Heilsuefling er eitthvað sem við viljum flest stunda en það getur reynst mörgum erfitt að halda sig við efnið auk þess sem við leyfum okkur oft að taka hliðarspor í sumarleyfinu. Þá er gott að vita til þess að margir vinnustaðir styðja við starfsfólk í sinni heilsueflingu og taka einmitt oft upp þráðinn á haustin.

Við eyðum flest stórum hluta af okkar vökutíma í vinnu og því upplagt að nýta þann vettvang. Það má í raun hugsa stuðning við heilsu okkar í vinnunni út frá tveimur víddum; annars vegar að vinnustaðir tryggi að grunnþáttum sé sinnt til að tryggja að við höldum heilsunni í starfi en hins vegar að unnið sé að því að efla heilsu starfsfólks enn frekar.

Höldum heilsunni í starfi

Vinnuumhverfi þarf almennt að vera til þess fallið að við hljótum ekki skaða af hvort sem það er vegna slysa eða langvarandi álags. Finna má fjölda ráða hvað þetta varðar á forvarnarsíðu VIRK, velvirk.is, og eins á síðu Vinnueftirlitsins, vinnueftirlit.is, en þar eru m.a. upplýsingar um lögbundin áhættumöt vinnustaða. Þegar við hugsum um skaða vegna vinnuumhverfis er mikilvægt að horfa ekki bara til líkamlegra áhættuþátta heldur þarf líka að tryggja að menningin á vinnustaðnum sé til þess fallin að fyrirbyggja vanlíðan og óhóflega streitu.

Varðandi streituþáttinn getur verið gott að kynna sér efni og verkfæri tengd „Streitustiganum“ á Velvirk-síðunni. Streitustiginn er verkfæri sem auðveldar umræðu um streitu á myndrænan hátt. Velvirk-síðan býður einnig upp á ýmis ráð þegar kemur að samskiptum á vinnustað. Er eitthvað sem betur mætti fara í samskiptum starfsfólksins? Er eitthvað sem þarf að huga að í stjórnunarháttunum eða ríkir traust og sálfélagslegt öryggi á vinnustaðnum?

Eflum heilsuna í starfi

Þegar kemur að heilsueflingu á vinnustað er í raun um óendanlega möguleika að ræða. Vinnustaðir geta t.d. haft aðstöðu sem styður við starfsfólk sem gengur eða hjólar til vinnu, boðið upp á hollan matarkost/millimál, unnið markvisst að góðum samskiptum og tryggt að stjórnendur séu meðvitaðir um að vera góð fyrirmynd og ástunda uppbyggilega stjórnunarhætti. Ekki má svo gleyma að huga að umhverfinu og því að halda vinnustaðnum reyk- og vímuefnalausum.

Fjölmargir aðilar bjóða stuðning við fyrirtæki sem vilja vinna að heilsueflingu en auk þess stendur öllum vinnustöðum á landinu til boða frír aðgangur að verkfærinu „Heilsueflandi vinnustaður“ sem má finna á heilsueflandi.is.

Byrjum haustið vel og hugum að heilsunni í vinnunni. Það er hagur okkar allra og samfélagsins í heild að okkur líði sem best í vinnunni því þannig getum við hlúð að vellíðan og starfsorku og ekki síður tryggt framleiðni.

Á velvirk.is má finna mýmörg ráð til að okkur geti liðið sem best í vinnunni og náð að efla heilsuna enn frekar.