Notkun snjalltækja og áhrif þeirra á börn hefur verið áberandi í umræðunni undanfarið. Neikvæðu áhrifin geta verið margvísleg. Notkun snjalltækja eftir kvöldmatartíma hefur eins og margir vita slæm áhrif á svefn og á það bæði við um börn og fullorðna. Það er meðal annars vegna þess að birtan úr tækjunum dregur úr framleiðslu á svefnhormóninu melatonin sem stuðlar að eðlilegri syfju í lok dags. Samskipti sem fara að mestu fram í símum geta dregið úr hæfni barna til að læra eðlileg félagsleg samskipti. Börn og unglingar fara gjarnan í símana þegar þau eru saman, í stað þess að leika sér eða spjalla saman. Sama á við um tölvuleikjanotkun. 

Algengt er að börn hittist í heimahúsi og eyði nær öllum tímanum sem þau eru saman í tölvuleiki í stað þess að tala saman, leika sér eða fara út úr húsi. Skjátími kemur í staðinn fyrir margt sem talið er mikilvægt fyrir heilaþroska barna. Má þar nefna þjálfun í að mynda gott vinasamband, tala saman augliti til auglits, snertingu á milli vina (svo sem klapp á bak eða faðmlag), hreyfingu og útiveru svo eitthvað sé nefnt. Sé þessum fyrrnefndu atriðum ekki sinnt getur það haft áhrif á greind, seiglu og getu barna til að þola álag og takast á við erfið verkefni hvort sem er í skóla eða í lífinu almennt.

Í fyrirlestri sem Björn Hjálmarsson barnalæknir hélt fyrir um ári síðan kom fram að nærri 90% kennara telji að tæknin hafi skapað auðtruflaða kynslóð með stutta athyglisspönn. Nærri 50% fannst dregið hafa úr gagnrýnni hugsun og færni til heimanáms. 76% kennara töldu nemendur orðna skilyrta til þess að leita svara í miklum flýti, í stað þess að gefa sér tíma til þess að leita að góðu, réttu og vel ígrunduðu svari við spurningum. 60% kennara töldu að dregið hefði úr skriflegri færni og samskiptum sem fælu ekki í sér samskipti í gegnum snjalltæki.

Aukinn kvíði meðal unglingsstúlkna

Frá árinu 2000 hefur kvíði meðal unglingsstúlkna farið stigvaxandi á Íslandi samkvæmt niðurstöðum frá Rannsóknum og greiningu. Á fjórum árum frá árinu 2000 jókst meðaltalið yfir landið um 10%. Samkvæmt þeim niðurstöðunum finna um 17%  stúlkna oft eða stöðugt fyrir alvarlegum kvíðaeinkennum. Í Vesturbæ Reykjarvíkur voru 3% drengja og 20% stúlkna í 9. bekk haldin kvíða árið 2012 en 27% stúlkna í Breiðholtinu árið 2015, sem er 20% hækkun frá árinu 2009. Kvíði meðal stúlkna er einnig að aukast í mörgum öðrum vestrænum samfélögum, svo sem í Bandaríkjunum, Ástralíu, Nýja Sjálandi og á Bretlandseyjum.

 Mælingar á Bretlandseyjum sýndu meðal annars að þriðjungur stúlkna væru með einkenni kvíða sem ykjust milli ára, á meðan niðurstöður sýndu að kvíði meðal drengja stóð í stað. Í þeirri rannsókn kom einnig í ljós að stúlkur sem áttu vel menntaða foreldra upplifðu meiri kvíða en aðrar. Þar var sett fram sú tilgáta að þessar stúlkur væru undir meiri pressu frá samfélagsmiðlum og upplifðu meiri kröfur frá foreldrum um að standa sig vel í námi. Tilgáta annarar rannsóknar var á sömu leið. Hún var sú að stúlkur sem eru aldnar upp af foreldrum með minni menntun hefðu þróað með sér seiglu sem umhverfi þeirra hafi ýtt undir. Einnig var rætt um þann möguleika að foreldrar með minni menntun gerðu minni kröfur til dætra er varða frammistöðu í námi. Hvort þetta á einnig við á Íslandi hefur ekki verið skoðað mér vitanlega.

Hvað ýtir undir kvíða hjá ungum stúlkum?

Notkun snjalltækja hefur aukist í takt við kvíða meðal unglingsstúlkna. Hér á landi hefur ekki verið rannsakað hvort kvíðnar stelpur noti tækin meira eða hvort notkunin geri þær kvíðnar, nema hvort tveggja sé. Snjalltækin og öll þau forrit sem þau hafa að geyma, svo sem Musically, Snapchat, Instagram og Facebook geta haft mikil áhrif á líðan stúlkna. Algengt er að einelti eigi sér stað í hinum rafræna heimi, án þess að foreldrar hafi nokkra hugmynd um það og vil ég nefna nokkur dæmi því til stuðnings. Börn, mörg frá átta ára aldri eru inni á forritinu Musically en þar eru börn að taka upp myndbönd af sér við að leika að þau séu að syngja lög. Við frammistöðuna geta önnur börn skrifað ýmar athugasemdir, misuppbyggjandi eða niðurlægjandi og getur forritið því orðið ákjósanlegur vettvangur fyrir rafrænt einelti. Snapchat getur einnig haft skaðleg áhrif á börn og unglinga. 

