Á dögunum urðu viss straumhvörf í alþjóðlegri umræðu um efnahagsmál þegar nýr forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Kristalina Georgieva, ákvað að verja drjúgum tíma sínum á ársfundi sjóðsins til þess að tala ekki bara um kreppuhorfur og skuldastöðu þjóðanna, heldur um loftslagsmál. Marga rak í rogastans. Hvaða átti það að þýða að verja dýrmætum tíma mikilvægs fólks til þess að tala um slíkt jaðarmál?

Síðan hefur Georgieva, sem er hagfræðingur frá Búlgaríu, farið í nokkur viðtöl og skýrt mál sitt. Hún bakkar ekki baun. Auðvitað eru loftslagsmál ekki gæluverkefni. Fátt ef nokkuð er mikilvægara en að þjóðir heimsins bregðist við hamfarahlýnun og reyni að afstýra tilheyrandi veðurfarsbreytingum og eyðingu lífríkis. Sjálfur grundvöllur mannlegrar tilvistar er í húfi. Örlagastundin nálgast.

Margir skilja þetta vel og gera engar athugasemdir við það að yfirmaður fjármálastofnunar vilji meina að grundvöllur tilvistarinnar sé áhyggjuefni í efnahagslegu tilliti. Þó það nú væri. Ekkert líf þýðir jafnframt ekkert efnahagslíf. Eða hvað? Svo eru nefnilega hinir sem einfaldlega virðast alls ekki ætla að ná þessu. Aukin framleiðsla á grunni aukinnar notkunar á jarðefnaeldsneyti virðist fyrir sumum vera mikilvægari en sjálf tilvistin. Ekki má bregða út af áætlunum um hagvöxt, jafnvel þótt sjálft lífið sé í húfi.

Framtíðin og Frozen

Hér byrgja peningalegir hagsmunir mönnum augljóslega sýn. Auðvitað vill Rússland halda áfram að vera olíuframleiðsluríki. Það er tómt vesen fyrir Rússa að hætta því. Áætlanir á þeim bænum um aukinn útflutning á olíu og gasi eru gígantískar. Sama gildir um Bandaríkjamenn sem fyrst núna eru að verða olíuútflutningsríki. Þeir vilja helst ekki hætta olíuframleiðslu á þeim tímapunkti. Gefa skal í. Og Norðmenn eru ekkert að fara að hætta í olíunni í náinni framtíð til að snúa sér alfarið að gönguskíðum.

Samt vill maður vona. Í dag hefst loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Madríd. Ég er nánast kominn á þann stað að vilja fylgjast með í beinni. Ekki vegna þess að loftslagskvíðinn, svokallaður, sé orðinn svo mikill, heldur frekar út af því, að sem viss áhugamaður um heimsmál og tilveruna get ég ekki varist þeirri hugsun að í raun sé allt annað sem fjallað er um í heiminum frá degi til dags nánast fánýtt. Loftslagsmálum verður að redda áður en lengra er haldið. Svo ég vitni í Frozen 2, þar sem meginmantran er einhvern veginn á þessa leið: Ef þú veist ekki hvernig framtíðin verður, gerðu þá bara það næsta sem þér finnst rétt. Nú vona ég að slíkt fari að gerast á einhvern hátt. Að hið rétta, á einhvern þann tilviljanakennda og stundum klunnalega mannlega máta sem manneskjum tekst stundum að gera rétt, fari að láta á sér kræla.

Hið stóra verkefni

Georgieva var í viðtali við The Observer um helgina. Þar hélt hún sem sagt uppteknum hætti. Hún talaði um stórhveli. Og af hverju í ósköpunum er forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að tala um stórhveli? Jú, þeir binda á sínum líftíma gríðarlegt magn koltvísýrings, um 33 tonn hver. Þeir eru okkur þess vegna lífsnauðsynlegir. Líka í efnahagslegu tilliti. Allt sem hjálpar til við að snúa við hlýnun jarðar hjálpar líka til við að koma í veg fyrir hörmungar sem verða ekki bara líffræðilegar heldur líka óhjákvæmilega efnahagslegar.

Þessar áherslur vekja von. Peningakona talar um stórhveli. Viss straumhvörf segi ég. Og líka vegna annars sem hún segir, og aðrir hafa sagt: Ef rétt er á málum haldið þá verður hægt að stuðla að umbreytingu efnahagskerfanna. Málið snýst fyrst og fremst um eitt: Að olíuöldinni ljúki. Að hætt verði að nota jarðefnaeldsneyti. Mannkynið keppir við tímann. Byggja þarf annan, hreinan, grunn undir velmegun.

Úrslitaviðureignin

Það gerist aldrei, segja þá margir. Af og frá. Brennt verður þar til allt brennur. En lítum á. Hvað getur keppt við tímann? Jú, stóru kraftarnir í hinum mannlega, jarðneska heimi eiga sér einn sameiginlegan aflgjafa: Peninga. Ekkert virðist breyta jafnmikið veröldinni og peningar, hvort sem það er gott eða slæmt. Helst er hægt að vona að það sem gerist næst — sérstaklega eftir svona viðtöl eins og við Georgievu — er að þeir sem sjá efnahagslegan hag í því að finna nýja orkugjafa muni einn daginn, nánast í einni andrá, storma fram á völlinn með nýjar aðferðir sem menga ekki neitt, — til að tendra ljós, fljúga vélum, keyra bíla og knýja verksmiðjur. Og fundnar verða leiðir til að binda CO2 í massavís og jafnvel byggja úr því hús.

Þessi tækni er öll til. Um allar jarðir er fólk að betrumbæta hana. Þegar hún verður orðin nógu góð og nógu ódýr mun úrslitaorustan milli nýja tímans og gamla tímans fara fram og gamli tíminn — reykmettaður, grár og gugginn — mun tapa. Held ég.