Maður á víst ekki að vera með fordóma en óhætt er að segja að Spánverjar séu býsna málglaðir. Allavega hef ég búið hér í rúman áratug og ekki fundið nema einn fámæltan mann en hann á einmitt bróður sem talar við stokka og steina ef ekki er öðrum áheyrendum fyrir að fara og oft má heyra mál hans yfir í næsta bæjarfélag.

Sá háværi er auðvitað talinn laukur ættar sinnar meðan hinn þöguli þykir hálfgerð ættarskömm, enda engin alþýðufræði hér á Spáni að hæst glymji í tómri tunnu.Stundum hef ég kvartað yfir því að hversdagslegt bull sé í hávegum í öllu þessu orðagjálfri en svo eiga Spánverjar það einnig til að leysa frá skjóðunni af meira hispursleysi en ég hef kynnst hjá ódrukknum Íslendingum.

Til dæmis sagði vinkona mín á fertugsaldri frá því í miklum mannfagnaði að hún hefði misst áhugann á kynlífi fyrir tólf árum og þætti nú karlmenn jafn eggjandi og útidyrahurð. Setti þá að mér sorg.

Fyrir skemmstu sagði síðan félagi frá því, við svipaðar aðstæður, að hann hefði ekki getað stundað kynlíf frá því hann var skorinn upp við meini miklu við kynfærin. Og bætti svo við „æ, greyið konan mín.“

Fékk þetta svo á mig að daginn eftir varð mér hræðilega illt í pungnum og reyndar svo mjög að ég fór að pæla í því hvað væri til ráða fyrir konu mína er ég væri genginn úr skaftinu.Á morgun er samkunda með vinafólki. Ég vona að það verði bara rætt um raforkuverðið. n