Sóttvarnayfirvöld og stjórnvöld hafa örugglega gert ýmis mistök þegar kemur að sóttvarnaaðgerðum. Stundum hefur verið farið of geyst í að setja höft og viðhalda þeim en í öðrum tilvikum hefði hugsanlega mátt ganga eitthvað lengra. Ekki er þó ástæða til að velta sér sérstaklega upp úr þessu nú um stundir. Allt hefur sinn tíma. Stundum er tími til að skammast út í eitt og annað og stundum er tími til að láta það vera. Stundum er meira að segja tími til að hrósa.

Hrósið gleymist of oft í samtíma þar sem jafnvel er farið að líta á önuglyndi sem sérstaka dyggð. Allavega sperra ansi margir eyrun af áhuga þegar hinir fjölmörgu nöldrarar landsins tjá skoðanir sínar á samfélagsmiðlum. Því miður eru þeir þannig innréttaðir að þeir þurfa að hafa skoðanir á öllum sköpuðum hlutum og telja það varða þjóðarhag að þeim sé rækilega komið á framfæri. Sumir þessara nöldrara eru jafnvel landsþekktir og því er talin ástæða til að gera skoðunum þeirra rækileg skil á netsíðum fjölmiðla. Hinir svokölluðu „virkir í athugasemdum“, sem flestir geta flokkast sem atvinnunöldrarar, koma svo sínum sjónarmiðum á framfæri á þessum sömu síðum. Sá sem síðan les fréttina og athugasemdir undir henni fær rækilega á tilfinninguna að stór hluti landsmanna þjáist af grasserandi reiði út í allt og alla.

Það er kannski ekkert óskaplega gaman að lifa á Covid-tímum, en varla svo leiðinlegt að ástæða sé til að vakna alla daga í fýlukasti. Yfir ýmsu má gleðjast, eins og til dæmis því hversu vel bólusetningar hafa gengið og hversu viljugir landsmenn eru til að mæta í þær. Á sama tíma er í ýmsum skúmaskotum rekinn linnulaus áróður gegn bólusetningum og röngum staðhæfingum otað fram og þær endurteknar hvað eftir annað eins og þær séu sannleikur. Þjóðin er sögð vera í hlutverki tilraunadýra sem læknavísindin séu að gera ábyrgðarlausar tilraunir á. Afar sjaldgæfar aukaverkanir eru blásnar upp og stórkostleg hætta sögð fylgja því að vera bólusettur. Þetta er söngl hjáróma radda sem þjóðin hefur alls engan áhuga á að hlusta á. Fjöldinn sem streymir í Laugardalshöll er sönnun þess.

Það ætti ekki að vera sérstök lífsreynsla að vera bólusettur. Á þessum tímum er það nú samt þannig, einfaldlega vegna þess að skipulag þeirra bólusetninga sem fara fram í Laugardalshöll er á þann veg að fjarska auðvelt er að fyllast lotningu. Þar er unnið hratt en um leið af öryggi og nákvæmni. Fyrir fram hefði verið erfitt að ímynda sér að bólusetning þúsunda manna á einum degi gæti gengið svo vel og skipulega fyrir sig. Hver sá sem stígur inn í Laugardalshöll til að fá bólusetningu hlýtur að dást að því fólki sem þar skilar vinnu sinni svo frábærlega. Svo sannarlega má klappa fyrir þríeykinu þegar það mætir í bólusetningu, en starfsmennirnir sem sjá um framkvæmdina eiga svo einnig skilið margföld húrrahróp. Um það hljóta allir að vera sammála, einnig atvinnunöldrararnir.