Sem starfandi fótboltamóðir undanfarin 14 ár hef ég séð þó nokkra fótboltaleiki. Er farin að skilja hvað er málið með rangstöðu, nýlega reyndar, og af hverju það er illa séð að rífa í treyjur andstæðinga inni í teig. Finnst dómararnir þó fulloft hliðhollir öllum öðrum en mínu liði. Er ekki óþarfi að gefa þjálfaranum, þó hann tjái sig með útiröddinni af hliðarlínunni, rautt spjald? En það er bara eins og það er.

Ég taldi mig því nokkuð lífsreynda þegar kom að hegðun, atferli og framkomu í þeirri smækkuðu útgáfu samfélagsins sem fótboltaheimurinn er. Undanfarin vika hefur sýnt mér að þó ég skilji rangstöðu (klapp fyrir mér) skil ég samt ekkert. Ég nenni ekki að telja þetta allt saman upp, treysti því að þið vitið hvað ég er að tala um.

Fótboltastrákarnir og fótboltastelpurnar okkar, sem ég hef fylgst með í 14 ár, eru miklu betri en fyrirmyndirnar. Ég vona að minnst kosti að búningsherbergja-brandara-menningin, kampavínið og kreditkortið í Sviss, og kynferðisofbeldið, heyri sögunni til.

Svo er tilvalið fyrir nýja stjórn KSÍ að nota tækifærið, svona þegar allt er í rúst, og hreinsa duglega til. Kannski byrja á að gera jafnlaunakönnun meðal landsliða karla og kvenna. Bara svo eitthvað sé nefnt. Þó ég sé nú reyndar handviss um að þar sé allt í toppstandi, enda ólöglegt að greiða einu kyni lægri laun en öðru fyrir sömu vinnu, svona innan sama fyrirtækisins. Áfram Ísland! Húh.