Ég var staddur á bílasölu um daginn þegar ég heyrði nýtt hugtak. Drægnikvíði. Þetta lýsir þeim ótta sem eigendur rafbíla finna fyrir um að ná ekki á leiðarenda. Það sem mér fannst samt aðallega athyglisvert er hvað við erum orðin flink í að orða alls konar áhyggjur okkar með fínum og gáfulegum hugtökum.

Ég veit ekki hvað veldur. Þykir virðulegra og jafnvel faglegra að tala í hugtökum heldur en í einhverju almennu stressi og samviskubiti? Í stað þess að segjast vilja taka strangheiðarlega all-inclusive-sólbaðs-sullferð til Tene þá tala þessar nýju, faglegu útgáfur af okkur um aukinn ferðavilja, í bland við mikinn farsóttarleiða og mikilvægi þess að taka þátt í endurreisn ferðaþjónustunnar. Á sama tíma og maður er meðvitaður um að flugferðin er kolefnislosandi, sem eykur á loftslagskvíða og visthryggð, þá er hægt að slá á flugskömmina með kolefnisbindingu, til dæmis með því að gróðursetja tré í gegnum app, en þó verður maður að gæta að því að verða snjallsímafíkninni ekki að bráð.

Nú þegar vorar dæmist á mann að setja upp trampólín fyrir börnin. Í þessum anda hef ég loksins áttað mig á því að það er ekki letin í mér sem er vandamálið, ég þjáist af verulegum uppsetningarótta.

Þetta blandast saman við nánast stöðuga pressu á þessum örfáu íslensku sólardögum að vera stöðugt úti við að gera eitthvað stórkostlegt og leiða hjá sér að lofthitinn er á pari við hitastig í meðalísskáp. Með öðrum orðum: Sólartengd upplifunarspenna.

Allt þetta hefur svo leitt til þess að ég er farinn að upplifa verulegan hugtakakvíða.