Draumurinn um að komast á þriðja stórmótið í röð varð að engu á 5 síðustu mínútum leiksins mikilvæga gegn Ungverjum 12. nóvember.
Strákarnir okkar voru grátlega nærri því að ná markmiðum sem þeir og þjálfarar liðsins höfðu sett sér, þ.e. að komast í úrslitakeppni EM 2021

Vonbrigði leikmanna, aðstandanda liðsins og allra stuðningsmanna voru mikil að loknu 1-2 tapi og eðlilega rýndu menn í það hvað fór úrskeiðis í leiknum. Hvers vegna tapaðist þessi viðureign? Það skal tekið fram að undirritaður taldi líkur á íslenskum sigri 30-40% svo það þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart að leikurinn tapaðist. En karlalandsliðið hefur undanfarin ár oft náð óvæntum úrslitum gegn þjóðum sem voru með betri leikmenn en við og þ.a.l. sterkari á pappírunum. En knattspyrnuleikir vinnast eða tapast ekki á pappírum, taktiktöflum eða töflufundum heldur á leikvellinum.

Grátlega nærri en laskað lið í lokin


Liðsuppstilling íslenska liðsins í leiknum gegn Ungverjum var eðlileg. Ég hefði reyndar haft Birki Má Sævarsson sem hægri bakvörð og Guðlaug Victor á miðjunni með Aroni Einari, en valið á Rúnari Má Sigurjónssyni var alls ekki óeðlilegt. Hann er góður leikmaður sem stendur sig oftast vel með landsliðinu. Ég nefndi í hópi góðra vina sem ég horfði á leikinn með að ég óttaðist síðustu 15-20 mín. leiksins. Ástæðan var sú að helmingur leikmanna byrjunarliðs Íslands var ýmist nýlega stiginn upp úr meiðslum eða í lítilli leikæfingu af öðrum orsökum. Mikilvægi réttra innáskiptinga varð enn meira vegna þessa. Þrátt fyrir að strákarnir okkar ættu undir högg að sækja ¾ hluta leiksins þá vörðust þeir vel og skipulega lengst af og áttu inn á milli hættulegar sóknir sem sköpuðu hættu og marktækifæri

Það væri að bera í bakkafullan lækinn að lýsa helstu atvikum í leiknum og mörkunum tveimur sem réðu úrslitum. Það var ekki sigurmark Ungverja sem “drap” leikinn að mínu mati heldur jöfnunarmarkið, því laskað íslenskt lið hefði ekki þolað framlengingu. En strákarnir okkar voru grátlega nálægt því að vinna sigur. Á 87. mínútu fengu þeir dauðafæri til að gera út um leikinn þegar Jón Daði sendi fastan bolta inn í vítateiginn á Albert Guðmundsson, en hann náði ekki góðu skoti og boltinn fór framhjá. Mínútu síðar jöfnuðu Ungverjar. Það er oft stutt á milli í þessu dásamlega en miskunnarlausa sporti.

Fyrirliðinn á mörg ár eftir


Mikilvægi Arons Einars, fyrirliða landsliðsins og leiðtoga kom glöggt fram í þessum leik. Ákvörðun hans um að segja skilið við enska boltann og elta Heimi Hallgrímsson til Qatar þótti ýmsum skrýtin á sínum tíma, en frammistaða hans í þessum leik og formið á fyrirliðanum sýndi að ákvörðunin var rétt. Hann lengir líftíma sinn með landsliðinu um 3-5 ár með því að minnka álagið og það var gaman að sjá Aron Einar “fit” og flottan eiga frábæran leik gegn Ungverjum. Það er auðvelt að halda því fram að ef hann hefði ekki meiðst lítillega og orðið að fara af leikvelli á 83. mín. þá hefðum við líklega haldið leikinn út og ekki fengið á okkur mark. En hann fór útaf og þá kom að mikilvægustu skiptingu leiksins.

Þar fannst mér þjálfararnir taka ranga ákvörðun. Að setja Ara Frey Skúlason á vinstri vænginn og færa Birki Bjarnason inn á miðsvæðið í stöðu Arons hefði kannski verið eðlileg ráðstöfun í eðlilegu árferði, en það er ekkert eðlilegt við árið 2020. Birkir var dauðþreyttur, mun þreyttari heldur en Guðlaugur Victor sem var í betra standi til að leysa Aron af á miðjunni og Birkir Már Sævarsson var til taks til að taka stöðu Guðlaugs sem hægri bakvörður. Aðrar innáskiptingar þjálfaranna virkuðu heldur ekki vel á mig, t.d. það að setja Jón Daða á hægri vænginn í stað Jóhanns Bergs. En gert er gert og ef og hefði vinnur ekki leiki.

Erlendan þjálfara aftur en styttist í næsta íslenska landsliðsþjálfara


Evrópudraumurinn er úti, mikil vonbrigði en hvað svo?
Næsta heimsmeistarakeppni, HM verður haldin í Qatar í nóvember og desember 2022. Undankeppni evrópskra liða verður á tímabilinu 24. mars 2021 til 29. mars 2022. Dregið verður í riðla 7. desember n.k. og kemur þá í ljós hverjir verða andstæðingar Íslands á HM 2022. Það er lítill tími til stefnu og ljóst að KSÍ verður að vinna hratt og vel í að finna arftaka Erik Hamrén, sem hefur tilkynnt að hann muni hætta með íslenska landsliðið eftir leikinn gegn Englandi í Þjóðadeildinni miðvikudaginn 18. nóvember.

