Forseti Bandaríkjanna viðraði nýlega hugmyndir um að land hans kaupi Grænland af Danmörku. Ekki er þó kunnugt um að Grænland hafi verið falboðið og er að sjá sem flestum sem tjáð hafa sig um tillöguna þyki hún stórkarlaleg, undarleg og jafnvel fráleit. Þó draga fáir í efa ríka hagsmuni stórveldisins á víðáttumestu eyju heims eða láta sér til hugar koma að þeim verði ekki fylgt eftir af þess hálfu með einhverju móti nú eins og ávallt hefur verið frá lokum síðari heimsstyrjaldar.

Landakaupatal Bandaríkjaforseta hljómar vissulega kynduglega og ögrandi á tímum þar sem slíkur kaupskapur milli ríkja tíðkast ekki og það verður að teljast í meira lagi ólíklegt að sest verði að samningaborði á næstunni til að komast að niðurstöðu um kaup stórríkisins á næsta nágrannalandi okkar Íslendinga. Þess er þó að minnast að ekki nema rúm öld síðan gengið var frá kaupum Bandaríkjanna á nýlendum Dana á Jómfrúareyjum í Karíbahafi. Fyrir þær greiddu Bandaríkjamenn jafnvirði 25 milljóna Bandaríkjadala í gulli og skuldbundu sig auk þess til að viðurkenna fullveldisrétt Dana á öllu Grænlandi.

Enda þótt gullið kæmi sér vel í fjárhirslu danska ríkisins skipti viðurkenning Bandaríkjanna á fullveldi Danmerkur á öllu Grænlandi þó meira máli þegar fram í sótti.

Grænland verður dönsk nýlenda 1814–1933

Þegar úrslit Napóleonsstyrjaldanna voru gerð upp við friðargerðina í Kiel í janúar 1814 var bundinn endi á tilveru dansk-norska ríkisins sem hafði talist meðalstórt evrópskt ríki sem tekið hafði þátt í þrælaverslun, orðið sér úti um nýlendur á fjarlægum slóðum og haft pólitísk og efnahagsleg áhrif í Evrópu í samræmi við þessa stöðu sína. Danir höfðu stutt Frakka og hlutu að taka afleiðingum þess að þeir biðu ósigur. Svíar voru á hinn bóginn í sigurliðinu og nýttu sér stöðuna til að krefjast þess að Noregur gengi undir Svíþjóð en höfðu ekki áhuga á hinum fornu fylgilöndum Noregs, Íslandi, Færeyjum og Grænlandi sem fylgdu Danmörku áfram.

Ekki virðist nokkru sinni hafa leikið vafi á um að Ísland og Færeyjar tilheyrðu danska ríkinu frá fjöru til fjalls eftir 1814 en öðru máli gegndi um Grænland. Önnur ríki, þar á meðal Bandaríkin, viðurkenndu fullveldi Dana í grænlensku nýlendunum, þ.e. þeim stöðum þar sem Danir bjuggu og höfðu starfsemi, en efuðust um að það næði til óbyggða Grænlands eða andmæltu því beinlínis. Það átti til dæmis við um Norðmenn. Norskir veiðimenn tóku að stunda iðju sína á austurströnd Grænlands árið 1908, sem síðar leiddi til þess að gert var af hálfu norskra stjórnvalda tilkall til yfirráða á víðáttumiklu landsvæði þar. Viðurkenning bandarískra stjórnvalda á fullveldi Dana á öllu Grænlandi, sem gefin var í tengslum við söluna á Jómfrúareyjum sem urðu bandarískar 31. mars 1917, var því kærkomin dönskum stjórnvöldum og það var í krafti hennar sem Kristján X. Danakonungur lýsti yfir dönsku fullveldi á gervöllu Grænlandi í för konungsfjölskyldunnar til Færeyja, Íslands og Grænlands sumarið 1921 þegar þess var minnst að 200 ár voru liðin frá því að norski trúboðinn Hans Egede steig þar fyrst fæti sínum á land. Ekkert ríki andmælti þessu annað en Noregur en upp úr þessu fóru deilur Norðmanna og Dana um Austur-Grænland harðnandi. Hámarki náðu þær árið 1931 þegar hópur norskra veiðimanna lýsti vænan hluta af austurströnd Grænlands norskt yfirráðasvæði og hlaut stuðning þarlendra stjórnvalda við þessa ráðstöfun. Austur-Grænlandsdeilu Dana og Norðmanna var vísað til Alþjóðadómstólsins í Haag sem dæmdi Dönum í vil í apríl 1933, m.a. með tilliti til þess að Bandaríkin og svo önnur ríki á eftir þeim hefðu fallist á þann skilning að allt Grænland hefði komið í hlut Danmerkur við friðargerðina í Kiel í ársbyrjun 1814.

