Við hjónin eigum það sameiginlegt að vera með vesen á veitingastöðum. Hann er með óþol fyrir mjólk, ég hveiti. Iðulega komum við að tómum kofanum hjá þjónustufólkinu, sem skýst þá inn í eldhús og snýr til baka með tillögur frá kokkinum. Talsverður tími og orka fer í að finna út hvað skal panta.

Fæðuóþolið hefur fylgt okkur frá barnsaldri. Við vorum bæði með iðrakveisu og önnur hvimleið einkenni en áttuðum okkur ekki á samhenginu fyrr en við eignuðumst börn. Drengirnir okkar erfðu nefnilega óþolið – margfalt. Einn var vannærður með stöðugan niðurgang, annar með sífelld uppköst, en sá þriðji slapp fyrir horn því þá vissum við betur. Á þessum tíma var fátt um svör í læknavísindunum. Við vorum lánsöm að lenda loks á barnalækni sem þekkti álíka dæmi og ráðlagði okkur að taka öll mjólkurprótein úr fæðu þeirra. Eftir tvo mánuði voru þessi veikindi úr sögunni.

Matarval hefur gríðarleg áhrif á heilsuna, en þrátt fyrir það upplifi ég okkur ósjaldan sem hugsjúku hjónin. Á fæðuóþolsleiðangrinum hef ég mætt mörgum vantrúuðum sem í orði eða æði reyna að sannfæra mig um að þetta sé ímyndunarveiki; engin vísindi á bak við slíkt óþol. Góðu heilli hefur fæðuóþolsfræðunum fleygt hratt fram síðustu tuttugu árin og nú er oft hægt að greina óþol með rannsóknum. Áhugavert væri að vita hve mörgum líður bara skítsæmilega vegna ógreinds fæðuóþols.

Víða erlendis er venja að merkja matseðla á veitingastöðum með helstu ofnæmis- og óþolsvöldum. Þótt við séum orðin vön hlutverkinu sem hugsjúku hjónin væri hjálplegt ef veitingastaðir á Íslandi tækju upp sama sið.