Það er síðla kvölds, ég er að bursta tennurnar og fæ bakþanka um líðan landsmanna. Full eftirvæntingar yfir að skrifa pistilinn sest ég fyrir framan tölvuna en hvað gerist þá? Tölvan er batteríslaus. Alveg dæmigert! Ég ákvað að kannski væri tölvan hreinlega að minna mig á mikilvæga staðreynd. Ef við hlöðum ekki rafhlöðuna þá verðum við batteríslaus og komumst ekkert áfram. Ekki frekar en blessuð tölvan.

Víða í samfélaginu hefur mætt alveg gríðarlega á fólki undanfarin misseri, hvort sem um er að ræða í starfi eða einkalífi. Við erum að takast á við fordæmalausa tíma eins og oft hefur verið nefnt. Slíkar aðstæður geta ógnað vellíðan okkar og velgengni samfélagsins. Ég hef orðið vör við vaxandi pirring og vanlíðan og heyrt aðra ræða slíkt hið sama. Allir eru orðnir langþreyttir og pirraðir á kófinu. Mörgum líður ekki vel. Hvað getum við gert?

Við þurfum kröftuga viðspyrnu og við högnumst á því að velja okkur viðhorf. Hvar sem er í samfélaginu í stóru sem smáu er tími kominn til að huga að líðan, þinni líðan og líðan náungans. Hvað getur þú gert? Getur þú sýnt sjálfum þér samkennd í amstri dagsins? Getur þú brosað til þess ókunnuga sem þú mætir í búðinni? Getur þú sem vinnuveitandi hugað sérstaklega að líðan starfsmanna þinna og sett þetta viðfangsefni á dagskrá? Við stjórnum ekki þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir en við stjórnum viðbrögðum okkar.

Pössum upp á hvert annað, fyllum á rafhlöðuna okkar og hugum alveg sérstaklega að líðan á næstunni. Þá komumst við á endanum í gegnum kófið og komumst áfram, sterkari en áður.