Það berast á­nægju­leg tíðindi frá há­skólum landsins þessa dagana. Um­sóknum um fram­halds­nám í Há­skóla Ís­lands fjölgaði um tæp­lega níu hundruð milli ára en hlut­falls­leg fjölgun er um 27 prósent. Hjá Há­skólanum í Reykja­vík fjölgaði um­sóknum um fram­halds­nám um þriðjung og met­fjöldi sótti um hjá Há­skólanum á Bif­röst, en um­sóknar­frestur í Há­skólanum á Akur­eyri er ekki liðinn.

Fjölgun virðist vera í um­sóknum í nánast öllum deildum, sem er já­kvætt, enda er það hagur sam­fé­lagsins að há­skólarnir út­skrifi sem fjöl­breyttastan hóp nem­enda. Sér­staka at­hygli vekur að um­sóknum um kennara­nám á fram­halds­stigi við Há­skóla Ís­lands fjölgar um 76 prósent. Hér virðast sér­tækar að­gerðir sem ráðist var í til að fjölga út­skrifuðum kennurum vera að skila árangri. Í frum­varpi um Mennta­sjóð náms­manna, sem nú er til með­ferðar á Al­þingi, er að finna heimild til að taka upp í­vilnanir til að fjölga nem­endum í greinum þar sem fyrir­sjáan­legur skortur er á starfs­fólki. Með slíku úr­ræði fengju stjórn­völd mikil­vægt verk­færi í hendurnar til að bregðast við að­stæðum á vinnu­markaði.

Um leið og fréttir af fjölgun um­sókna í há­skóla eru á­nægju­legar, koma þær ekki á ó­vart. Nem­endum fjölgaði mikið eftir hrunið og ekki eru að­stæður á vinnu­markaði betri nú. Raunar benda tölur Hag­stofunnar til þess að apríl­mánuður hafi um margt verið sögu­legur á vinnu­markaði. Frá því að stofnunin hóf gerð vinnu­markaðs­rann­sókna árið 2003 hefur at­vinnu­þátt­taka aldrei mælst minni. Hlut­fall starfandi er einnig það lægsta frá upp­hafi rann­sóknanna og unnar vinnu­stundir þær fæstu.

Það er því eðli­legt að að­sókn í nám aukist við þær að­stæður sem nú eru uppi. Enn er um­sóknar­frestur í grunn­nám ekki liðinn, en búist er við að þar verði einnig fjölgun. Við þessari fjölgun þarf að bregðast með auknum fjár­veitingum til há­skóla­stigsins. Þá þarf að tryggja það að lána­kerfi náms­manna sé nægi­lega sveigjan­legt til að mæta þörfum þeirra ó­líku hópa sem hverfa af vinnu­markaði og leita í nám.

Við vitum auð­vitað ekki hvernig staðan verður á þeim vinnu­markaði sem tekur á móti þeim stóru hópum sem há­skólarnir munu út­skrifa á næstu árum. Það sem við vitum er að um­hverfi vinnunnar er að breytast og allar líkur á því að kóróna­veirufar­aldurinn muni hraða þeim breytingum sem fylgja fjórðu iðn­byltingunni. Á næstu árum og ára­tugum munu ýmis störf sem við þekkjum í dag hverfa og ný bætast við. Hér þurfa há­skólarnir og raunar sam­fé­lagið allt að hugsa til fram­tíðar, þannig að fólki verði gert kleift að nýta sér þá tækni sem er að fara að taka yfir á vinnu­markaði.