„Hugsaðu þér stað, þar sem allir eru velkomnir, það kostar ekkert inn… Það eru engar kröfur um atgervi, en þér er meira en velkomið að deila því sem þú hefur… Hér leitarðu athvarfs frá amstri dagsins… Þegar þú gengur út, finnst þér þú tilheyra einhverju stærra, vita og skilja aðeins meira.“

Þessi orð koma úr vinnu við nýja bókasafnsstefnu sem nú er unnið að í Reykjavík. Borgarráð hefur samþykkt tillögu borgarstjóra um að fela umhverfis- og skipulagssviði að undirbúa hönnunarsamkeppni um endurgerð og stækkun Grófarhúss í Tryggvagötu. Þar eru nú höfuðstöðvar Borgarbókasafnsins, Ljósmyndasafn Reykjavíkur og Borgarskjalasafn.

Grófarhúsið á að verða lifandi menningar- og samfélagshús í miðborg Reykjavíkur, fjölbreyttur ævintýra- og fróðleiksheimur fyrir börn og fjölskyldur, og fólk á öllum aldri. Gert er ráð fyrir að endurheimta upprunalegt útlit hússins. Hugmyndir eru einnig um þakgarð þar sem borgarbúar geti notið samveru og útsýnis yfir höfnina og Grjótaþorpið.

Nokkrar ástæður liggja að baki þessari ákvörðun. Ný viðbygging við Grófarhúsið stendur tóm og búist er við að Borgarskjalasafnið muni fljótlega flytjast í nýtt húsnæði. Við það losnar talsvert rými. Það þarf því að hugsa fyrirkomulag hússins upp á nýtt. Fyrirmyndin er þróun bóksafna víða um heim. Bókasöfn eru að verða meiri samkomustaður en áður. Oodi-bókasafnið í Helsinki hefur vakið mikla heimsathygli og dregur til sín þúsundir gesta í hverjum mánuði, sama má segja um splunkunýtt Deichmann-bókasafnið við höfnina í Osló.

Ekki má gleyma Dokken við höfnina í Árósum. Innanbæjarlest, borgarlína, keyrir í gegnum húsið og á jarðhæð er almenn borgaraþjónusta. Þar er meðal annars hægt að endurnýja ökuskírteini og vegabréf. Reiknað er með að í nýju Grófarhúsi verði sambærileg borgarþjónusta í boði. Úrslit hönnunarsamkeppninnar eiga að liggja fyrir í maí á næsta ári.

Höfundur er formaður menningar-, íþrótta og tómstundráðs Reykjavíkur