim framtíðarverðmætum sem í húfi eru. Þeir sem styðja hvalveiðar í nafni meintrar skynsemi þurfa að átta sig á því að tilfinningastríðinu um hvalveiðar er lokið og við töpuðum. Ætlum við að tapa samkeppnisforskotinu og ímynd landsins líka til þess að sanna fyrir okkur sjálfum að við vitum alltaf best?