Fyrir skemmstu fóru fram útskriftir úr framhaldsskólum landsins. Ágæt hefð er í ýmsum skólum að smala saman í útskrift afmælisstúdentum og víða er lögð sérstök áhersla á að fá 25 ára og 50 ára stúdenta til að fjölmenna og fulltrúa þeirra falið að ávarpa nýstúdentana.

Þegar maður stendur á tvítugu virðist sem flest sem skiptir máli í lífinu hljóti að gerast mjög fljótlega, líklega á allra næstu árum, eða jafnvel dögum. Alveg örugglega fyrir þrítugt, hvað þá fertugt. Og vissulega gerist gríðarlega margt. En þó er það líklega þannig hjá flestum, nema atvinnumönnum í íþróttum, að þeir verða ekki fullþroska í því sem þeir taka sér fyrir hendur fyrr en miklu seinna. Flestir eiga eftir 60% eða meira af raunverulegum starfsferli sínum þegar þeir halda upp á 25 ára stúdentsafmælið, það má því segja að þeir séu nokkurn veginn í hálfleik.

10 hugleiðingar

Ég hafði orð fyrir okkur 25 ára stúdenta í útskrift Menntaskólans í Reykjavík um daginn og nefndi þar nokkur atriði sem mér finnst hafa komið mér á óvart frá því ég var sjálfur í þeim sporum að hafa nýlega barist gegnum stúdentsprófin og taldi mig býsna þroskaðan og tilbúinn fyrir framtíðina. Hér eru þau, í engri sérstakri röð.

Breytingar

Fyrir 25 árum trúði ég að fólk væri nánast fullmótað um tvítugt. Síðan hef ég sjálfur breyst og séð marga aðra breytast mikið. Þetta hefur komið mér á óvart, en er ákaflega gleðilegt. Ef maður er ósáttur við hvernig hlutir eru að þróast í lífinu þá er hægt að breyta þeim. Þetta geta allir gert, þótt það sé ekki alltaf auðvelt.

Dugnaður

Ég hef komist að því að allir sem verða góðir í nokkrum hlut leggja ákaflega hart að sér. Á þessu eru engar undantekningar. Það er enginn nógu gáfaður, fallegur eða hæfileikaríkur til að ná neins konar árangri eða færni nema með því að leggja sig fram af ástríðu og alúð.

Einfaldleikinn

Ég hélt að flóknir hlutir væru erfiðir en einfaldir hlutir væru auðveldir – en mín reynsla er að þetta sé þveröfugt. Flest af því sem reynist manni erfiðast í lífinu eru í raun sáraeinfaldir hlutir. Rúmin búa ekki um sig sjálf og diskarnir stökkva ekki að eigin frumkvæði í uppþvottavélina.

Hugrekki

Ég vissi ekki um tvítugt en veit það nú að kærleikur, auðmýkt og fyrirgefning krefst mikils hugrekkis. Illindi, dramb og langrækni er uppgjöf.

Sköpun

Ég vissi ekki að það er oftast miklu erfiðara að skapa eitthvað alveg nýtt heldur en að læra á eitthvað sem þegar er til. Að búa til eitthvað frá grunni, hvort sem það er tónverk, ritverk, hönnun eða forrit krefst mikillar orku og þrautseigju. Þess vegna á maður að bera alveg sérstaka virðingu fyrir því sem er skapað frá grunni, hvort sem það höfðar beinlínis til manns eða ekki.

Náunginn

Ef maður hittir einhvern sem maður telur sig ekkert geta lært af, þá er maður ekki að taka nógu vel eftir.

Hátíðleiki

Ég hef komist að því að það er mikill munur á því að taka sig alvarlega eða taka sig hátíðlega. Allt sem maður gerir á maður að taka alvarlega. En það getur verið manni fjötur um fót að taka sig of hátíðlega.

Óöryggi

Ég veit það núna, sem ég vissi alls ekki um tvítugt, að fólk sem virðist hafa allt sitt fullkomlega á hreinu á líka stundir þar sem því líður eins og lífið sé óviðráðanlegt. Við erum öll mannleg, gerum mistök, efumst og verðum hrædd. Þetta gildir líka um fyrirmyndir, frægðarfólk, yfirmenn og vini. Á þessu eru engar undantekningar. Það er blekking að ætlast til þess að maður sjálfur eða aðrar manneskjur séu flekklausar eða gallalausar.

Tíminn

Tíminn er miklu afstæðari en ég gerði mér grein fyrir þegar ég var tvítugur. Ég hef komist að því að flest sem maður gerir í flýti endar með að tefja fyrir manni, en það sem maður vandar sig við flýtir fyrir manni. Það sem virðist óratími meðan á því stendur er örskot í minningunni.

Gleðin

Ég vissi það ekki þegar ég var tvítugur – en ég veit það fyrir víst núna – að mesta gleðin í vinnu og einkalífi hlýst af því að ná að gleyma sjálfum sér við að hugsa um hamingju og velferð annarra, eða sinna verkefnum sem hafa æðri tilgang en manns eigin hagsmuni og þarfir. Þegar maður horfir á það fólk í kringum sig sem virðist raunverulega hamingjusamt þá er nánast óbrigðult að það sé upptekið af því að auka hamingju annarra.

Meira síðar

Eins og fram hefur komið þá er tíminn mjög afstæður. Kannski mun eitthvað af því sem ég tel mig hafa komist að núna reynast snarvitlaust þegar ég skoða það síðar. Það kemur í ljós. Það er nefnilega bæði langt og stutt síðan ég var sjálfur tvítugur, og bæði langt og stutt þar til ég uppfæri þennan lista árin 2046 og 2071. Það verður fróðlegt að komast að því hvað lærist í seinni hálfleik og framlengingu. ■