Til eru þeir sem halda því fram að einungis séu til tvenns konar fjölmiðlamenn, þeir sem grafa sannleikann upp og svo hinir sem grafa hann niður. Ekki verður hér um það dæmt, en fyrir kemur að upp koma atvik og mál sem erindi eiga við almenning og ekki hafa auðveldan aðgang að fjölmiðlum. Ráðamenn fjölmiðla hafa sjálfdæmi um hvað þeir fjalla og hverjum þeir hleypa að almennri umræðu með reynslu sína og sjónarmið.

Það er háð mati fjölmiðlamanna hvað erindi á við almenning, enda gjarnan talað um þá sem hliðarverði opinnar þjóðfélagsumræðu. Og dæmin hræða. Afskiptaleysi fjölmiðla á erfiðum eftirmálum bankahrunsins 2008 var nánast algert, þegar bankar og sýslumenn rændu, óáreittir af fjölmiðlum, þúsundir Íslendinga heimilum sínum.

Fjölmiðlar þurfa áreiti. Það þarf að halda þeim við efnið sem fjórða þjóðfélagsvaldinu og fjölmiðlamenn stæra sig gjarnan af. Það er engu samfélagi hollt að fjölmiðlar einir hafi sjálfdæmi um hvað er talað opinberlega og þó það ekki sé fyrir illan ásetning, fær margt að þola þöggun. Fjölmiðlafólk lýtur húsbóndavaldi rétt eins og aðrir.

Mál geta verið þess eðlis að þeir sem eiga í hlut hafa takmarkaða möguleika á að koma þeim á framfæri við fjölmiðla. Þau geta varðað stjórnvaldsofbeldi og mismunun, bæði gagnvart einstaklingum og hópum sem lenda í óviðunandi aðstæðum. Um getur verið að ræða þolendur ofbeldis og misnotkunar af öllu tagi, þá sem miðla vilja reynslu án þess að koma fram undir nafni, jafnvel leita hjálpar eða viðurkenningar, en hafa engin tök á því. Þetta geta líka verið almennar ábendingar, í raun verið allt milli himins og jarðar.

Þá gæti fólk og minnihlutahópar í löndum þar sem fjölmiðlar sæta ritskoðun nýtt sér vettvang af þessu tagi við að koma rödd sinni til umheimsins. Fólk sem á í vök að verjast með líf sitt og réttindi.

Það vantar tilfinnanlega vettvang fyrir einstaklinga og hópa í aðstæðum sem hindrar aðgengi þeirra að fjölmiðlum með það sem á þeim brennur, ábyrgan aðila sem auðveldar þeim leiðina. Þetta gætu verið samtök sem tækju við málum af þeim sem þurfa á öruggri leynd að halda, einnig þeim sem ekki treysta sér í bein samskipti við fjölmiðla.

Þetta yrði eins konar ígildi blaðamannafunda, opinn vettvangur þar sem tekið væri við málum fólks í fullum trúnaði þar sem fjölmiðlar gætu síðan nálgast þau. Fjölmiðlatorg almennings. Public Media Square. Hljómar það svo illa? Er ekki rétt að þróa þessa hugmynd áfram?