Hver man ekki eftir Viktoríu Abril, sem við Íslendingar tókum ástfóstri við eftir að hún fór með hlutverk föngulegrar flamingódansmeyjar í myndinni 101 Reykjavík? Nú hefur hún einn ganginn enn skipt um hlutverk en þegar hún var að taka við verðlaunum, nú nýverið, tókst henni á tíu mínútum að umbreytast úr ástsælli leikkonu í persona non grata og nýjasta skotspón níðþeytifólks.

Við þetta tækifæri hætti hún sér nefnilega út á þann þunna ís að lýsa skoðun sinni á kórónaveirunni, sem hún sagði vera eins og hverja aðra veiru sem leiddi árlega vissan fjölda fólks til dauða án þess að nokkur gripi til nokkurra neyðarráðstafana. Fór hún mikinn og kallaði þetta kóróna-sirkus og tók ekki í mál að bera grímu.

Fólki rann blóðið til skyldunnar að taka upp hanskann fyrir þá sem væru nógu hrifnæmir til að falla fyrir ræðu hennar, þar sem um stórhættulegar skoðanir væri að ræða, og hver sá sem vettlingi gat valdið fór háðulegum orðum í fjölmiðlum um gáfnafar hennar og eðlisfar. Vissulega var ekki langt í þá kröfu að hún yrði svipt verðlaunum.

Ekki ætla ég að draga úr alvarleika kórónaveirunnar, hún mun líða hjá en aldrei fennir yfir framgang þeirra sem vilja svipta fólk ærunni að ósekju. Ég ætla heldur ekki að gera lítið úr sársaukanum sem það kann að valda þegar einir halda fram skoðunum sínum. En þar sem ég þekki ágætlega fortíð ættjarðar hennar Viktoríu óttast ég miklu fremur þann dag er allir neyðast til að vera á sömu skoðun.