Opið bréf til Stefáns Jóns­sonar frétta­manns, sem full­trúa þeirra sem gættu þess að Ríkis­út­varpið ætti erindi til þjóðarinnar.

Stefán Jóns­son, ég reikna með því að þú sért svo­lítið hissa á því að ég skuli skrifa þér bréf, löngu dauðum manninum, en mér finnst ein­fald­lega að mál­efnið eigi ekki bara erindi mín megin grafar heldur þín megin líka. Mál­efnið lýtur að Ríkis­út­varpinu sem gerir það að verkum að í mínum huga er það fyrst og fremst þitt mál og síðan okkar hinna. Og svo hitt að þegar ég fór að velta því fyrir mér hverjum meðal nú­verandi starfs­manna Ríkis­út­varpsins ég ætti að senda þetta erindi komst ég að þeirri niður­stöðu að þótt þú hafir verið grafinn árið 1990 sé með þér tölu­vert meira lífs­mark en með út­varps­stjóra og hans nánustu sam­starfs­mönnum.

Tón­skáldið Stra­vins­ky flúði til Banda­ríkjanna úr alls konar óróa í Evrópu árið 1939 og þótti dvölin þar nokkuð góð. Hann reyndi meðal annars að sýna þakk­læti sitt fyrir góðar mót­tökur í nýja landinu með því að út­setja þjóð­söng Banda­ríkjanna á ný­stár­legan máta. Þegar út­setningin var flutt í Boston 15. apríl 1940 var hann hand­tekinn fyrir brot á lögum um þjóð­sönginn. Hann ferðaðist síðan með út­setninguna víða um Banda­ríkin og var alls staðar heldur illa tekið.

Tuttugu og níu árum síðar flutti Jimmy Hendrix þjóð­söng Banda­ríkjanna á sinn eftir­minni­lega hátt á Woodstock fyrir framan nokkur hundruð þúsund ung­menni sem öll voru í upp­reisn gegn sam­fé­laginu. Það er nokkuð víst að ekkert þeirra vildi hafa nokkurn skapaðan hlut að gera með þjóð­söng þess sam­fé­lags sem þau voru öllum stundum að mót­mæla. Hendrix tókst samt að gera lagið um stjörnum prýdda fánann að þeirra þjóð­söngi með ný­stár­legri og kraf­mikilli út­setningu sem átti erindi við sinn tíma. Það var list­rænt af­rek. Síðan þá hafa menn deilt um það hvort út­setning Hendrix hafi verið sér­stök á­deila á stríðið í Víet­nam og sumir haldið því jafn­vel fram að helstu gítar­rokurnar hafi átt að tákna sprengjur sem var varpað á sak­laust fólk.

Það var svo um daginn að ég bað Þor­stein Einars­son gítar­leikara og Ey­þór Gunnars­son píanista að spila ís­lenska þjóð­sönginn á þann máta að hann ætti erindi inn í þau augna­blik sem eru að líða akkúrat núna. Þeir fóru létt með það og tóku upp magnaða út­gáfu sem er full af til­brigðum sem verða einungis túlkuð sem gagn­rýni á af­skipta­leysi ís­lensks sam­fé­lags gagn­vart næstum öllu sem skiptir máli, kjörum þeirra sem minnst mega sín, barna­fá­tækt, græðgi þeirra sem mest eiga og tak­marka­lausum yfir­gangi út­gerðar­glæponanna.

Mynd/Aðsend

Ekki fór á milli mála að það var skylda mín að koma flutningi tví­menninganna á fram­færi og ég hringdi í Stefán nafna þinn Ei­ríks­son út­varps­stjóra og lagði til að hann léti spila þetta sem síðasta lag fyrir fréttir á 17. júní. Ég sendi honum upp­tökuna og hann sagðist ætla að skoða málið. Skömmu síðar fékk ég frá honum eftir­farandi smá­skila­boð:

„Stöldrum strax við 3. gr. Laga um þjóð­sönginn, þar sem segir að hann skuli ekki flytja eða birta í annarri mynd en hinni upp­runa­legu gerð. Setur okkur aug­ljós­lega skorður. Bkv. SE“.

Stefán Jón­son, ef ég man það rétt, tókst þú einu sinni upp sam­tal við okur­lánara nokkurn með míkró­fón vafinn inn í sára­bindi, þóttist vera með brotinn fingur. Því sam­tali var síðan út­varpað með fullum stuðningi Ríkis­út­varpsins. Þú varst að vísu dreginn fyrir ein­hvers konar dóm fyrir vikið en þetta þótti síður en svo ljóður á þínu ráði. Sagan átti erindi til fólksins í landinu. Nú er öldin önnur enda stjórn­völd búin að brjóta Ríkis­út­varpið niður að innan með því að fela stjórn stofnunarinnar fólki sem lítur á hana sem vanda­mál þeirra sem vilja græða peninga á fjöl­miðlum, frekar en þann sam­nefnara þjóðarinnar sem hún var um ára­tugi. Þess vegna verður þjóðin að hlusta á þessa snilldar­út­setningu á þjóð­söngnum alls staðar annars staðar en í Ríkis­út­varpinu, eins og YouTu­be og á einka­reknum út­varps- og sjón­varps­stöðum. Ég reikna með því að þú skiljir að með því erum við ekki að halda fram hjá Ríkis­út­varpinu vegna þess að maður getur ekki haldið fram hjá þeim sem vill mann ekki.

En síðan hitt, það er engin spurning að Þor­steinn og Ey­þór brutu lög og eru þess vegna glæpa­menn. Það sem meira er, ég get borið vitni um að þeir iðrast einskis. Hið eina sem á eftir að gera er að á­kveða refsinguna en eitt er víst að það kemur ekki til greina að láta mennina ganga lausa og fremja alls konar ó­lög­lega tón­listar­gjörninga. Ég hvet þá sem á­kveða refsinguna að hafa eftir­farandi í huga: Búið er að sýna fram á að það eru sterk tengsl milli sköpunar­gáfu og geð­veiki. Fé­lagarnir tveir, Þor­steinn og Ey­þór, eru snillingar að springa úr sköpunar­mætti og eiga þess vegna ekki heima á Litla Hrauni heldur á réttar­geð­deild.