Við lifum tíma verulegra sviptinga, fyrst vegna Covid- faraldursins og svo vegna árásarstríðs Rússa gegn Úkraínumönnum, sem hafa veruleg áhrif á líf okkar og velferð.

Auðvitað getum við ekki kvartað, ef við hugsum til þeirra þjáninga og þeirrar helfarar, sem Úkraínumenn verða að ganga í gegnum, en það breytir ekki því, að þó að við séum blessunarlega laus við stríð, og nú að mestu Covid, þá verðum við takast á við þann vanda, sem þessir atburðir skola að okkar ströndum, óðaverðbólgu, sem ógnar öryggi og velferð fjölskyldna og fyrirtækja.

Það sama er auðvitað upp á teningnum hjá öðrum þjóðum Vestur-Evrópu.

Hver er verðbólgan í Evrópu og hér?

Verðbólgumarkmið Evrópska seðlabakans er 2%. Við slíka verðbólgu telur bankinn, að efnahagsleg velferð þegna álfunnar sé bezt komin. Stjórnvöld hér hafa svipað markmið í verðbólgumálum; +/- 2,5 prósent. Í ESB-ríkjunum 27 var verðbólgan í marz sl. 7,8 prósent. Í Þýzkalandi var verðbólgan sú hæsta í 40 ár.

Hér á Íslandi var verðbólgan í marz 7,2%. Nokkru lægri en í Evrópu, en sú hæsta hér í 12 ár.

Verðbólga af þessari stærðargráðu ógnar auðvitað velferð og afkomuöryggi ekki bara almennings – og þá einkum þeirra, sem verst eru settir og eiga í vök að verjast með afkomu sína að óbreyttu verðlagi, hvað þá við hratt vaxandi verðlag – heldur líka fyrirtækja og atvinnuöryggi landsmanna.

Mikið er því í húfi, að seðlabankar og stjórnvöld um alla Evrópu finni rétt svör og réttar leiðir til að milda áhrif verðbólguvandans.

Hver er þróun fasteignaverðs í Evrópu og hér?

Fasteignaverð og húsnæðiskostnaður hefur nokkurt eða verulegt vægi, þegar verðbólga er reiknuð og á henni tekið, enda stór útgjaldaliður.

Ef saman er borið fasteignaverð í ESB-ríkjunum 27 við síðustu áramót við það sem var árinu áður, þá er meðalhækkun fasteiganverðs í þessum 27 löndum 10,0% á þessu 12 mánaða skeiði.

En í sumum löndunum er hækkunin miklu meiri. Í Tékklandi 25,8%, í Eistlandi 20,4%, í Lettlandi 19,8%, í Ungverjalandi 19,5%, í Hollandi 18,7%, í Austurríki 14,9%, og meira að segja í Þýzkalandi hækkaði fasteignaverð um 12,2% á þessu tímabili. Í öðrum löndum ESB var svo þessi hækkun auðvitað lægri.

Hér á Íslandi mun þessi hækkun fasteiganverðs hafa verið 15,7%. Mikil, en ekkert meiri en víða annars staðar í Evrópu.

Hverjir stýra Evrópska seðlabankanum?

Þau ríki ESB, sem hafa evruna með fullum og formlegum hætti, eru 19. Finnland, Eistland, Lettland, Litháen, Þýzkaland, Slóvakía, Austurríki, Slóvenía, Frakkland, Belgía, Lúxemborg, Holland, Írland, Portúgal, Spánn, Ítalía, Kýpur, Malta og Grikkland.

Öll þessi lönd hafa sinn eigin seðlabanka, sem sinnir sérmálum hvers lands, og er hér því um 19 seðlabankastjóra (Governors) að ræða, sem koma alls staðar að úr Evrópu og eru, að ætla má, meðal klárustu efnhagssérfræðinga og hagfræðinga þessara landa.

Evrópski seðlabankinn sjálfur hefur svo á sérfræðingaráði að skipa, 5 framúrskarandi fræðimönnum í efnahags- og peningamálum, auk seðlabankastjórans, Christine Lagarde.

Tvisvar í mánuði kemur þessi hópur 25 helztu vísindamanna álfunnar á sviði hagfræði og hagsmála saman í Frankfurt til að bera saman bækur sínar, ræða þróun mála og móta stefnu.

Hver var stýrivaxtaákvörðun stjórnar Seðlabanka Evrópu?

