Ert þú kannski sitjandi heima að lesa fréttir og finnst eins og að heimurinn sé að farast og að allt sé að fara á versta veg vegna CO­VID-19? Líður þér eins og þú getir ekki gert neitt við vandanum á meðan þú horfir á vanda­málið stækka og stækka? Þannig líður mörgum vegna ham­fara­hlýnunar.

Að horfa á allan heiminn bregðast við veirunni á augna­bliki er sönnun þess að leið­togar heimsins geta í raun og veru gripið til rót­tækra að­gerða ef viljinn er fyrir hendi. Al­þjóða­sam­starfið, og við­bragðs­hraðinn sem okkur var sagt að væri „ó­mögu­legt“ er að gerast og er að virka vel. Heimurinn er í al­vörunni að taka sig saman til að vinna gegn sam­eigin­legu vanda­máli. En þar sem ham­fara­hlýnun er jafn stórt, ef ekki stærra vanda­mál, hvar eru rót­tæku að­gerðirnar gegn henni?

Í mörg ár hafa lofts­lags­að­gerða­sinnar verið að kalla eftir að­gerðum strax. Og ár eftir ár hafa að­gerðir heimsins valdið okkur miklum von­brigðum. Vísinda­menn segja að við höfum minna en ára­tug til þess að al­gjör­lega um­bylta hag­kerfinu, fjár­festa í endur­nýtan­legri orku og breyta matar­venjum okkar. Þrátt fyrir þessa miklu en jafn­framt spennandi á­skorun hafa leið­togar heimsins ekki gert nóg og heimurinn því skrefi nær fram­tíð þar sem veður­ham­farir, súrnun sjávar, fjölda­flótti og stærsta efna­hags­hrun mann­kyns­sögu verður hluti af dag­legu lífi jarðar­búa.

Maður veltir fyrir sér: hvað ef við myndum bregðast við ham­fara­hlýnun með sama krafti og við bregðumst við CO­VID-19? Þau við­brögð myndu líkjast því sem við erum að sjá núna, nema með já­kvæðari for­merkjum. Frétta­um­fjöllun allan sólar­hringinn um þróun mála. Við hlustum á sér­fræðinga sem halda frétta­fundi dag­lega og engir efa­semdar­menn fá að af­vega­leiða um­ræðuna, enda vísindi ekki skoðana­mál. Olíu­vinnslu er hætt á augna­bliki, ríki myndu kalla eftir vopna­hléi og styrkja þau sam­fé­lög sem mest finna fyrir á­hrifum hlýnunar. Þrátt fyrir mikla breytingu á dag­legu lífi fólks er meiri­hlutinn sam­mála þessum rót­tækum að­gerðum þar sem þær tryggja fram­tíð næstu kyn­slóða. Hins vegar, í stað ein­angrandi sótt­kvíar og sam­komu­banns, gætu við­brögð heimsins við ham­fara­hlýnun orðið til hins betra fyrir al­menning. Fjár­festingar í grænum störfum og ný­sköpun styrkja hag­kerfið, þjóð­há­tíðar­dagur þar sem allir planta trjám, og að við fögnum því að lifa jarð­vænum og heil­brigðum lífs­stíl. Þetta eru meðal þeirra að­gerða sem Ís­land gæti gripið til þar sem við erum ekki bara að koma í veg fyrir yfir­vofandi heims­krísu, heldur líka að byggja upp betri heim.

Svo, hvað gerum við nú? Nú hefur mengun í heiminum farið niður vegna lokana á stórum verk­smiðjum en með á­hrifa­ríkri fjár­festingu í grænni tækni getum við látið hag­vöxt rísa, en mengun halda á­fram að minnka. Þegar við náum stjórn á CO­VID-19 getum við ekki haldið á­fram lífinu eins og það var áður en þetta byrjaði. Við þurfum að snúa okkur að næstu krísu sem ein­fald­lega getur ekki beðið lengur. Í sam­fé­laginu heyrum við margar sögur af fólki sem vinnur nú heima og er að njóta þess að draga að­eins úr hraðanum. Ég vona að við lærum af þessu að lífs­gæði felast ekki endi­lega í því að þeysast um allt og kaupa hluti, heldur að njóta augna­bliksins. Oft eru það ein­földu hlutirnir heima sem gefa okkur mestu lífs­hamingjuna.