Um síðustu helgi birtist athyglisvert viðtal í Fréttablaðinu við Fidu Abu Libdeh. Árið 1995, þegar Fida var sextán ára, flutti hún til Íslands frá Palestínu ásamt móður sinni og systkinum. Fida þráði að ganga menntaveginn en átti erfitt með að fóta sig. „Kerfið gerði ekki ráð fyrir okkur,“ sagði Fida. Hún gafst þó ekki upp og af harðfylgi lærði hún íslensku, útskrifaðist úr orku- og umhverfistæknifræði frá Háskóla Íslands og stofnaði eigið fyrirtæki. Fida segist þó enn ekki vera álitin jöfn þeim sem fæddust á Íslandi. Þegar hún verslar í stórmörkuðum er hún gjarnan spurð hvort hún vinni þar. Nýverið gekk hún inn á kaffistofu þar sem vörur eru framleiddar fyrir fyrirtæki hennar. Hópur karlar stóð á fætur og spurði: „Ertu komin til að þrífa?“ Fida svarði: „Af hverju í fokkinu haldið þið það?“

Slíkar staðalhugmyndir eru útbreiddar. Björk Eiðsdóttir, ritstjóri helgarblaðs Fréttablaðsins, sem tók viðtalið við Fidu sagði sögu í leiðara í vikunni af því þegar hún ritstýrði eigin tímariti. Hún sat við tölvuna á skrifstofu blaðsins í opnu rými sem hún deildi með fleiri fyrirtækjum þegar þrír karlar gengu inn á leiðinni á fund. Þeir sneru sér að Björk og spurðu: „Gætirðu sótt fyrir okkur kaffi?“ Síðan hlógu þeir dátt að háðsglósunum.

Á yfirborðinu eru þessar tvær frásagnir dæmi um hve lengi lifir í gömlum glæðum; fordómar í garð innflytjenda eru þrautseigir; enn glittir í gömul viðhorf um að konur séu handlangarar merkilegra manna sem tryggja að jörðin snúist um möndul sinn. Undir yfirborðinu leynist hins vegar önnur saga, saga hóps sem býr við svo alltumlykjandi fordóma að við sjáum þá ekki frekar en loftið sem við öndum að okkur.

Fullkomlega tilgangslaus

Hin sextíu og sjö ára Julie Cousins sagði starfi sínu lausu á dögunum. Cousins starfaði sem ræstitæknir hjá breska bankanum HSBC og hafði þrifið banka í þrjátíu og fimm ár. Uppsagnarbréf sem Cousins skrifaði yfirmanni sínum fór eins og eldur um sinu um internetið. Þar greindi hún frá ástæðu uppsagnarinnar sem hún sagði „óvægin og grimm“ orð yfirmannsins í hennar garð. Cousins bætti við: „Þær endurspegla þinn innri mann en ekki minn.“ Samstarfsfólki sínu í bankanum bar hún kveðju: „Í veröld þar sem þið getið verið hvað sem er, verið góð – því þið eruð ekkert merkilegri en ræstitæknirinn.“

Skoðanakönnun sem var gerð í Bretlandi árið 2015 sýndi að 37% fólks á vinnumarkaði taldi starf sitt vera með öllu óþarft. Mannfræðingurinn David Graeber skrifaði metsölubókina „Bullshit Jobs“ byggða á könnuninni þar sem því er haldið fram að meira en helmingur starfa í nútímasamfélagi séu fullkomlega tilgangslaus en flest séu þau á sviði fjármálastarfsemi, lögfræði, mannauðsstjórnunar, almannatengsla og ráðgjafastarfsemi.

Það móðgast enginn við það að vera talinn mannauðsstjóri að ósekju. Það sama verður ekki sagt um ræstitækna.

Skömmu fyrir sviplegt andlát David Graeber í september síðastliðnum flutti Breska ríkisútvarpið hugleiðingar hans um kórónaveirufaraldurinn. „Lokun samfélaga í sóttvarnarskyni hefur sýnt okkur að því fleiri sem njóta góðs af því sem einstaklingur vinnur við því lægri eru laun hans,“ kvað Graeber.

Það sama virðist gilda um virðingu. Starfstitlar þeirra sem sinna gagnlegustu störfum samfélagsins, störfum á borð við ræstingar og afgreiðslu í matvöruverslunum, eru taldir hin mesta smán. Þeir eru notaðir til að móðga og við tökum þeim hugsunarlaust sem móðgun.

„Hvað er svona merkilegt við það ...?“ sungu Grýlurnar forðum. Hvað er svona merkilegt við það að vinna á skrifborðsstól á hjólum? Hvað er svona merkilegt við það að sitja fundi, senda tölvupósta og skrifa skýrslur? Julie Cousins veit svarið: Ekkert.