Nýlega átti ég samtal við vinkonu mína sem vakti mig til umhugsunar. Við töluðum meðal annars um stjórnmálin og hún tilkynnti mér að hún ætlaði að kjósa annan flokk en venjulega því henni leist engan veginn á konuna sem nú fer fyrir hennar flokki í kjördæminu.

Hún hafði hins vegar hlustað á karl sem talaði svo henni líkaði og var í efsta sæti á lista annars flokks. Ég reyndi að mögla og spurði hvort það væri ekki betra að kjósa stjórnmálaflokk eftir málefnalegri stefnu hans, en féllst á að í okkar litla landi væri kannski ekkert vitlaust að kjósa einstakling sem maður teldi líklegt að kæmist á þing og ynni þar af skynsamlegu viti og gæti unnið vel með öðru fólki.

Forystufólki ríkisstjórnarinnar, sem kemur meðal annars sitt af hvorum enda stjórnmálanna, hefur tekist að vinna saman að góðum málum þó það sé ekki sammála um alla hluti. Það virðist líka vera svo að stefnur flokkanna eiga meira sameiginlegt heldur en það sem sundrar, sem er þó oftast það sem haft er hæst um.

Hverjir eru ekki umhverfisverndarsinnar, hverjir vilja ekki að fólk hafi atvinnu, að landið haldi sjálfstæði sínu, að fyrirtæki geti starfað og blómstrað, að jafnrétti ríki, að fátækt sé útrýmt, að heilbrigðiskerfið og menntakerfið virki vel og að fólk geti átt áhyggjulaust ævikvöld og svo framvegis?

Þetta er allt spurning um jafnvægi, forgangsröðun og aðferðir til að ná settu marki.

Ég tek ofan fyrir þeim sem nú hafa sýnt fram á að það er hægt að vinna saman að mikilvægum málum, finna lausnir sem allir geta sætt sig við og jafnvel að lifa við það að fá ekki allt í gegn sem maður helst hefði kosið.

Annað sem hefur vakið virðingu mína fyrir þeim þremur sem leiða ríkisstjórnina er hvernig þau tala og alveg sérstaklega hvernig þau tala ekki. Þau eiga það nefnilega sameiginlegt að tala málefnalega og kurteislega um þau mál sem tekist er á um, en nota ekki þá vinsælu aðferð að tala niður til og gera lítið úr pólitískum andstæðingum til að hefja sig sjálf og sína stefnu á stall.

Það þýðir ekki að þau geti ekki barist fyrir sínum málefnum, því það eru þau líka fullfær um.

Við erum mörg orðin leið á pólitískum skoðanaskiptum sem byggjast á skítkasti og niðurrifi en það eru því miður nokkuð margir sem komast ekki af án slíks málflutnings.

Forystufólk stjórnarandstöðuflokka hefur í kosningabaráttunni til dæmis gert sig sekt um að tala um samvinnu stjórnarflokkanna af fyrirlitningu og segja það til marks um að flokkar séu í skúffum hjá öðrum, hafni eigin stefnu og jafnvel grunngildum sínum í stjórnarsamstarfinu, að ekki sé nú talað um yfirlýsingu um að vilja breyta skrifstofuhúsnæði eins flokks í almenningssalerni og ráða fyrrverandi ráðherra sem klósettvörð.

Enginn þessara flokka kemst í ríkisstjórn án samstarfs við aðra og því spyr ég, hvernig ætlar þetta fólk að vinna með öðrum ef það hefur þessa sýn á samstarf við fólk sem hefur aðrar skoðanir?

Ég hef ekki heyrt Katrínu Jakobsdóttur, Bjarna Benediktsson eða Sigurð Inga Jóhannsson tala með þessum hætti um sín stefnumál eða sína pólitísku andstæðinga, en þau flytja þó mál sitt af einurð og stefnufestu svo allir skilja.

Ég er þakklát fyrir það að búa í lýðræðisríki þar sem fulltrúar margra sjónarmiða og gilda sitja á þingi og þurfa í störfum sínum að taka tillit til þess að þjóðin hefur ekki öll sömu skoðanir, viðhorf eða forgangsmál.

Það væri dapurlegt að hafa einræðisherra eða stjórn með einn stjórnmálaflokk að baki, eina skoðun, eina stefnu, engin skoðanaskipti, engin átök heldur bara einróma ákvarðanir. En við slíkt stjórnmálaástand búa auðvitað margir í þessum heimi.

Það er mikilvægt að á þingi þurfi fólk að hlusta á skoðanir annarra og virða þær, reyna að skilja hvað að baki liggur og vinna loks að því að finna leið sem allir geta verið nokkuð sáttir við. Enginn einn flokkur fær allt sem hann vill. Allir þurfa stundum að gefa eftir og finna leið til sátta.

Núverandi ríkisstjórn hefur sýnt að hún er fær um að vinna með þessum hætti, forystufólk stjórnarflokkanna sýnir hvert öðru greinilega virðingu sem stundum skortir í máli annarra stjórnmálamanna.

Fólkið sem býður sig fram til setu á Alþingi hefur væntanlega allt þann tilgang að stuðla að því að gera íslenskt samfélag betra. Gott væri að skiptast á skoðunum með það í huga að allir þátttakendur stefna í raun að því sameiginlega marki, þó menn kjósi mismunandi leiðir til að ná því.