Við notum orðið áfall stundum í hugsunarleysi. En hvað er áfall? Það er þegar persóna upplifir afgerandi hjálparleysi í aðstæðum og ógn við öryggi og líf án þess að geta varist með neinum hætti. Áföll geta verið m.a af völdum slysa, náttúruhamfara og ofbeldis.

Áföll breyta svo sannarlega fólki og sú breyting er varanleg. Þegar áföllin ryðjast yfir rofnar sú öryggisumgjörð sem manneskjur þurfa. Aðstoðin felst þá í því að sá sem varð fyrir áfallinu finni öryggið á ný, finni tilgang eða merkingu með lífinu og hafi góð úrræði og þrói ekki með sér áfallastreituröskun með taugarnar þandar lengi á eftir.

Geðlæknirinn Bessel van der Kolk tekur í einni bók sinni magnað dæmi af fimm ára dreng sem lifði það ásamt foreldrum sínum að vaða eimyrjuna úti fyrir brennandi tvíburaturnunum 11. sept. 2001, sjá fólk falla til dauða og hvað eina. Fáum dögum síðar teiknar barnið mynd af atburðinum. Þar er allt í báli og fári nema undir turninum er einn svartur hringur. Hvað er þetta? spyr læknirinn. Þetta er trambolín, svara barnið. Til hvers er það? Það er til þess að ef þetta gerist aftur geti fólkið bjargast þegar það hoppar niður! Þarna var fimm ára barnshugur byrjaður að vinna úr reynslu sinni með því að setja hana aftur fyrir sig og hugsa til framtíðar með lausnir í huga.

Eitt af því dásamlega við mannshugann er hæfileikinn til að kveðja hið liðna og halda áfram í núinu. Sá hæfileiki virkjast þegar við fáum nægan stuðning og tækifæri til að gera hlutina sjálf, líkt og drengurinn litli sem upplifði það að hlaupa á sínum litlu fótum hönd í hönd við þau sem hann treysti best og komast í skjól.