Þessi öflugi hópur helztu hagfræðinga og efanhagsvísindamanna álfunnar ákvað á fundi sínum 14. apríl sl., að halda stýrivöxtum óbreyttum; 0,0%, þrátt fyrir óðaverðbólgu og gífurlega hækkun fasteignaverðs.

Og, hvers vegna?

Ástæðan er sú, að verðbólgan í Evrópu er að mestu innflutt – stafar af verðhækkunum, sem eiga sér rætur utan Evrópu, svo sem verðhækkunum á innfluttu eldsneyti, sem hefur hækkað vegna Úkraínu-stríðsins og almennum hækkunum í Asíu, sem stafa bæði af Covid og olíuverðshækkunum – og taldi hópurinn ljóst, að vaxtahækkun innan Evrópu myndi ekki ná til eða getað dempað þessa erlendu og utanaðkomandi verðhækkunaröldu.

Vaxtahækkun við þessi skilyrði yrði því eins og olía á eldinn, myndi kynda undir frekari verðhækkanir, ekki dempa þær; gera illt verra.

Og, hvað með fasteignaverðið?

Varðandi hækkun fasteignaverðs og möguleg áhrif bankans á það, taldi ráðið, annars vegar, að fyrirliggjandi verðhækkanir, markaðsöflin, hefðu þá þegar róað niður þann markað, og, hins vegar, að almenn stýrivaxtahækkun myndi þar litlu breyta á sama tíma og hún myndi hafa slæm áhrif á alla aðra þætti efnahagslífsins, sem frekar þyrftu á örvun að halda, en aðhaldi. Auk þess, væri þessi vandi nú verkefni stjórnmálamanna.

Niðurstaða 25-manna sérfræðingaráðs Seðlabanka Evrópu:Hópurinn, sem talinn er skipaður hæfustu og fremstu efnahagssérfræðingum álfunnar, orðaði kjarna niðurstöðu sinnar svona:

„The only way to get back to higher interest rates is to have a growing economy and healthy inflation rates“. Lausleg þýðing: „Eina leiðin til að fara í vaxtahækkanir aftur er háð því, að efnahagsbati verði kominn í gang og verðbólgan komin á heilnæmt stig“.

Með öðrum orðum að utanaðkomandi verðbólgu linni.

Hvers má svo vænta af Seðlabanka Íslands á morgun?

Á morgun, 4. maí, tekur Seðlabankinn ákvörðun um stýrivexti á Íslandi næstu mánuði.

Síðustu misseri hefur bankinn hækkað stýrivexti úr 0,5% í 2,75%, meðan Seðlabanki Evrópu hefur, sem sagt, haldið vöxtum við 0,0%.

Efnahagsleg skilyrði hafa þó verið svipuð hér og í Evrópu, eins og fram hefur komið.

Sú spurning hlýtur þá að vakna, hvor aðilinn sé að nálgast verðbólguvandann með skynsamlegum og uppbyggilegum hætti, 25-manna ráð Evrópska seðlabankans eða peningastefnunefnd og Seðlabankastjóri, og hvor sé þá úti að aka.

Undarlegt nokk berja hagfræðingar viðskiptabankanna nú bumbur sína og hvetja til nýrra vaxtahækkana á morgun, um ekki minna en 0,5-1,0%. Ekki skilur undirritaður, hvað þeim gengur til. Vart í þágu viðskiptavina.

Vilja fara í 3,25-3,75% stýrivexti, sem myndu snarhækka vexti á veittum lánum til um 50.000 fjölskyldna í landinu, sem keyptu sér fasteign í góðri trú á trausta og heiðarlega lágvaxtastefnu Seðlabanka og ríkisstjórnar, m.a. skv. Lífskjarasamningnum 2019, svo og vaxtakosnað allra annarra fjármagnsþurfi, skuldara landsins.

Því miður er allt útlit fyrir að Seðlabanki fylgi þessari stefnu, jafn glórulaust og það virðist vera.

Hverjar verða svo afleiðingarnar?

Ef eitthvað er að marka 25 helztu efnahagsspekinga álfunnar og þeirra greiningu á ástandinu, verður frekari stýrivaxtahækkun ekki slökkvivökvi á verðbólguelda, heldur olía á þá, með ófyrirsjánlegum afleiðingum fyrir velferð fólksins í landinu, svo að ekki sé nú talað um kjarasamninga haustsins.

Kusum við ekki þetta yfir okkur?