Hreyfing hefur óumdeilanleg jákvæð áhrif á heilsu og er talin geta dregið úr líkum á ýmsum langvinnum sjúkdómum. Hreyfing eykur líkur á góðri beinheilsu, styður við og eykur vöðvamassa, eykur jafnvægi og dregur þannig úr fallhættu ásamt því að virkja jákvæð taugaboðefni sem framkalla aukna vellíðan og draga úr líkum á þunglyndi. Hreyfing er talin tengjast vitrænni getu á jákvæðan hátt og er jafnvel talin eiga þátt í því að draga úr líkum á heilabilun síðar á ævinni. Það er ljóst að það er til mikils að vinna þegar við stundum hreyfingu.

Andstæðan við hreyfingu er kyrrseta. Kyrrseta er vandamál sem fylgir oft nútíma samfélögum, þá sérstaklega vinnuumhverfi okkar þar sem oft gætir langtíma kyrrsetu. Nýverið birtist rannsókn sem tók saman áhrif kyrrsetu á dánartíðni. Þessi rannsókn sýndi aukna dánartíðni á meðal einstaklinga sem viðhöfðu mikla kyrrsetu yfir daginn. Það sem var þó merkilegt var að þessari aukningu var hægt að umturna með hreyfingu. Nánar tiltekið, þeir einstaklingar sem stóðu reglulega upp yfir daginn og hreyfðu sig sýndu bæði jákvæð áhrif á blóðsykur og aukning á dánartíðni hvarf þegar kyrrseta var brotin upp með reglulegri hreyfingu.

Sé það ætlunin að markviss hreyfing skili árangri þá er góð næring grunnundirstaða. Sé góð og fjölbreytt næring ekki til staðar og sé fjöldi hitaeininga ekki nægur er hreyfing ólíkleg til að skila tilskildum árangri og í sumum tilfellum gæti hreyfing við slíkt ástand (vannæringu) valdið skaða. Fjölbreytt og næringarríkt fæði eykur líkur á þeim árangri sem hlýst af hreyfingu og eykur líkur á því að einstaklingar uppfylli næringarþörf í formi nauðsynlegra næringarefna sem líkami okkar þarf á að halda til að viðhalda eðlilegri starfsgetu. Það er eitt næringarefni sem sker sig úr í þessu samhengi en erfitt er að uppfylla þann ráðlagða dagskammt sem okkur er ætlað í gegnum fjölbreytt fæði eingöngu. Hér er um að ræða D-vítamín sem er það næringarefni sem hefur hvað mest verið rannsakað og hefur sannfærandi tengingar við heilsu.

Á Íslandi má áætla að um þriðjungur þjóðar búi við skort á D-vítamíni og ástæðuna þekkjum við flest sem er langvarandi sólarleysi hér á norðlægum slóðum. Með vísindin í farteskinu getum við sagt með áreiðanlegum hætti að D-vítamín hefur áhrif á beinheilsu. D-vítamín hefur þó ýmsa eiginleika umfram beinheilsu. Einstaklingar sem hafa D-vítamín gildi yfir meðallagi eru til að mynda ólíklegri til að greinast með þunglyndi, einnig hefur verið sýnt fram á lægri bólguþætti meðal þessa hóps sé miðað við þá einstaklinga sem hafa D-vítamíngildi undir meðallagi.

Það eru til fjölmargar faraldsfræðilegar rannsóknir sem sýna jafnframt fram á að sé D-vítamínbúskapur nægur geti það mögulega haft jákvæð áhrif á vitræna getu. Þessar rannsóknir hafa þó verið gagnrýndar þar sem ekki hefur verið tekið tillit til annarra áhrifaþátta á borð við líkamsþyngdarstuðul og menntun. Íhlutandi rannsóknum, þar sem einstaklingum er gefið inn D-vítamín og svo kannað hvort minnið og aðrir vitrænir þættir aukist, hefur hingað til nánast alfarið mistekist að sýna fram á jákvæð áhrif D-vítamíns á vitræna getu. Íhlutandi rannsóknir hafa þó einnig verið gagnrýndar þar sem eftirfylgdartími er talinn of skammur (oft á bilinu 3-6 mánuðir) og kallað hefur verið eftir lengri eftirfylgni svo að hægt sé að leggja mat á orsakasamhengi. Nýleg rannsókn hefur svarað þessari eftirspurn. Þar var einstaklingum fylgt eftir í 12 mánuði og sýndu niðurstöður að þeir einstaklingar sem tóku inn D-vítamín til samanburðar við einstaklinga sem tóku inn lyfleysu, höfðu marktækt minni líkur á því að þróa með sér væga vitræna skerðingu en væg vitræn skerðing er talin auka líkur á heilabilun á efri árum. Rannsóknin er því tímamótarannsókn á þessu sviði og gefur fyrri rannsóknum byr undir báða vængi.

Að búa við góða heilsu er gulls ígildi. Okkar eigin forvarnavinna skiptir sköpum þegar kemur að heilsufarslegum ávinningi sem hlýst þar af. Heilsa er hugtak sem nær yfir líkamlega, andlega og félagslega vellíðan. Þrátt fyrir að margir flóknir áhrifaþættir, stundum ófyrirsjáanlegir, komi að heilsu okkar þá eru hreyfing og næring gífurlega áhrifamiklir þættir í heildarsamhengi heilsu. Bætum svo við félagslegri vellíðan í formi jákvæðra og uppbyggilegra félagslegra samskipta og aukum enn frekar á heildarávinning. Með heildræna sýn á heilsu í farteskinu getum við sjálf haft áhrif á okkar eigin heilsu og vellíðan svo um munar.