Hús íslenskra fræða mætti með sanni kalla eina vanræktustu framkvæmd síðari tíma en rúm tíu ár eru síðan niðurstöður úr samkeppni um bygginguna voru kynntar almenningi. Síðan hefur þó ekki meira áorkast en galtómur og gróðurvaxinn grunnur hússins sem hefur gengið undir mörgum skrautlegum viðurnefnum síðastliðin ár. Í dag liggja engin áform fyrir um bygginguna og í nýútgefinni fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er ekki gert ráð fyrir neinum fjárveitingum til verkefnisins.

Þessar óútskýrðu tafir verða að teljast mikil vonbrigði, einkum vegna þess að í fjármálaáætlun síðustu ára var áætlað að framkvæmdir myndu einmitt hefjast í ár. Í fjármálaáætlun 2019-2023 sem gefin var út í fyrra segir meðal annars í kaflanum um háskólastigið: „Þá eru áformaðar byggingarframkvæmdir við Hús íslenskunnar sem lokið verður við á tímabilinu.“ Í fjármálaáætlun 2018-2022 kom þar að auki fram að téðar framkvæmdir væru í raun stærsta verkefni háskólastigsins og að húsið yrði reist fyrir árið 2021: „Stærsta einstaka verkefnið innan málefnasviðsins [háskólastigsins] eru áformaðar byggingarframkvæmdir við Hús íslenskra fræða á árunum 2017–2021.“ Þá er tekið fram að áætlaður kostnaður við framkvæmdirnar sé 3,7 milljarðar króna á árunum 2017–2021 en nú þegar hafa 600 milljónir króna farið í hönnun og fyrra útboð verkefnisins. Fjármagnið er þó ekki rekjanlegt í núverandi áætlun. Horfið hefur verið frá þessum fyrirheitum og nú virðast engin skýr áform liggja fyrir um framkvæmdina en núverandi áætlanir ríkisstjórnar verða að teljast nokkuð óljósar samkvæmt því sem kemur fram í nýútgefinni fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024.

Húsi íslenskra fræða bregður aðeins fyrir í tveimur málsgreinum í núverandi áætlun sem í raun stangast hvor á við aðra. Annars vegar segir: „Þá hefur fjárveitingum vegna Húss íslenskunnar verið hliðrað til frá fjármálaáætlun 2020-2024 vegna fyrirsjáanlegra tafa“ en þrátt fyrir það er ekki ljóst hvað veldur þessum töfum. Hins vegar segir: „Búið er að bjóða út framkvæmdir á Húsi íslenskunnar og er stefnt að því að húsið rísi á tímabili fjármálaáætlunar.“ Þessi mótsögn sýnir ef til vill einna best stefnuleysi eða jafnvel óákveðni stjórnvalda varðandi framkvæmdina. Öllum tilboðum sem bárust í fyrrgreindu útboði var hafnað í febrúar síðastliðnum á þeim forsendum að þau færu fram úr kostnaðaráætlun. Það má því velta fyrir sér hvort verkkaupandinn, mennta- og menningarmálaráðuneytið, hafi hreinlega gleymt því að þau höfðu ekki samþykkt neitt tilboð þegar seinni setningin var skrifuð. Þessi vinnubrögð verða að teljast heldur klúðursleg þegar um er að ræða verkefni af þessari stærðargráðu. Ráðuneytið hafði sett þann fyrirvara í útboðsgögn að tilboðum sem færu fram úr kostnaðaráætlun yrði hafnað. Hins vegar má setja spurningarmerki við það verklag að áætlunin hafi ekki verið birt mögulegum verktökum fyrir fram og því voru öll tilboð unnin í ákveðinni blindni. Eftir stendur því holan við Arngrímsgötu 5 og engin áform liggja fyrir um að byggt verði í henni.

Í umræðum um fjármálaáætlun á þingi þann 27. mars síðastliðinn var Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra spurð um tímalínu fyrir Hús íslenskra fræða og svaraði svo: „Mér finnst ábyrgt á þessum tímapunkti að fara betur yfir stöðu mála og taka svo ákvörðun, ég er hins vegar á því að ef það er samdráttur í hagkerfinu þá séu það ekki endilega skilaboð um það að við ættum algjörlega að draga saman seglin.“ Það eru vissulega gleðifregnir að Lilja Dögg vilji ekki draga saman seglin en svar hennar er að öðru leyti nokkuð innihaldslítið, sem er áhyggjuefni. Verkefnið var skilgreint sem stærsta verkefni háskólastigsins en af svarinu að dæma virðast ekki liggja fyrir ítarlegri áform en þau að athuga þurfi stöðuna. Hvað felst í því að athuga stöðuna er síðan annað mál en ljóst er að þessi svör eru ansi þreytandi og satt að segja ófullnægjandi þegar um tíu ára gamalt verkefni er að ræða. Endurteknar tafir á byggingunni verða að teljast fremur kaldhæðnislegar í ljósi þess hve mikilvægt er að efla stöðu íslenskunnar nú á dögum, en eins og gefur að skilja er fyrrnefnd hola hvorki hvetjandi fyrir fræðimenn né námsmenn sem fást við íslensk fræði. Óvissa um þessar framkvæmdir er bagaleg og ásýnd háskólasvæðisins bíður auk þess hnekki ef reitur húsnæðisins verður áfram í því standi sem hann er í dag.

Staðan er sú að samkvæmt núverandi áætlun er ekki gert ráð fyrir því að neinu fé verði úthlutað til Húss íslenskra fræða á árunum 2020-2024. Því spyr undirrituð hvenær megi búast við tímalínu sem staðið verður við eða eru áform ríkisstjórnar þau að holan fái að safna gróðri í 10 ár í viðbót?

Viðbót: Þar sem ýmislegt frábært hefur gerst í málinu fagna ég þeim áföngum og ítreka hvað það er mikilvægt að þetta gangi í gegn.