Ákvörðun um að hefja söluferli á hlut Hafnarfjarðarbæjar í HS veitum var keyrð í gegn án faglegrar og opinnar umræðu. Ljóst er að samningaviðræður við Kviku banka hófust um mánuði áður en fulltrúar minnihlutans fengu nokkuð að heyra af málinu. Bæjarstjóri, Rósa Guðbjartsdóttir, hefur látið hafa eftir sér að ekkert sé óeðlilegt við þessi vinnubrögð. Því er ég ósammála.

Sala undirbúin án umræðu

Ákvörðun um að hefja söluferlið á hlutnum var tekin af fulltrúum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í bæjarráði þann 22. apríl sl. með skömmum fyrirvara. Tveimur vikum síðar kom í ljós að Kvika banki hafði verið fenginn að sjá um söluna þegar bæjarfulltrúar minnihlutans lásu um það í fjölmiðlum.

Í kjölfarið lagði undirrituð fram fyrirspurnir varðandi samninginn við Kviku banka, m.a. hvenær ákvörðun hafi verið tekin um að fela þeim að sjá um söluna og hvers vegna ekki hafi þótt ástæða til að sú ákvörðun væri rædd eða tekin af bæjarráði. Í svörum meirihlutans var litlu svarað öðru en því hvers vegna Kvika banki teldist heppilegur kostur. Það hvenær ákvörðunin var tekin var látið ósagt en þó það að gengið hafi verið til samninga í kjölfar þess að samþykkt var í bæjarráði að hefja undirbúning að söluferli. Einnig kemur fram að stefnt hafi verið að því að ganga til viðræðna við væntanlega kaupendur og klára frágang viðskipta fyrir sumarleyfi.

Upplýsingum haldið frá fulltrúum minnihlutans

Nú hefur komið í ljós að viðræður við Kviku banka voru hafnar a.m.k. mánuði áður en fulltrúar minnihlutans eða bæjarbúar fengju nokkuð af málinu að vita. Einnig kemur fram að drög að samningi við Kviku banka hafi verið tilbúin áður en hugmyndin var fyrst kynnt í bæjarráði. Ferlinu hefur því verið haldið leyndu frá fulltrúum minnihlutans og raunverulegum eigendum (íbúum). Við þetta hef ég gert alvarlegar athugasemdir.

Viðbrögð meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks við mínum athugasemdum eru þau að þetta sé allt eðlilegt. Þeim finnst greinilega í fínu lagi að víla og díla með eignir bæjarins án þess að taka opna umræðu um málið. Því erum við í Samfylkingunni ósammála og fleiri virðast á sömu skoðun.

Ekkert lýðræðislegt umboð

Fulltrúar í sveitarstjórnum sitja í umboði íbúa og taka ákvarðanir fyrir þeirra hönd. Ákvörðunin um sölu á hlut Hafnarfjarðarbæjar í HS Veitum var ekki tekin í bæjarstjórn þar sem allir flokkar eiga fulltrúa, heldur í bæjarráði þar sem einungis tveir af fjórum flokkum minnihlutans hafa atkvæði. Þegar svo stór ákvörðun er tekin án opinnar umræðu eða aðkomu allra flokka er verið að svína á lýðræðinu. Salan á HS Veitum var ekki á stefnuskrám Framsóknar- eða Sjálfstæðisflokks í seinustu kosningum og ekkert hefur gefið til kynna að hún væri á dagskrá. Eðlilega ættu þessir flokkar því að sækja umboð til íbúa varðandi söluna.

Samtökin Íbúalýðræði hafa fordæmt þessi vinnubrögð og krafist þess að söluferlið verði stöðvað. Undirskriftalisti þar sem íbúakosninga um einkavæðingu HS Veitna er krafist er opinn til 13. júlí n.k. á vefsíðunni island.is

Höfundur er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.