Ég hóf prestsþjónustu mína 27 ára gömul. Ein af mínum fyrstu ljúfu skyldum var að heimsækja eldra fólk á dvalarheimili. Þar kynntist ég meðal annars aldraðri konu sem alið hafði tíu börn. Einhverju sinni er við sátum saman á aðventu og ég var að spyrja hana um jólahaldið á hennar heimili þá sagði hún mér frá því að á aðfangadegi fyrir tugum ára hefði eiginmaður hennar farið út klukkan fjögur til að moka snjó af húströppunum. Þá gerðist það að hann fékk fyrir hjartað og féll niður örendur. Ég horfði miður mín á konuna og varð að orði: Og hvað gerðir þú? Þá leit hún beint í augu mín og mælti af festu: Jóna Hrönn, ég hélt jól fyrir börnin mín.

Vitandi að eftir fáeina daga myndi hún fylgja manni sínum til grafar valdi hún að halda börnum sínum jól á heimilinu. Við eigum líf okkar og menningu að þakka svona fólki. Fólki sem hélt í vonina og lífsþrána þrátt fyrir áföll og erfiðleika.

Nú förum við inn í aðventu og jólaundirbúning þar sem margt er í óvissu. Við munum þurfa að fylgja ýmsum tilmælum og sýna ábyrgð í þágu almannahags. Kannski fáum við núna tækifæri til þess að lifa einfaldari jól þar sem við iðkum hófsemd í þágu heildarinnar. Og hver veit nema niðurstaðan verði sú að mörg börn lifi gleðilegri jól þar sem þau fá meiri athygli og tíma. Jól þar sem bókin er lesin og spilið spilað og skarkalinn minnkar. Jól þar sem setið verður kringum borðið og fjölskyldusögur eru sagðar svo að vitundin um að tilheyra og eiga samhengi verður lifandi staðreynd í barnssálinni. Einmitt þannig verður til fólk sem síðar megnar að horfa út fyrir sjálft sig í þágu heildarinnar – því þau lærðu ung að þekkja samhengi sitt og virða það.