Undirritaður hefur í tveimur greinum hrakið rangar fullyrðingar og ásakanir hagfræðiprófessors við Háskóla Íslands varðandi endurskoðun, reikningsskil og fleira. Hroki og hleypidómar eru ekki góðir förunautar í málflutningi og því síður ítrekaðar ásakanir og ósannindi. Slíkur málflutningur sýnir að málstaðurinn er ekki góður.

Í nýrri grein prófessorsins telur hann að stjórnendur eigi að gera tilraun í ársreikningi til að meta verðmæti eigna, þar á meðal kvóta sem ekki er til skráð opinbert markaðsverð á. Hann telur ekki nóg að veita upplýsingar um nauðsynlegar staðreyndir um viðkomandi eignir eða réttindi þannig að upplýstur lesandi geti myndað sér skoðun. Sagan geymir ýmis dæmi um stórslys þegar eigendur tóku sér sjálfdæmi um að meta eignir félaga sinna með hugmyndafræði prófessorsins að leiðarljósi.

Prófessorinn hefur sjálfur gert tilraun til að meta aflaheimildir Vísis hf. og ofmat þær gróflega. Sem endurskoðandi hefði undirritaður ekki skrifað upp á að ársreikningur, með slíkum getgátum og ofmati eigna sem prófessorinn var með, gefi glögga mynd.

Í stað þess að viðurkenna mistök sín er niðurstaða prófessorsins að hans mat hafi verið rétt en hluthafar Vísis hf. hafi gefið Síldarvinnslunni hf. meira en helming eigna sinna! Í tilkynningu Síldarvinnslunnar til kauphallar í tilefni af kaupum á Vísi upplýstu stjórnendur hennar ekki um þessa meintu 20-30 milljarða „gjöf“ (skattskyldar tekjur) sem prófessorinn telur félagið hafa fengið. Ef satt væri þá væri það mjög alvarlegt lögbrot.

Hagfræðiprófessornum virðist ekki koma til hugar nein önnur skýring. Hagfræðingurinn Þórður Gunnarsson var með faglega umfjöllun um málið í grein á visir.‌is, 13. júlí sl., með tilgátu um hvernig verð í viðskiptunum kunni að hafa verið ákveðið.

Þekking prófessorsins á reikningsskilum og fjármálafræðum virðist ekki mikil. Hann virðist nú vera átta sig á að ekki er samræmi á milli bókfærðs eigin fjár félaga og raunvirðis þeirra. Til upplýsinga bar undirritaður saman markaðsverð alls hlutafjár og bókfært eigið fé skv. síðasta árshlutareikningi nokkurra þekktra félaga á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum og Íslandi. Niðurstaðan var: Apple, markaðsverð 39,5 sinnum hærra en bókfært eigið fé; Coca-Cola, markaðsverð 6,6 sinnum hærra en bókfært eigið fé; Eimskip, markaðsverð 2,9 sinnum hærra en bókfært eigið fé; Hagar, markaðsverð 2,9 sinnum hærra en bókfært eigið fé; Marel, markaðsverð 3,5 sinnum hærra en bókfært eigið fé. Samkvæmt skilgreiningum hagfræðiprófessorsins eru árshluta­reikningar og ársreikningar allra þessara félaga rangir, skáldskapur! Miklir menn erum við, Hrólfur minn!

Tilvísanir prófessorsins um að ákveðin ummæli undirritaðs brjóti gegn 23. og 24. gr. laga númer 94/2019, sem fjalla um óhæði endurskoðenda við endurskoðun, eru út í hött og sýna fáfræði prófessorsins um efnið.

Prófessorinn snýr nú við blaðinu varðandi ástæður þess að Vísir fékk lækkun á veiðigjaldi fyrir 10 árum síðan. Ástæðuna segir hann nú kunna að vera að eignastaða félagsins hafi verið mun betri en endurskoðaður efnahagsreikningur gaf til kynna en í fyrri greinum sagði hann ástæðuna með stóryrtum yfirlýsingum vera þá að eiginfjárstaðan hafi vísvitandi verið sýnd ranglega verri en hún í raun var í þeim tilgangi að félagið fengi afslátt af veiðigjöldum, sem sagt fjársvik!

Staðreyndin er þó að samkvæmt lögum um veiðigjöld áttu aðilar rétt á lækkun veiðigjalda í nokkur ár vegna vaxtakostnaðar við kaup á aflahlutdeildum ef þeir uppfylltu ákveðin skilyrði. Byggt var á upplýsingum um kaup á aflahlutdeildum og vöxtum af skuldum en ekki á bókfærðu eigin fé.

Ítrekað talar prófessorinn til lítillækkunar um „íslenska endurskoðunarvenju“ þó engin slík sé til. Endurskoðun er unnin samkvæmt alþjóðlegum endurskoðunarstöðlum hér á landi eins og víðast hvar.

Prófessorinn heldur fram þeim ósannindum að ársreikningaskrá hafi ekkert eftirlitshlutverk með túlkun stjórnenda fyrirtækja eða endurskoðenda á ákvæðum ársreikningslaga sem fram kemur í ársreikningum. Staðreyndin er hins vegar að ársreikningaskrá hefur ótvíræða eftirlitsskyldu með þessu skv. 117. gr. laga um ársreikninga. Þannig hefur ársreikningaskrá oft beint tilmælum um að bætt verði úr og hafnað ársreikningum sem hún telur ekki uppfylla lagaskilyrði.

Hagfræðiprófessorinn virðist ekki hafa þor til að senda formleg erindi til opinberra eftirlitsstofnana eins og undirritaður skoraði á hann að gera til að fá úrskurði um hvort stóryrtar ásakanir hans ættu við rök að styðjast. Hann veit væntanlega sem er, að svo er ekki og einnig að eftirlitsstofnanir svara ekki tilefnislausum ásökunum í fjölmiðlum.

Undirritaður hefur nú kært hagfræðiprófessorinn til siðanefndar Háskóla Íslands vegna þess að hann réðst með mjög grófum hætti að starfsheiðri, faglegum vinnubrögðum og æru minni. Prófessorinn fjallar um reikningsskil og endurskoðun en því miður af þekkingarleysi og hroka. Hann hefur uppi stóryrtar og rangar fullyrðingar. Undirritaður telur slíkan mann vart marktækan í opinberri umræðu og sé ég því engan tilgang að standa í frekari deilum við hagfræðiprófessorinn í fjölmiðlum.

Það er fjarri öllu sanni að undirritaður sé með kærunni að letja til umræðu á opinberum vettvangi um sjávarútvegsmál eins og prófessorinn heldur fram. Þvert á móti hvetur undirritaður til faglegrar og málefnalegrar umræðu um sjávarútvegsmál sem og önnur.