Á leikskóla einum í Islington-hverfi í London er íslenski fáninn tekinn fram tvisvar á ári. Ástæðan er menningarlegur misskilningur. Þegar fyrsta barn mitt hóf leikskólagöngu fyrir átta árum hér í London þar sem ég bý var ég spurð hverju fjölskyldan fagnaði. Ég sagði það fyrsta sem mér datt í hug: „17. júní og Júróvisjón.“ Án þess að blikna skrifaði leikskólastýran svarið niður. Það var ekki fyrr en löngu síðar að ég áttaði mig á að spurningin var líklega leið hinna ofur kurteisu og menningarlega nærgætnu Breta til að falast eftir því hverrar trúar við værum. Þriðja barn mitt sækir nú leikskólann. Þar er 17. júní og Júróvisjón enn fagnað árlega með virðulegri athöfn.

Í gær voru tuttugu ár liðin frá því að ég flutti frá Íslandi til Bretlands. En þótt ég hafi búið í Bretlandi næstum hálfa ævina verð ég aldrei annað en Íslendingur. Ég vinn á ensku en mig dreymir á íslensku; ég skil ekki Breta þegar þeir tala undir rós eins og þeir gera svo oft; Bretar skilja mig ekki þegar ég rúlla errunum mínum. Öðru gegnir hins vegar um börnin mín.

Lísa í Undralandi

Ný rannsókn þriggja vísindakvenna við Háskóla Íslands bendir til að tvítyngd börn á Íslandi með íslensku sem annað mál læri takmarkaða íslensku í leikskólum. Vísindakonurnar segja niðurstöðurnar bæði óvæntar og alvarlegar og að þær kalli á breytt viðhorf í málörvun tvítyngdra leikskólabarna.

Fyrir þremur árum kom hópur íslenskra sjálfboðaliða saman í London og stofnaði íslenskuskóla fyrir börn. Íslenskir innflytjendur í London eiga nefnilega við þveröfugt vandamál að stríða.

Börnin mín þrjú höfðu öll íslensku að móðurmáli fyrstu ár lífs síns. En í leikskóla urðu pólskipti. Enskukunnáttu þeirra fór hratt fram. Ekki leið á löngu uns annað mál þeirra varð fyrsta mál. Þótt íslenska væri töluð á heimilinu, lesið væri fyrir börnin á íslensku og daglega væri Netflix-fjarstýringin rifin af þeim og þau neydd til að horfa á rispaðan DVD-disk með Skoppu og Skrítlu jókst alltaf bilið milli íslensku- og enskukunnáttu þeirra.

Fjöldi Íslendinga í London hefur sömu sögu að segja. En hvað er til ráða? Ég hef ekki hugmynd. Mig grunar þó hvar skýringarinnar er að leita.

Við Íslendingar í London höldum hópinn. Við komum saman á hátíðarstundum, fögnum 17. júní með SS-pylsum og hóum saman í Júróvisjónpartí. Mestum tíma okkar verjum við hins vegar í furðuveröld sem virðist stundum jafnframandi og sú sem mætti Lísu í Undralandi. Við förum í bröns til nágranna og kyngjum bökuðum baununum með herkjum. Við erum dregin á „quiz night“ á hverfispöbbnum en svörum ekki einni einustu spurningu rétt því hvernig eigum við að vita hvert var vinsælasta strákaband í Bretlandi árið 1992 eða hvaða ár Georg III. var krýndur? Um helgar mætum við í barnaafmæli og furðum okkur á rislitlum veitingum – kartöfluflögum og bollakökum úr pakka – og lengir eftir íslensku kaffihlaðborði sem svignar undan hnallþórum jafnvel þótt marensinn sé laufléttur. Það lifnar þó yfir okkur þegar gestgjafinn réttir okkur óvænt volga bjórdós.

Börnin mín elska bakaðar baunir. Þau sjá ekkert athugavert við bollakökur úr pakka eða pabbann sem segir aldrei neitt á skóla­lóðinni en verður allt í einu hrókur alls fagnaðar í barnaafmælum með dós í hönd.

Við Íslendingar í London erum ekki Bretar. Það er samt í gegnum okkur, ekki bara leikskólann, sem börnin okkar verða hluti af bresku samfélagi.

Börn innflytjenda á Íslandi standa höllum fæti í íslensku. Getur verið að vandamálið sé ekki aðeins málvísindalegt heldur einnig samfélagslegt? Spyr sá sem ekki veit.