Í starfi mínu sem sálfræðingur hef ég fengið til mín vinalausar stúlkur, sem sumar hafa lent í því að vera hafnað af vinkvennahópi sínum. Þær tala um að Snapchat valdi þeim mikilli vanlíðan. Ástæðan er sú að þær eru í sífellu að fá „snöpp” til dæmis frá fyrrum vinahópi, þar sem allar fyrri vinkonurnar eru saman að gera eitthvað skemmtilegt. Það veldur viðkomandi kvíða og sárri höfnunartilfinningu. Vinalausar stúlkur fá „snöpp” frá hinum stelpunum í bekknum sem eru að gera eitthvað saman, á meðan þær vinalausu eru einar heima og aldrei boðið með. Það versta við Snapchat í aðstæðum eins og þeim sem ég nefni hér að ofan er að skilaboðin geta verið að koma oft á dag, allan daginn. Þessar stúlkur fá stöðuga áminningu um að þær eigi ekki vini. Þetta er ekki eins og var hér áður. Þá var hægt að fara heim úr skólanum og skilja vinavandamálin eftir þar og fara að hugsa um og gera eitthvað annað.  

Með aukinni snjallsímanotkun eru stúlkur í þeirri stöðu að vera mun berskjaldaðri gagnvart höfnun en áður og geta sífellt verið minntar á að þær séu hafðar út undan. Facebook getur einnig verið kvíða- og streituvaldandi fyrir stúlkur. Þær eru margar hverjar að setja sjálfsmyndir af sér á Facebook í von um að fá sem flest „like”. Ekki nóg með það, heldur skiptir það víst einnig miklu máli á hversu stuttum tíma þær ná að fá sem flest „like“. Þarna ríkir mikil samkeppni eins og algengt er á þessum aldri. Þessi eftirsókn eftir því hve mörgum öðrum líkar myndin þín og á hve stuttum tíma „like-in” koma inn getur haft slæm áhrif á sjálfstraust stúlknanna. Tökum dæmi, ef tvær bestu vinkonur setja sjálfsmynd af sér á Facebook á sama tíma og önnur fær miklu fleiri „like” en hin og á styttri tíma, það gæti haft slæm áhrif á sjálfsmynd stúlkunnar sem fær færri „like”. 

Stúlkur sem setja af sér mynd á Facebook geta borið sig saman við fjölda annarra stúlkna og séð að fleiri eru að „líka við” myndir annarra. Þær geta í kjölfarið farið að draga ýmsar ályktanir um eigið ágæti, fundist þær minna virði en aðrar stúlkur, upplifað vanlíðan, höfnun, og lægra sjálfsmat. Ef við setjum okkur í spor þessara stúlkna getum við skilið að þetta er mikið álag á þær, þar sem bæði útlit og vinsældir virðast því miður skipta miklu máli hjá stórum hluta unglingsstúlkna. Ungar stúlkur bera sig einnig saman við hinar ýmsu netstjörnur sem vinna við að láta taka af sér myndir sem þær birta á netinu. Myndirnar hafa oftar en ekki verið lagaðar með „photoshop”. Ungu stúlkurnar elta þessar netstjörnur á internetinu, bera sig saman við þær og geta farið að þróa með sér lægra sjálfsmat. Þær geta farið að gera mjög óraunhæfar kröfur til sín og ná aldrei að finnast þær vera eins fullkomnar og netstjörnunar sem þær líta upp til.

Hvað er til ráða fyrir stúlkurnar?

Þessum skaðlegu áhrifum snjalltækja og samfélagsmiðla ber að taka mjög alvarlega og við hin fullorðnu þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir þau áhrif.

 Foreldrar þurfa að sjálfsögðu að gera sér grein fyrir því að þau þurfa að vera góðar fyrirmyndir. Mikilvægt er að foreldrar séu vakandi fyrir líðan dætra sinna og eigi opinskáar umræður um þær hættur sem fylgja rafrænum heimi og þeim skilaboðum sem þar kunna að leynast. Mikilvægt er að styðja stúlkurnar til að móta með sér heilbrigða sjálfsmynd og ákveðið sjálfstæði gagnvart þessum nýja veruleika sem snjallheimar og upplýsingar þaðan bjóða upp á. Til þess að hjálpa þeim stúlkum sem nú þegar þjást af kvíða mætti auka aðgengi barna og unglinga að sálfræðingum. 

