Lífið er of stutt til þess að láta alls konar drullu fara í taugarnar á sér. Ég geri það nú samt. Það er eiginlega þrennt sem fer mest í taugarnar á mér. Hin heilaga þrenning ömurðar kalla ég hana.


Nr. 1 er níska. Það er eðlilegt að eiga ekki pening og fá hjálp frá vinum sem eiga meira, en að eiga nóg milli handanna en vera alltaf að reyna að fá sem mest út úr öllum og hugsa alltaf út frá því hvernig þú fáir meira en aðrir, er óþolandi. Þið þekkið týpuna. Þiggur alltaf en splæsir aldrei. Kúrir eins og heitur hundaskítur á miðri stétt og bíður eftir að einhver rétti fram höndina.


Nr. 2 Mannvonska. Það þarf ekki að útskýra það.


Nr. 3 Tilætlunarsemi. Týpurnar sem eru alltaf að koma inn samviskubiti hér og þar ef ekki er rokið upp til handa og fóta samkvæmt síðasta væli. Þetta er sama týpan og segir aldrei takk. Hvað er það eiginlega? Tökum dæmi. Tilætlunarsami Tóti og Telma eru í mat. Þú opnar dyrnar.
„Velkomin!”
Svarið: „Hæ.”
Þú býður upp á fordrykk og réttir glasið. Þau brosa.


Þú réttir gratíneruðu kartöflurnar yfir borðið. „Gjörðu svo vel“.


Tekið við. Ekkert. Ekki einu sinni bros. Nú æsast leikar og ég segi gjörðu svo vel sex sinnum við borðið.


Og gjafirnar! Er fólk hætt að þakka fyrir gjafir? Hvenær þakkaði fermingarbarn síðast fyrir sig? Sko ekki takk og kíkja strax í umslagið, heldur þakkaði fyrir eftir veisluna næst þegar þið hittust. Veit fólk hvað kostar að mæta í fermingu?


Takk fyrir að lesa.