Kauptilboð 1946

Enda þótt Bandaríkjamenn sýndu enga tilburði til að kaupa Grænland um leið og þeir festu kaup á Jómfrúareyjum höfðu bæði stjórnvöld og einstaklingar þar í landi sýnt landinu áhuga frá því um miðja 19. öld og annað veifið höfðu heyrst raddir um að það ætti að réttu lagi að heyra undir Bandaríkin sökum legu sinnar. Vart gat legið vafi á því, hvað sem viðurkenningu fullveldis Dana á Grænlandi leið, að bandarísk stjórnvöld töldu Grænland á sínu áhrifasvæði og því var það í fullu samræmi við stöðu málsins og staðreyndir þess þegar Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseti lýsti því yfir eftir hernám Þjóðverja á Danmörku vorið 1940 að Grænland félli undir Monroe-kenninguna en í því fólst að hvers kyns ásælni annarra ríkja þar í landi yrði talin ógn við Bandaríkin.

Sökum þess að Danmörk var hernumin af Þjóðverjum litu Bandaríkjamenn svo á að allar tilraunir danskra stjórnvalda til að beita áhrifum sínum á Grænlandi væru afskipti óvinaríkis. Stjórn Grænlands var þá þannig háttað í aðalatriðum að nýlendustjórnin, Grønlands styrelse, sat í Kaupmannahöfn en hafði tvo landstjóra á Grænlandi sem æðstu fulltrúa ríkisvalds þar. Kom það nú í hlut þessara landstjóra að fara með ríkisvald á Grænlandi og eiga samskipti við fulltrúa Bandaríkjanna og Kanada en þessi ríki skipuðu bæði konsúla á Grænlandi vorið 1940 gegn andmælum danskra stjórnvalda en í fullri sátt við Henrik Kauffmann sendiherra í Bandaríkjunum sem sagt hafði sig úr lögum við danska stjórnkerfið eftir hernámið og starfækti sjálfstætt sendiráð í Bandaríkjunum. Kauffmann naut viðurkenningar bandarískra stjórnvalda og því kom það í hans hlut að undirrita fyrir hönd hinnar hernumdu Danmerkur varnarsamning milli Bandaríkjanna og Grænlands vorið 1941.

Hernaðarlegt mikilvægi Grænlands fyrir Bandaríkin var ótvírætt í seinni heimsstyrjöldinni og því var fylgt eftir með herstöðvum í landinu meðan á stríðinu stóð. Við lok stríðsins sáu bandarísk stjórnvöld ekki fram á annað en að Grænland yrði Bandaríkjunum afar mikilvægt áfram og þá kviknuðu meðal þarlendra stjórnarerindreka hugmyndir um að fara þess á leit við dönsk stjórnvöld að frá landið keypt. Mun þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, James F. Byrnes, hafa slegið því fram við hinn danska starfsbróður sinn, Gustav Rasmussen, árið 1946 að Bandaríkin keyptu Grænland af Dönum fyrir andvirði 100 milljóna Bandaríkjadala í gulli. Hugmyndin hlaut engan hljómgrunn hjá dönskum stjórnvöldum og líklega var kauptilboðinu aldrei svarað formlega af þeirra hálfu.

Sameinuðu þjóðirnar og lok nýlendutímans

Danmörk gerðist aðili að Sameinuðu þjóðunum þegar við stofnun þeirra haustið 1945 og kauptilboð bandaríska utanríkisráðherrans um Grænland á einmitt að hafa verið borið fram, óformlega, á þeim vettvangi, svo undarlega sem það þó hljómar. En staða Grænlands og Danmerkur hvort gegn öðru var einmitt mjög til umræðu fyrstu árin eftir stofnun samtakanna og var ekki ávallt að skapi danskra stjórnvalda. Kann það að skýra hvers vegna bandaríski utanríkisráðherrann kaus að vekja máls á Grænlandskaupum á þessum vettvangi.

