Undirritaður hefur verið fjarri góðu íslenzku gamni, á ferð í landi feðra sinna, í hvíld frá þjóðfélagsumræðu á eyjunni góðu norður í Dumbshafi. Hafa því þeir, sem nennt hafa að lesa pistla hans, notið hvíldar og friðar líka. Blessun fyrir þá.

En forvitnin er sterkt afl, og hefur höfundur skellt sér, annað slagið, inn á íslenzk greinarskrif.

Ekki fóru þar fram hjá honum greinar kandídatsins til formennsku í Samfylkingunni, en hagur fylkingarinnar er undirrituðum hjartans mál, „Samstöðuaðgerðir vegna verðbólgu og vaxtahækkana“ á Vísi 21. september og „Sigurvegarar og taparar í boði ríkisstjórnar Íslands“ hér 28. september.

Hér þarf sitthvað að skoða, en málflutningur kandídatsins þarf að vera réttur og góður, ef hún á að verða formaður af viti.

Hugsun kandídatsins er góð, og vilji góður, stuðningur við þá, sem verst eru settir vegna verðbólgu og vaxtahækkana, tek undir slíka viðleitni, en leiðin að markinu stenzt illa.

Kandídatinn talar um „hvalreka vegna stríðs og verðbólgu“, sem hún vill svo skattleggja og færa féð til nefndra góðra þarfa. Hún talar líka um, að „komið verði í veg fyrir að launatekjur séu ranglega taldar til fjármagnstekna“, og, svo um þörfina á leigubremsu á leigumarkaði.

Fyrst verður að spyrja, hvar er hvalrekinn vegna stríðs og verðbólgu? Fyrir undirrituðum blasa mest við kostnaðarhækkanir, vaxtahækkanir, fyrir alla, samdráttur og verðmætafall í stórum stíl. Stórfellt tap.

Þegar lausna skal leita, verður að byggja á því, sem er, ekki á því, sem var. Ekki verður snjókarl gerður úr snjóum frá í fyrra.

Kandídatinn talar um, að fjármagnstekjur hafi hækkað mikið í fyrra, og, að þarft væri og rétt að mjólka nú fjármagnseigendur vel, en hugsar ekki til þess, að í ár hafa orðið gífurleg töp á fjármagnsmarkaði, mestur eða allur gróðinn frá í fyrra er löngu genginn til baka, og sums staðar eru afkomumál manna og fyrirtækja í hers höndum.

Ef litið er á hlutabréfamarkaðinn, en flest helztu fyrirtæki landsins eru þar, og verðgildi hlutabréfa skoðuð, annars vegar við upphaf Úkraínustríðsins, og hins vegar nú, blasir þetta við:

Hlutabréf langstærta fyrirtækis landsins, Marel, sem hafði verðgildi upp á kr. 784,00/hlut, er nú, 3. október, kr. 442,00. Verðfall 44%!

Helztu sjávarútvegsfyrirtækin áttu að hafa notið hvalreka stríðsins, og áttu að geta lagt drjúgan pening til. Eitt allra stærsta og bezta fyrirtækið, Brim, lafir samt rétt í óbreyttu hlutabréfaverðgildi; var kr. 82,50, er kr. 83,00. Annað helzta fyrirtækið á fiskveiðimarkaði, Ice­land Seafood, var, hins vegar, á kr. 16,10, en er fallið í kr. 7,40. Hrikalegt tap, 54%. Varla verða vaxtabætur greiddar með því, eða barnabætur styrktar.

Ef litið er til helztu flutningsfyrirtækjanna, en einmitt þau áttu að hafa grætt feykilega á Covid og stríði, þá var Eimskip í kr. 540,00, og er nú í kr. 486,00. Icelandair var í kr. 2,17, og er nú kr. 1,69.

Bara í september féll verðgildi hlutabréfa hér um 260 milljarða.

Hugmyndir formannskandídats um hvalreka fjárfesta eru því rang-hugmyndir.

Varðandi „undanskot“, eins og kandídatinn nefnir það, þar sem launatekjur eru taldar fram sem fjármagnstekjur, og slík „undanskot“ eiga að nema 3-8 milljörðum á ári, þetta:

Það er og verður mikilvægt verkefni skattyfirvalda og skatteftirlits, að vaka yfir því og tryggja, að rétt sé talið fram. Til þessa hafa þau mikið frjálsar hendur. Ef kandídatinn hefur einhver góð ráð að gefa þeim, má hún gjarnan gera það, en skatteftirlit er vart mál ríkisstjórnar eða Alþingis.

Hér er líka varasamt að tala um „undanskot“, ef skattyfirvöld samþykkja framtöl, og tal um að 3-8 milljarðar tapist stenzt ekki, allra sízt hjá hámenntuðum hagfræðingi. Ef talað er um fjármuni og stærðir þeirra, verða menn að vera nákvæmari, til að talið geti talizt marktækt: T.a.m. 3-4 milljarðar, eða 7-8 milljarðar. Tal um 3-8 milljarða bendir til þekkingarskorts.

Varðandi leigubremsu, þá mætti líka hugleiða hámarksgjald á fermetraverði íbúða við sölu. Þetta þýddi auðvitað, að ríkið færi af fullum krafti inn á nú frjálsan húsnæðismarkaðinn, og festi þar allt og negldi. Svipti hann frelsi.

Vilja Íslendingar taka upp og búa við slíka ráðstjórn!? Hugsaði kandídatinn kannske líka út í það, að, ef ríkið læsti klónum í fasteignamarkaðinn, mynda það flæma fjárfesta frá þeim markaði og stórdraga úr nauðsynlegum fjárfestingum í byggingarframkvæmdum.

Ég hef sagt það áður, og segi það enn, að ég tel tíma kandídatsins ekki kominn, og get bara skorað á Dag B. Eggertsson, og það í nafni allra, sem vilja nýja og öfluga ríkisstjórn Evrópu-, frjálslyndis- og framfarasinna, þar sem Samfylking, Viðreisn og Píratar myndu mynda hryggjarstykkið, að endurskoða afstöðu sína til formannsframboðs; henda sér í það!