Nú þegar línur eru farnar að skýrast með framboðslistum stjórnmálaflokkanna er hægt að byrja að greina hvað við erum í raun að fara að kjósa um í komandi alþingiskosningum. Prófkjörin segja okkur eitt og annað um hvað er í vændum. Hver verða helstu málin, hverjum treystum við til valda og hvað greinir flokkana í sundur?

Mikil þátttaka var í nýafstöðnu prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og ef frá er talin góð kosning Guðlaugs Þórs, bar þar hæst kosningasigrar ungra kvenna. Ungar stjórnmálakonur raðast í annað, þriðja og fjórða sæti listans og segja mætti að tvær þeirra, aðstoðarmenn ráðherra, Hildur Sverrisdóttir og Diljá Mist Einarsdóttir, séu sigurvegarar prófkjörsins, enda hlutu báðar glæsilega kosningu. Diljá Mist tók þátt í sínu fyrsta prófkjöri og hlýtur eina þá bestu kosningu sem nýliði hefur fengið í flokknum.

Það eru skýr skilaboð sem send eru með því vali þar sem ungum konum er í auknum mæli treyst fyrir ríkri ábyrgð. Auk þess sem áberandi flokksmenn, Brynjar Níelsson og Sigríður Andersen, hljóta ekki náð fyrir augum kjósenda flokksins.

Brynjar ákvað að taka skilaboðunum sem honum voru send með fimmta sætinu, sem er ansi langt frá því sem hann sóttist eftir, og ætlar að finna sér annan starfsvettvang. Fyrrum ráðherrann Sigríður Andersen fauk út af listanum. Landsréttarmálið er líklega ekki gleymt.

Kjósendur hafa lengi vel kallað eftir auknum möguleikum á persónukjöri og háværar raddir hafa verið uppi um að kjörnir embættismenn axli ríkari ábyrgð á gjörðum sínum. Hér nýtti Sjálfstæðisfólk þann möguleika sem við höfum til að velja okkur fólk og draga fólk til ábyrgðar. Um íhaldið virðist blása ferskur andvari með yngra fólki og fleiri konum og það verður áhugavert að sjá hvaða áhrif upplyftingin hefur.

Sjálfstæðisflokkurinn, fyrrum frelsisbandalagið Píratar, allir miðjuflokkarnir, Viðreisn, Samfylking og Framsókn og líka Vinstri græn, róa á miðjuna. Popúlistar Miðflokksins, Flokks fólksins og að lokum Sósíalistaflokkurinn róa líklega á önnur mið.

Enginn flokkur sem á raunhæfa möguleika á stjórnarsetu boðar miklar breytingar og kjósendur geta verið vissir um að það er engin kollsteypa fram undan. Ekki í auðlindamálum, ekki í umhverfismálum, ekki í gjaldeyrismálum og ekki í Evrópumálum. Og ekki verða skattar lækkaðir. Við þurfum að greiða niður hallann eftir Covid. Sama hvaða flokk þú kýst og sama hvaða málefnum þú brennur fyrir. Hverjir sem verða við völd þurfa að takast á við hið risavaxna verkefni sem fram undan er – að loka gatinu eftir Covid.

Þeir sem eru lengst til hægri gætu því átt erfitt með að verja atkvæði sínu, þeir sem eru lengst til vinstri gætu hugsanlega fundið skjól hjá Sósíalistum – en langflestir kjósendur geta glaðir valið um fjölda flokka á miðjunni.

Og hver veit nema við kjósendur fáum stjórn sátta og samvinnu?