Samþykktir Sameinuðu þjóðanna gerðu nýlenduríkjum skylt að leggja fram hjá alþjóðasamtökunum ár hvert skýrslu um ástand og horfur í nýlendunum. Dönum þótti illt að vera skipað í hóp nýlenduríkja sem þegar hér var komið mættu orðið mikilli gagnrýni og vildu komast undan þessari skyldu en var ekki gefinn kostur á því, meðal annars vegna andstöðu fulltrúa Bandaríkjanna við þá málaleitan. Varð þetta að endingu til þess að Grænland var gert að amti í Danmörku með stjórnarskárbreytingu sem tók gildi 5. júní 1953. Þar með lauk nýlendutímanum á Grænlandi og landið varð formlega hluti danska ríkisins.

Hvað þýðir tal Trumps?

Íslendingar stofnuðu lýðveldi á meðan á seinni heimsstyrjöldinni stóð og ekki hefði það getað orðið nema vegna stuðnings Bandaríkjanna. Þetta mikla stríð sem setti heiminn á annan endann og olli ólýsanlegum hörmungum gerbreytti einnig grænlensku samfélagi. Frá árinu 1908 fram í seinni heimsstyrjöld var Grænland lokað land. Þangað var engum hleypt nema með sérstöku leyfi danskra stjórnvalda og möguleikar Grænlendinga á því að komast út úr landinu voru afar takmarkaðir. Þessi ráðstöfun átti að verða Grænlendingum til verndar og koma í veg fyrir að þeir færu sér að voða í samskiptum við aðra en þá Dani sem hleypt var til landsins. Einangrun Grænlendinga var rofin á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Nokkur fjöldi Bandaríkjamanna kom til landsins á stríðsárunum og dvaldi þar í herstöðvum, skip komu á grænlenskar hafnir, og þegar stríðinu lauk var ekki reynt að loka Grænlandi fyrir umheiminum á nýjan leik.

Rétt eins og Ísland var Grænland hernaðarlega mikilvægt fyrir Bandaríkin í seinni heimsstyrjöldinni, hélt áfram að vera það meðan á kalda stríðinu stóð og er það enn sem meðal annars má marka af því að um það leyti sem undirbúningur að lokun herstöðvarinnar í Keflavík hófst var unnið að endurnýjun varnarsamnings sem gerður hafði verið milli Danmerkur og Bandaríkjanna árið 1951 og til þessa dags hafa Bandaríkin starfrækt herstöðvar á Grænlandi. Fljótlega eftir upphaf kalda stríðsins var aðaláherslan lögð á Thule-herstöðina á norðvestur Grænlandi sem komið var á fót snemma á 6. áratug síðustu aldar og grænlenskir íbúar staðarins þvingaðir til að flytja á brott. Hefur komið í ljós að Bandaríkjamenn fóru þar sínu fram og höfðu kjarnorkuvopn í herstöðinni þótt stefna danskra stjórnvalda væri að landið væri kjarnorkuvopnalaust. En þegar að kjarnorkuvopnum í Grænlandi kom kusu þau að þegja þunnu hljóði þótt þeim væri vel kunnugt um málið. Ekkert endurgjald var tekið fyrir bandarísku NATO-herstöðvarnar á Grænlandi fremur en gert var hér á landi en þýðing þeirra fyrir Bandaríkin og NATO á tímum kalda stríðsins var ótvíræð og er svo enn. Mun ekki ofsagt að hlutverk Danmerkur í NATO væri allverulega miklu rýrara en það er ef ekki nyti Grænlands við og framlag Dana til þeirra samtaka felst ekki síst í aðstöðunni sem NATO og Bandaríkin hafa á Grænlandi.

Hin óvæntu orð Trumps Bandaríkjaforseta um möguleg kaup Bandaríkjanna á Grænlandi hafa enn á ný dregið athyglina að mikilvægi eyjunnar stóru fyrir heimsveldið. Og nú er margt breytt frá því að Byrnes utanríkisráðherra orðaði kaup á Grænlandi árið 1946, kannski til að ögra dönskum ráðherra sem ekki felldi sig við að landi hans væri skipað meðal nýlenduríkja. Grænland hefur nú þing og heimastjórn, full yfirráð yfir auðlindum landsins og stjórnkerfi sem gæti sjálfsagt gætt hagsmuna Grænlendinga ekkert síður en það danska. Tal Trumps Bandaríkjaforseta um kaup á Grænlandi er nokkuð órætt og laust í reipunum. Fái það einhverja merkingu ræðst hún af því sem á eftir að gerast fremur en því sem gerst hefur hingað til. Og hún ræðst að því hvað Grænlendingar gera.

Höfundur er sagnfræðingur.