Stjórn KSÍ er vandi á höndum, því það er enginn augljós kandidat í stöðu landsliðsþjálfara. En áður en kemur að því að velja á milli þjálfara, íslenskra og erlendra þá tel ég nauðsynlegt að forysta KSÍ, með Guðna Bergsson formann og Arnar Þór Viðarsson, yfirmann knattspyrnumála í broddi fylkingar setji niður fyrir sér hvernig þjálfara men vilja, hvaða eiginleikar séu mikilvægastir í fari landsliðsþjálfara, hvernig týpu og hvernig vinnubrögðum KSÍ sækist eftir. Fréttamenn og almenningur munu fljótlega vilja svör um það hvort íslenskur þjálfari komi til greina eða hvort eingöngu verði leitað erlendis að næsta landsliðsþjálfara Íslands.

Mín skoðun er sú að úr því að enginn augljós íslenskur kostur sé í stöðunni, þá eigi að reyna að finna erlendan þjálfara í starfið. Hafandi skrifað það þá tel ég að Heimir Hallgrímsson, Heimir Guðjónsson og Rúnar Kristinsson séu allir gæddir flestum þeim kostum sem ég vil sjá í landsliðsþjálfara Íslands og kannski kemur röðin að einhverjum þeirra, ef ekki núna þá næst.


Breytum en byltum ekki


Varðandi leikmenn landsliðsins þá má víða heyra og lesa kröfur um að mikil endurnýjun þurfi nú að eiga sér stað í landsliðshópnum. Það er rétt að eðlileg endurnýjun þarf að eiga sér stað, en ekki nauðsynlegt að breyta breytinganna vegna. Það er stundum sagt að ef leikmenn séu nógu góðir þá séu þeir nógu gamlir. En það virkar líka í hina áttina, að ef leikmenn eru nógu góðir þá eru þeir ekki of gamlir. Reynslan er einn mikilvægasti þátturinn í getu leikmanna á hverjum tíma. Í nýju verkefni, undankeppni HM 2022 má þó ekki tefla fram liði þar sem helmingur leikmanna er ekki í nægilega góðu líkamlegu ástandi til að geta klárað heilan leik svo vel sé.

Hannes Þór Halldórsson hefur verið farsæll markvörður Íslands síðasta áratuginn eða svo. Hann átti góðan leik gegn Ungverjum og sýndi að hann á töluvert eftir þótt árin færist yfir hann eins og aðra. En hann stjórnaði vörninni ekki nægilega vel heldur leyfði hann öftustu varnarmönnum liðsins þegar leið á leikinn að bakka alla leið inn í markteig

Það býður bara hættunni heim, eins og kom á daginn. Rúnar Alex er allt öðruvísi markvörður. Þegar hann tekur við af Hannesi þá má reikna með að aftasta varnarlínan færist 10-15 metrum framar á völlinn og Rúnar sópi upp svæðið fyrir aftan vörnina. Miðverðir sem leysa munu Kára og Ragnar af þegar þar að kemur, eru væntanlega Sverrir Ingi og Hólmar Örn en Hjörtur Hermannsson og Hörður Björgvin eru einnig miðverðir, þótt Hörður verði væntanlega áfram vinstri bakvörður. Guðlaugur Victor hefur nánast eignað sér hægri bakvarðarstöðuna en hann getur einnig leikið á miðjunni með Aroni Einari. Þar höfum við þó fleiri valkosti í Rúnari Má eða Birkir Bjarnasyni sem verða væntanlega báðir áfram í hópnum.

Ég tel að byggja eigi liðið í kringum fyrirliðann sem á mikið eftir á tanknum og getur leitt liðið í komandi orustur í 3-5 ár til viðbótar.

Gylfi Þór og Jóhann Berg eru sjálfsagðir í liðið þegar heilsa og ástand leyfa. Þeir eru ómissandi fyrir landsliðið og Gylfi Þór enn okkar besti leikmaður. Á vinstri væng og frammi vil ég sjá ungu mennina. Albert Guðmundsson og Arnór Sigurðsson, annan eða báða. Það þarf að auka hraðann í sóknarleik liðsins og nýta þá leikmenn sem til eru sem geta gert óvænta hluti og skapað tækifæri fyrir sig og aðra … og skorað mörk. Því miður hafa helstu framherjar landsliðsins, Alfreð Finnbogason og Kolbeinn Sigþórsson verið mikið meiddir upp á síðkastið og á meðan svo er, þá á ekki að stóla á þá. En að sjálfsögðu á ekki að loka dyrum á neinn leikmann. Landsliðið á að vera opið fyrir leikmenn sem standa sig það vel að þeir eru líklegir til að gera liðið betra. Það var því gaman að frétta að hinum 17 ára Ísak Bergmann Jóhannessyni hafi verið bætt í hópinn fyrir leiki vikunnar gegn Danmörku og Englandi í Þjóðadeildinni. Þar fer mjög spennandi leikmaður sem gaman verður að fylgjast með næstu árin.

En ég vil einnig sjá annan leikmann úr U-21 árs liðinu, Willum Þór Willumsson, færast upp í A-hópinn sem fyrst. Það er leikmaður sem heillar mig nánast alltaf þegar ég sé hann spila.

Áfram Ísland!

Höfundur er fyrrum landsliðsmaður og þjálfari í efstu deild á Íslandi