Breytingar eru oftast góðar. Í það minnsta þegar kemur að auknu umburðarlyndi. Við fyrstu sýn virðist samfélagið okkar einsleitt en margbreytileikinn býr undir yfirborðinu, við þurfum bara að sjá hann og meðtaka.

Sumir telja framtíð íslenskunnar ógnað af auknum fjölbreytileika. Þannig virðist kynhlutlaus íslenska valda fjölda fólks miklum áhyggjum. Þá er hrísvöndur þess sem allt veit gjarnan dreginn undan rúminu og notaður til að berja svolítið á lyklaborðinu.

Af hverju að tala um björgunarsveitarfólk þegar hægt er að tala um björgunarsveitarmenn?!?!

Við búum í fjölmenningar­samfélagi og við búum í fjöl­kynjasamfélagi, þar sem við megum öll vera eins og við erum. Tungumálið okkar þarf að endurspegla fjölbreytileikann.

Íslenskan er sameign þjóðarinnar og þróast og þroskast í takti við aukinn samfélagsþroska og breyttan tíðaranda. Orðanotkun sem fyrir nokkrum áratugum var talin í fínasta lagi hefur verið aflögð – enda er hún meiðandi.

Framtíð tungumáls sem útilokar stóran hluta þjóðarinnar er ekkert sérstaklega björt. En ef við eigum öll okkar stað innan íslenskunnar, þar sem okkur líður vel, munum við halda áfram að nota hana.

Leggjum hrísvendinum og búum til pláss fyrir öll sem kjósa að tala tungumálið okkar.