Það hefur örlað á þórðargleði hjá sumum sem hafa verið andsnúin frjálsu og opnu markaðshagkerfi. Þeim finnst fjöldauppsagnir vegna faraldursins vera til marks um að það gangi ekki upp. Þegar landamærum er lokað og samkomu-, og jafnvel útgöngubann, er í flestum löndum þá fer allt samfélagið á hliðina, þar á meðal atvinnulífið. Það er þó ekki þar með sagt að samfélag manna, eins og við þekkjum það, gangi ekki upp. Bæði ríkið og atvinnulífið hafa alltaf mikilvægu hlutverki að gegna, ekki síst við þessar aðstæður.

Efnahagsaðgerðir ríkisins snúa fyrst og fremst að því að verja störf. Til þess að verja störf er nærtækast að reyna að auðvelda fyrirtækjum að reka sig. Aðgerðirnar snúa að miklu leyti að því að minnka og bíða með skattheimtu. Það er nægt svigrúm til þess, enda er Ísland eitt af þremur löndum heims þar sem hið opinbera tekur mest til sín sem hlutfall af landsframleiðslu.

Atvinnulífið mun leika lykilhlutverk í þeirri endurreisn sem er fram undan. Séu því búin viðunandi rekstrarskilyrði þá mun það skapa fleiri störf fyrir almenning og skatttekjur fyrir hið opinbera. Störf og skattar eru grundvöllur að velferð og hagsæld allra landsmanna. Því öflugra sem atvinnulífið er því meiri eru lífsgæði allra.

Fréttir af andláti kapítalismans eru því stórlega ýktar. Það er líka ágætt að hafa það í huga að ef þér finnst að hugmyndafræðin þín gangi bara upp u.þ.b. einu sinni á öld í heimsfaraldri, þá er hún líklega ekki skynsamleg.