Ég man glöggt hvar við Hrafn hittumst fyrst.

Það var fyrir framan umbrots­tölvuna hjá Jóni Óskari.

Hrafn hafði byrjað á Pressunni nokkru síðar en ég.

Skrifstofurými þarna í Alþýðuhúsinu – þar sem núna er 101 hótel – voru mjög skýrt afmörkuð. Mig minnir að við Andrés Magnússon höfum deilt þar klefa fyrstu vikurnar, en vegna þessarar húsaskipunar sáum við sjaldnast hverjir komu og fóru. Gunnar Smári var þá ritstjóri.

En Hrafn var nú aldeilis sjón að sjá.

Út úr honum miðjum stóð víravirki á að gizka hálfur metri á hvora hlið, svo að hann tók talsvert meira pláss en aðrir á gólfinu.

Mér skildist að hann hefði orðið fyrir bíl og þessari stálgrind væri ætlað að koma mjöðminni aftur í samt lag.

„Sæll, Kalli,“ sagði hann og rétti mér höndina, þótt við sæjumst nú í fyrsta skipti. „Þú ert anzi góður.“

Mér fannst hann það líka og reyndar miklu betri penni en ég. Sem hann var og vel rúmlega. Við höfðum vitað hvor af öðrum, en vegir okkar höfðu aldrei legið saman.

Hamingjan sem þeir gerðu það þaðan í frá.

Feður okkar höfðu mjög sennilega verið drykkjufélagar. Eiginlega jafnaldrar, og alkóhólista­partíið í Reykjavík var ekki mjög stórt á þessum árum. Það þurfti varla nema Hábæ og Ásaklúbbinn til að rúma það.

Við Hrafn ræddum þetta aldrei enda voru þeir feðurnir löngu látnir þegar við kynntumst loksins.

En orðalaust ákváðum við samt að taka upp merkið.

Sem þýðir á mannamáli: Við vorum talsvert mikið fullir saman.

Það var allt með ágætum enda maðurinn bráðskemmtilegur og ég hæfilega leiðinlegur, en smám saman varð mér ljóst að áfengi var ekki endilega fyrsti kostur Hrafns þegar kom að fíkniefnum.

Ég hef alltaf átt kappnóg með blessað brennivínið og gat ekki fylgt vini mínum í aðrar áttir.

Hann reyndi heldur aldrei að leiða mig þangað.

Núnú.

Gunnar Smári var rekinn og ég tók við sem ritstjóri Pressunnar. Þá hringdi ég vitaskuld í Hrafn.

Hann tók að sér, ásamt Kollu Bergþórs, bókmenntaumfjöllun Pressunnar, sem þótti nokkuð mikilvæg í þá daga.

Svo tók hann með sér séní eins og Jónas Sen, sem skrifaði ekki bara um tónlist, heldur dulræn málefni líka.

Af því marga sem Hrafni var gefið var ekki síztur hæfileikinn til að hrífa með sér fólk, sem hann sá að var hæfileikum búið.

Sjarmörinn virkaði ekki sízt á konur, eins og dæmin sönnuðu.„Þú sólbjarta fegurð sumarsins,“ sagði hann eitt sinn fyrir framan 22. Sú stúlka kiknaði í hnjáliðunum, en vinkona hennar fór heim með Hrafni.

Og svona var þetta.

Vikulegir ritstjórnarfundir Pressunnar voru haldnir á efri hæðinni á Kaffibarnum.

Oftar en stundum héldum við Hrafn framhaldsfundi heima hjá mér.

Þar tilkynnti ég honum eitt sinn að minningargrein mín um hann myndi hefjast svona;

„Hrafn Jökulsson var óþolandi.“

Hann fagnaði og við skáluðum. Einhverra hluta vegna kom aldrei til tals hvor myndi lifa hinn.

Nújæja.

Hrafn heimsótti mig oftar en einu sinni á Stöðvarfjörð. Hann var ættaður frá Djúpavogi, en hafði sjaldan komið austur og undraðist hversu fjöllin hölluðu inn í land. Við eldhúsborðið á Leynimel varð þetta til:

Við sitjum hér spekingar spjallandi

og spyrjum hvort undur sé kallandi,

að allt sé á fæti hér fallandi,

því fjöllin, þau eru svo hallandi.

Á tímabili var ég ritstjóri (nýja) Helgarpóstsins og Hrafn um leið ritstjóri Alþýðublaðsins. Honum tókst á átta síðum að búa til flottara og hugmyndaríkara blað en ég gat á mínum þrjátíu og tveimur.

Þá tók maður hattinn ofan. Aftur.

Þarna var að vísu stundum það sem Samkeppniseftirlitið myndi núna kalla ólöglegt samráð. Ég gat birt það sem ég vildi, en Hrafn var að nafninu til að gefa út flokksblað. Ég græddi á því og birti stundum það sem Hrafn gat ekki. Sumt af því skipti máli í litla fjölmiðlapollinum.

Nokkru síðar var ég beðinn um að leysa Hrafn af sem ritstjóra Mannlífs. Þau Guðrún Kristjánsdóttir stýrðu því, en hann var þá að fletta ofan af samvinnu lögreglunnar og Franklíns Steiners, sem var löngu tímabært þjóðþrifaverk, en Hrafn lifði sig aðeins of mikið inn í verkefnið, og þarna sá ég vin minn fjarlægjast inn í þokuna fyrir alvöru.

Við Hrafn töluðum síðast saman fyrir ári. Hann var þá í maníu. Við skulum ekkert vera feimin við að tala um slíkt. Heldur tala meira um það.

Eftir tveggja mínútna samtal var ég orðinn einn af óvinunum í samsærinu. Restina skildi ég ekki.

Vertu kært kvaddur, hæfileikabúnt.