Nú þegar eru nokkrar heilsugæslustöðvar komnar með sálfræðinga til starfa en biðlistar þar eru yfirleitt langir. Ríkið þarf að sjá til þess að greiningar og öll viðtöl barna og unglinga á einkastofum séu niðurgreidd. Þjóðfélagið þarf að taka höndum saman og sporna gegn útlitsdýrkun meðal barna og ungmenna. Þar þurfa foreldrar einnig að líta í eigin barm og gæta þess sem sagt er að barninu viðstöddu. Að fá mikið af neikvæðum skilaboðum frá foreldrum eða nánum aðstandendum getur haft slæm áhrif á barnið. Foreldrar ættu ekki að tala neikvætt um eigið útlit, þau þurfi að fara í megrun, hvað þá að börn eða unglingar séu búin að bæta á sig. Börn og unglingar eiga að læra að þykja vænt um sig eins og þau eru, sætta sig við eigið útlit, einblína á styrkleika sína og stunda heilbrigðan lífsstíl. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft.

Hvernig er hægt að minnka snjallsímanotkun og notkun samfélagsmiðla?

Hvað varðar snjallsímanotkun barna og unglinga er mikilvægt að foreldrar eða forráðamenn fylgist með og ræði við börn sín og unglinga um það hvað þau eru að gera á samfélagsmiðlum og á internetinu. Einnig þarf að fræða þau um skaðleg áhrif þessarar nýju tækni. Börn og unglingar þurfa að vera á varðbergi gagnvart einelti og skilaboðum frá ókunnugum. Það þarf að brýna fyrir þeim að láta foreldra sína alltaf vita ef þau fá óviðeigandi skilaboð eða myndir sendar, eða ef þau eru að lenda í einelti eða sjái að einelti sé í gangi á samfélgasmiðlunum. Góð regla er að koma alveg í veg fyrir að börn og unglingar séu með símann sinn inni hjá sér þegar þau fara að sofa. 

Allt of algengt er að börn eru í símanum langt fram yfir háttatíma. Þau sofa oft allt of lítið og mæta dauðþreytt í skólann daginn eftir. Of lítill svefn hefur meðal annars slæm áhrif á líðan barna og unglinga og veldur einbeitingarerfiðleikum í skóla og við heimanám. Auðvelt er að kaupa hefðbundna vekjaraklukku til að nota í stað vekjaraklukkunnar í símanum. Ef börnin eru með símann hjá sér þegar þau vinna heimavinnuna sína, er hætt við því að athyglin leiti annað og trufli einbeitingu þeirra. 

Nauðsynlegt er að setja takmörk á snjalltækjanotkun og sjónvarpsáhorf barna og unglinga. Læknasamtök í Bandaríkjunum og Kanada ráðleggja að börn á aldrinum 0-2 ára fái engan skjátíma. Börn á aldrinum 3-5 ára fái skjátíma að hámarki eina klukkustund á dag og börn og unglingar á aldrinum 6-18 ára um tvær klukkustundir á dag. Best er fyrir börn að leika sér þegar þau hittast og þá er gott að foreldrar geymi símana fyrir þá á meðan þau eru við leik. Börn og unglingar ættu einnig að eiga sér áhugamál utan tölvuleikja og snjalltækja. 

Það ætti að reynast auðvelt þar sem úrval námskeiða fyrir börn og unglinga er orðið gríðarlega mikið og er alls ekki allt bundið við íþróttir. Svo er hægt að lesa, spila, fara í sund, spjalla við fjölskyldu og vini, leika með öll þau ósköp af dóti sem börn eiga nú til dags, teikna og lita, fara út að leika eða í göngutúr og fleira skemmtilegt. Áður en snjallsímar og tölvur fóru að taka yfir voru börn og unglingar ekki í vandræðum með að finna sér eitthvað að gera. Það að leiðast og þurfa að finna sér eitthvað að gera hvetur börn til að nota hugmyndaflug sitt, sem er mikilvægt fyrir heilaþroska þeirra.

Þetta á sér sjaldan stað hjá börnum og unglingum í dag því þau hafa alltaf snjalltæki eða tölvu að grípa í. Ræða þarf við unglingsstúlkur um að lífið snúist ekki um það að vera vinsæll og fallegur. Gott er að ræða um hvað skipti raunverulegu máli í lífinu. Hjálpa þeim að finna sér raunhæf og mikilvæg markmið að stefna að og styðja þau til þess að ná þeim. Og það sem mikilvægast er fyrir þau, er að eiga sem flestar gæðastundir með fjölskyldunni og mynda góð og traust tengsl við foreldra sína eða forráðamenn og systkini.

Sigrún Þórisdóttir

Höfundur er sálfræðingur og vinnur með börnum, unglingum og ungmennum hjá Sálfræðingunum Lynghálsi.