Það er trú mín að eiturlyf hafi eyðilagt líf margra en röng stefna stjórnvalda hefur eyðilagt líf miklu fleiri.“ Þessi rúmlega fimm ára gömlu ummæli Kofi Annan, fyrrverandi aðalritara Sameinuðu þjóðanna, koma upp í hugann í tengslum við umræðuna um vímuefnastefnuna hér á landi. Um allan hinn Vestræna heim er rætt um þann árangur eða öllu heldur árangursleysi sem stríðið gegn fíkniefnum hefur skilað. Aðilar á borð við Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina og Sameinuðu þjóðirnar hafa hvatt til þess að nýjar leiðir verði farnar og leggja áherslu á að hér er um heilbrigðis- og félagslegt vandamál að ræða.

Í haust var lagt fram frumvarp á Alþingi af þingmönnum fimm stjórnmálaflokka þar sem lagt er til að refsileysi neytenda ólöglegra vímuefna verði tryggt. Þannig verði hætt að refsa neytendum fyrir neyslu, vörslu og kaup á fíkniefnum. Með umræddu frumvarpi er ekki verið að leggja til að innflutningur, framleiðsla og sala fíkniefna verði lögleidd. Mikilvægt er að hafa það í huga.

Eins og Rauði krossinn bendir á í umsögn sinni um málið eru fíkniefnaneytendur jaðarsettur hópur. Samþykkt frumvarpsins myndi bæta aðgengi þessa hóps að heilbrigðis- og félagsþjónustu. Rauði krossinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt og vill raunar ganga lengra og láta það einnig ná til lyfseðilsskyldra lyfja. Á vegum Rauða krossins eru rekin skaðaminnkandi úrræðin Konukot og Ungfrú Ragnheiður. Hér er því um að ræða aðila sem er í beinum tengslum við þá einstaklinga sem málið snýst um.

Skoðanir eru eðlilega skiptar í jafn umdeildu máli og lagaumgjörð um vímuefni er. Þannig telur ríkissaksóknari að um ótímabært skref sé að ræða og undir það sjónarmið tekur Lögreglustjórafélagið. Þessir aðilar benda á að ekki sé skilgreint í frumvarpinu hvaða magn fíkniefna teljist til einkanota og að staða barna, einstaklinga yngri en 18 ára, sé óljós. Þetta eru hins vegar atriði sem hægt er að leysa í meðförum þingsins og væri æskilegt að gert yrði.

Alþingi hefur einnig til meðferðar frumvarp heilbrigðisráðherra um neyslurými. Hugmyndafræðin um örugg neyslurými fyrir langt leidda fíkla hefur verið reynd í nágrannalöndunum með góðum árangri. Samþykkt þessara tveggja þingmála, mögulega með einhverjum breytingum, væri stórt skref í átt að nýrri og manneskjulegri nálgun á fíkniefnavandann. Leið á borð við afglæpavæðingu vörslu og neyslu fíkniefna er auðvitað ekki nein töfralausn sem leysir allan vanda. Þær leiðir sem reyndar hafa verið hingað til hafa hins vegar alls ekki borið tilætlaðan árangur. Kofi Annan sagði að horfa þyrfti með einlægni á stefnuna og svara því hvort hún virki. Ef hún væri ekki að virka væri spurning hvort við hefðum hugrekki til að breyta henni. Þeirri spurningu þurfa stjórnmálamenn að svara.