Þegar rafvirkinn minn hringdi dyrabjöllunni í vikunni fylltist ég kvíða. Síðast þegar við hittumst skildum við í illu. Þá hafði hann komið til að laga ofninn minn. Hann hafði hvesst á mig augun þegar ég opnaði útidyrnar. „Það tók mig hálftíma að komast hingað,“ sagði hann eins og tími og rúm væru hindrun sem ég hafði lagt í veg hans. „Má bjóða þér kaffi?“ tuldraði ég afsakandi. „Andskotans borgarráðið,“ svaraði hann.
Rafvirkinn minn býr í næstu götu við mig í Islington-hverfi Lundúnaborgar. Í hverfinu fer nú fram tilraun. Völdum svæðum hefur verið breytt í „lágumferðarsvæði“. Götum er lokað fyrir gegnumkeyrslu bíla og gangandi vegfarendum, hjólafólki og börnum að leik tryggður forgangur. Er aðgerðinni ætlað að bæta loftgæði og lífsgæði. En málefnið hefur klofið samfélagið harkalega í með-og-á-móti.
„Ég hefði verið fljótari að labba hingað,“ sagði rafvirkinn og skellti verkfæratöskunni á stofugólfið.
„Til þess er leikurinn gerður,“ svaraði ég. Honum var ekki skemmt. Á meðan hann reif í sundur bilaða ofninn minn brýndi hann fyrir mér efnahagslegt mikilvægi einkabílsins. Ég brýndi fyrir honum mikilvægi þess að geta dregið andann. Hann spurði: „Hvað með gamla fólkið?“ Ég spurði: „Hvað með börnin?“ Hann talaði um frelsið til að fara um. Ég talaði um frelsið til að vera kyrr. Hann sakaði mig um skort á raunsæi. Ég sakaði hann um að skorta framtíðarsýn.
Síðan er liðið eitt og hálft ár. Nú var það ljósarofinn í stofunni sem var bilaður. Taugaóstyrk opnaði ég dyrnar. Rafvirkinn hvessti á mig augun. „Það tók mig hálftíma að komast hingað.“ Ég bauð honum kaffi. „Ég myndi keyra yfir borgarstjóra Lundúna ef ég sæi hann.“ Ég spurði hvað borgarstjórinn hefði gert honum. Jú, hann hugðist láta ökumenn greiða daggjald, sem óku um á gömlum og mengandi bílum innan borgarinnar. Vissi ég hvað daggjaldið væri hátt? Vissi ég hvað nýr bíll væri dýr? Vissi ég hvað hann yrði að rukka viðskiptavini sína mikið aukalega?
Vandræðaleg VG
Sagt er að í stríði standi enginn uppi sem sigurvegari. Stríðið í Úkraínu virðist hrekja þá kenningu. Olíufyrirtæki um heim allan skila nú methagnaði vegna innrásar Rússa. En sigur fer mönnum ekki alltaf vel.
Í vikunni tilkynnti breska olíufyrirtækið BP að það hygðist hætta við sett markmið sín í umhverfismálum þrátt fyrir tvöfalt meiri hagnað 2022 en árið á undan.
Á sama tíma bárust fréttir af því að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefði sent Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, bréf og farið þess á leit að Ísland fengi undanþágu frá aukinni skattlagningu ESB vegna losunar gróðurhúsalofttegunda í flugi.
Katrín er ekki ein um að vilja vera stikkfrí í háloftunum. Bill Gates, stofnandi tölvurisans Microsoft og fjórði ríkasti maður veraldar, ræddi nýverið störf sín í þágu loftslagsmála í Breska ríkisútvarpinu. Blaðamaður spurði Gates, sem á fjórar einkaþotur, hvort umhverfisverndarsinni á einkaþotu væri ekki „hræsnari“. Gates þvertók fyrir það. „Ég er ekki hluti af vandamálinu.“
Samkvæmt Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna gæti skaði af völdum loftslagsbreytinga verið orðinn óafturkræfur árið 2030. Blaðamaður Fréttablaðsins spurði Katrínu Jakobsdóttur hvort ekki væri vandræðalegt fyrir formann umhverfisverndarflokks að falast eftir undanþágu frá aðgerðum sem ætlað væri að hamla gegn hlýnun loftslags. Katrín þvertók fyrir það. „Nei, það tel ég ekki vera.“
Olíurisinn. Rafvirkinn. Ríkasti maður heims. Leiðtogi Vinstri grænna. Við getum öll fundið ástæðu til að réttlæta undanþágur. En ekkert okkar fær undanþágu frá afleiðingum gjörða okkar.