Þegar ég var ungur leikmaður ÍFB sem átti fyrir höndum mikilvægan leik gegn Herði frá Patreksfirði sá ég mér þann grænstan að leggjast á skeljarnar og biðja guð um að láta mig brillera í leiknum. Svo mjög var hann hliðhollur Patreksfirðingum að það gekk ekki eftir.

Síðar gerjuðust trúarhugmyndir mínar en svo allt í einu heyrði ég í öfgafullu fólki úr hópi trúaðra og sprenglærðra trúleysingja sem tóku þetta efni yfir, svo það varð í mínum huga að fræðum á fárra færi annarra en biblíugrúskara. Þá hættu líka hugmyndir mínar um guð að snúast um guð heldur um það hvar ég stæði í trúarpólitík. Lengi vel höfðu öfgar í hvaða efnum sem var þessi áhrif á mig. Mér fannst ég verða of utanveltu til að geta haft eigin skoðun á málunum en yrði hins vegar að standa einhver reikningsskil á því hvar ég stæði í reipitogi öfganna, draga sjálfan mig í dilk. Það var því mikill léttir þegar ég áttaði mig á því að til er hugsanafrelsi sem leyfir mér að trúa í dag og vera trúlaus á morgun, hafa andúð á Trump um leið og ég dáist að tómlæti hans gagnvart stríðsbrölti í Miðausturlöndum, vera sammála Brynjari um eitt og Pírötum um annað og neita mér um áfallahjálp þó hugurinn leiti upp úr pólitískri rétthugsun og anda rólega meðan aðrir hneykslast.

Þó almættið bregðist ykkur á héraðsmóti og öfgabræla ýfi upp mannhafið er óþarfi að láta hófleysingja hafa af ykkur guðina og þá hollu iðju að hugsa af hjartans gnægð.