Hugmyndir um samfélagsbanka hafa fengið byr í seglin að undanförnu. Sannast sagna minna þær á hugljúfa drauma, að bankar án hagnaðarsjónarmiða muni þjóna samfélaginu með betri hætti.

Ef til vill ýta rangfærslur undir þá drauma á borð við þær sem Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri og aðstoðarmaður fjármálaráðherra um tíma, bar á torg í greinaskrifum, að hámörkun hagnaðar einkabanka hafi í för með sér hámarkskostnað fyrir almenning. Sú fullyrðing er einfaldlega röng. Hagræðing í rekstri og samkeppni um viðskiptavini, lykilatriði í einkarekstri, virðist ekki hafa náð til hans. Þessi atriði skipta líka sköpum á litlum mörkuðum.

Reynt hefur verið að reka samfélagsbanka hérlendis með ýmsu sniði. Annars vegar hefur Íbúðalánasjóður, sem var umsvifamikill áður en viðskiptabankarnir yfirtóku húsnæðislánamarkaðinn á árunum fyrir hrun, valdið ríkinu ómældu tjóni. Hins vegar urðu sparisjóðir að lúta í lægra haldi um viðskiptavini fyrir viðskiptabönkunum. Þetta er þróun sem átt hefur sér stað alþjóðlega. Til að mæta þeim áskorunum var sparisjóðum á Ítalíu breytt í hlutafélög og í Frakklandi var reynt að koma á samvinnulýðræði í sparisjóðakerfinu en gekk illa.

Samfélagsbankar geta ekki keppt við einkabanka. Stjórnendur þeirra skortir aðhald frá eigendum. Því verður reksturinn óhagkvæmari og lánskjör verri, sem leiðir til þess að viðskiptavinir leita annað. Réttir eigendur að fyrirtækjum geta skipt sköpum fyrir rekstur, enda hafa mörg fyrirtæki gengið í gegnum endurnýjun lífdaga þegar nýir hluthafar koma að málum.

Það væri bjarnargreiði ef ríkisbönkunum yrði breytt í samfélagsbanka. Eigið fé Íslandsbanka og Landsbankans er samanlagt 444 milljarðar króna. Mun skynsamlegra er að selja þá og nýta fjármunina til að byggja innviði og greiða niður ríkisskuldir. Ríkið er ekki góður eigandi að bönkum, heldur er slíkt eignarhald uppskrift að stöðnun, hnignun og loks miklu tapi. Almenningur mun sitja eftir með sárt ennið.