Gréta Thunberg er orðin heimsþekkt, sænska stúlkan, sem greind var einhverf og talaði ekki, nema þegar henni þótti nauðsyn til, en fór svo skyndilega að tala. Og talaði þá, svo að eftir var tekið. Hún fór í skólaverkfall til að vekja athygli á loftslagsvanda heimsins, hrikalegasta verkefni, sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir. Nú er þessi áður fátalaða stúlka orðin ræðumaður á öllum helstu loftslagsráðstefnum heims og brýnir ráðamenn til aðgerða í loftslagsmálum.

Nú fyrir jólin kom út bókin Húsið okkar brennur, baráttusaga Grétu og fjölskyldu hennar, rit-uð af móðurinni, áhrifamikil lesning. Gréta krefst aðgerða í loftslagsmálum, aðgerða í stað orða. Hún segir allar staðreyndir um loftslagsvandann liggja fyrir og lausnirnar einnig, hvað þurfi að gera. Vísindamenn eru nær sammála um, að hlýnun andrúmsloftsins sé af mannavöldum og loftslags-breytingar séu farnar að hafa áhrif á veðurfar og líf fólks um allan heim.

Við þurfum að vakna og gera breytingar, draga úr losun gróðurhúsalofttegunda strax, því verði ekkert að gert á næstu árum, fer af stað keðjuverkun sem enginn mannlegur máttur fær stöðvað. Þetta er neyðarkall, segir hún. Gréta vill að við tökum loftslagsógnina alvarlega, því annars gerist ekkert. „Fullorðna fólkið er alltaf að segja: „Við verðum að gefa unga fólkinu von.” En ég vil ekki vonina ykkar. Ég vil að þið hagið ykkur eins og líf ykkar sé í hættu. Ég vil að þið hagið ykkur eins og það sé kviknað í húsinu ykkar. Af því að það er kviknað í því.” Þannig talaði Gréta á alþjóðaefnahagsþinginu í Davos í janúar 2019. Samt boðar hún ekkert vonleysi eða uppgjöf, öðru nær, því enn þá er möguleiki á að breyta, en þá verðum við að bregðast skjótt við.

Gréta hefur staðið í baráttu. Hún hefur fengið á sig gagnrýni fyrir að vera ung og óreynd, einhverf eða einfalda hlutina um of. Hún gerir sér þó grein fyrir því, að hér er ekki um einfalt verkefni að ræða, að minnka losun á heimsvísu, þar sem í hlut eiga allar þjóðir heims, sem búa við afar misjafnar aðstæður. Ríku iðnþjóðirnar eins og hennar eigið land, Svíþjóð, verða að ganga á undan, segir hún, og draga úr losun um 50 prósent næstu árin, á meðan þróunarríkin svon. fá afslátt og ráðrúm til að byggja upp innviði sína.

Staðan hjá okkur Íslendingum er víst ekki sérlega góð um þessar mundir. Við erum ofarlega í losun af Norðurlandaþjóðunum. Við erum ekki að draga úr losun, heldur auka, þrátt fyrir metnaðarfulla aðgerða-áætlun núv. ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur í umhverfismálum til ársins 2030, sem enn á eftir að sýna sig, hvort reynist raunhæf. Víst er, að við þurfum að gera betur í lofts-lagsmálum, ætlum við að standa við skuldbindingar okkar gagnvart Parísarsamkomulaginu. Bók Grétu Thunberg er vissulega áminning til okkar Íslendinga. Sem fámenn þjóð björgum við kannski ekki heimin-um ein og sér, en við getum lagt okkar lóð á þá vogarskál.

Saga Grétu sýnir okkur, svo ekki verður um villst, hversu miklu einstaklingurinn fær áorkað, ef hann beitir sér. Gréta er farin að hafa áhrif vítt um heim með rödd sinni, líka hér á landi. Á hverjum föstudegi kemur nú saman hópur ungs fólks á Austurvelli með mótmælaspjöld og krefst aðgerða í loftslagsmálum að hætti Grétu Thunberg. Unga fólkið gerir sér ljóst, að það á mest í húfi, því þess er framtíðin. Þetta allt vekur vonir.

Við þurfum að endurskoða margt, byrja hvert í sínum ranni, breyta hugsanagangi, lífsmáta og gildismati, temja okkur meiri auð-mýkt og einfaldari lífsmáta, hætta að líta á peninga og hagvöxt sem hið eina er máli skipti, en íhuga lífsgildin, sem vísa til framtíðar. Því eins og Gréta segir. Nú verða allir að tala skýrt. Við höfum enn lausnir í hendi okkar, en tíminn er naumur, af því það er kviknað í húsinu okkar. Húsið okkar brennur.