„Sumir erfa áföll forfeðra sinna“ söng Bubbi Morthens í einu af sínum góðu lögum.

Áföll eru sterk streituviðbrögð í kjölfar óvæntra atburða og eru langvarandi afleiðingar líklegri eftir áföll af manna völdum, eins og eftir kynbundið ofbeldi; heimilisofbeldi, líkamlegt-, andlegt, kynferðislegt ofbeldi, ásamt einelti.

Eins og við getum erft áföll forfeðra okkar, getur fóstur í móðurkviði upplifað áfall í gegnum áfall sem móðir upplifir á meðgöngu, eins og eftir heimilisofbeldi. Það getur til að mynda haft áhrif á heilaþroska fóstursins, sem getur svo verið rót margs konar vandamála seinna á lífsleiðinni og haft áhrif á heilsufar, náms-, hegðunar og félagslega stöðu einstaklingsins. Þannig geta einnig áföll í fæðingu og frumbernsku haft slíkar afleiðingar.

Að upplifa áföll eins og eftir ofbeldi, getur haft áhrif á ónæmiskerfið, þroska heilans, heilastarfsemina, hormóna- og taugakerfið og þar af leiðandi öll hin kerfin, því þau eru órjúfanleg heild. Afleiðingar sem geta komið fram eru stoðkerfisvandamál, langvinnir verkir, hjarta- og æðasjúkdómar, öndunarfærasjúkdómar og sumar tegundir krabbameins. Einnig þunglyndi, kvíði, áfallastreituröskun, persónuleikaröskun, áfengis- og fíknivandi, átröskun, sjálfskaðandi- og afbrotahegðun og sjálfsvígshugsanir.

Afleiðingar geta komið fram í þeim líkamshluta eða kerfi sem einstaklingurinn er veikastur fyrir. Þannig geta áföllin verið eins og „triggerar“ eða kveikjur og sett af stað ferli, sem tengist lífsstíl, umhverfis- og erfðaþáttum einstaklingsins.

Allsherjar vitundarvakning er nauðsynleg og að taka mið af því þegar talað er um langa biðlista hér og þar og að ákveðnar deildir og kerfi séu að springa. Góð forvörn og hagræðingin felst í að innleiða áfallamiðaða nálgun. Að byrja í móðurkviði með skimun fyrir áföllum verðandi foreldra og fræðslu til þeirra. Að veita slíka þjónustu upp eftir öllu lífsskeiðinu og hafa úrræði til taks til að grípa einstaklinga sem á stuðningi þurfa að halda.

Með því að leggja fyrir ACE listann (Adverse Childhood Experience) er hægt að fá upplýsingar um hvort einstaklingur hafi upplifað áfall eða erfiða reynslu fyrir 18 ára aldur. Með ACE listanum er spurt um vanrækslu, líkamlegt-, andlegt- og kynferðislegt ofbeldi og að verða vitni að slíku. Spurt er um hvort foreldrar hafi glímt við áfengis- og vímuefnanvanda, geðræn vandamál, sjálfsvígshegðun eða fengið fangelsisdóm. Tengsl eru á milli fjölda ACE stiga og ofangreindra heilsufars- og félagslegra vandmála seinna á lífsleiðinni.

ACE listinn var þróaður af Felitti og félögum á endurhæfingardeild fyrir einstaklinga í ofþyngd í Bandaríkjunum, þar sem fram komu tengsl á milli erfiðrar reynslu og áfalla í æsku og offitu.

Með áfallamiðaðri nálgun er spurt: „hvað kom fyrir þig?“ í stað þess að spyrja „hvað er að þér?“ Að átta sig á algengi áfalla, einkennum og afleiðingum fyrir einstaklinga, fjölskyldur og samfélög. Einnig leiðir til úrvinnslu og bata, innleiðingu inn í kerfin og koma í veg fyrir endurtekna upplifun áfalla.

ACE listinn er lagður fyrir ungmenni í Berginu headspace, úrræði fyrir ungt fólk að 25 ára aldri þar sem áfallamiðuð nálgun hefur verið innleidd og hefur reynst mjög vel. Alþjóða heilbriðigsmálastofnunin hefur lagt til notkunar á ACE listanum. Alla virka daga í 16 daga átakinu verður boðið upp á rafræna hádegisfyrirlestra, um ofbeldi, áföll og áfallamiðiðað nálgun og er öllum opið.

Höfundur er dósent við Háskólann á Akureyri.