Sólveig Anna Jónsdóttir er án efa mesti hvalreki sem skolað hefur á fjörur verkafólks um árabil. Í bréfi, dagsettu í gær, stíluðu á hlutaðeigandi ráðherra, tíundar hún ískyggilegar staðreyndir úr tilveru verka- og láglaunafólks á íslenskum vinnumarkaði. Starfslið hennar á skrifstofum Eflingar hafi á síðasta ári gert hátt í 700 kröfur um að staðið sé við lögbundin og umsamin lágmarksréttindi félagsmanna sinna. Kröfurnar hafi numið samtals 345 milljónum króna. Þetta eru háar tölur og svívirðilegar, í ljósi þess að í flestum tilvikum er um að ræða fátækt fólk í viðkvæmri stöðu á vinnumarkaði.

Í bréfi sínu lýsir Sólveig Anna eftir þeim loforðum sem ríkisstjórnin veitti við gerð lífskjarasamninganna, um að heimildir til refsinga verði auknar við brotum atvinnurekenda gegn vinnandi fólki. Ekkert bólar á efndum þess loforðs.

Þegar heimsfaraldurinn reið yfir í mars varð ljóst að veruleg röskun yrði á löggjafarstörfum. Forsætisráðherra fól ráðherrum að forgangsraða þeim málum sem ekki þyldu bið og koma þyrfti til afgreiðslu á Alþingi. Frumvarp félagsmálaráðherra um félagsleg undirboð var boðað 31. mars, en hefur enn ekki litið dagsins ljós. Í skýrslu sem unnin var fyrir ráðherra eru ýmsar tillögur reifaðar, en tekið fram að ekki hafi náðst að ræða að neinu marki tillögur Alþýðusambands Íslands, sem miða að því að þeim starfsmönnum sem verða fyrir launaþjófnaði sé bættur skaðinn með hlutlægri bótareglu og að slík mál fái sérstakan forgang í réttarkerfinu.

Meðan á þessu drolli gengur í ráðuneytunum í efndum loforða við vinnandi fólk, hefur aukinn dugnaður færst í að tryggja og festa í sessi skjaldborg um atvinnurekendur. Sú skjaldborg lýtur ekki síst að því að bregða fæti fyrir forvitið blaða- og fréttafólk með nýmælum í lögum eftir forskrift atvinnurekenda.

Unnendum upplýsingafrelsis tókst blessunarlega að koma í veg fyrir að frumvarp um eyðileggingu upplýsingalaga, sem forsætisráðherra flutti fyrir hönd Samtaka atvinnulífsins, næði fram að ganga í bili að minnsta kosti, en hindranirnar í vegi fréttafólks sem starfar við að veita handhöfum valds og áhrifa aðhald, eru fjölmargar fyrir og láta ekki allar mikið yfir sér. Sú staðreynd til dæmis að blaðamaður þurfi að borga gjald fyrir hvern einasta ársreikning, veldur slíkum kælingaráhrifum að fáum dettur í hug að kalla eftir ársreikningum fyrirtækja fyrir forvitni sakir. Til þess er einmitt leikurinn gerður.

Það er hagsmunamál fyrir allan almenning að gegnsæi ríki um íslenskt atvinnu- og viðskiptalíf og það er alveg sérstakt hagsmunamál fyrir hina valdaminni að ryðja upplýsingaleynd úr vegi. Hér á fátækt fólk verulegra hagsmuna að gæta, rétt eins og fátæk ríki sem íslensk stórfyrirtæki níðast á, eða varnarlaus náttúran sem þau traðka á.

Barátta fyrir gegnsæi er barátta fyrir bættum lífskjörum, enda finnur stjórnmálafólkið oft enga þörf til að bregðast við fyrr en fjölmiðlar hafa afhjúpað hinn raunverulega vanda, hvort sem hann lýtur að mansali, slæmum aðbúnaði, launaþjófnaði eða annars konar misnotkun.