Þegar raf­virkinn minn hringdi dyra­bjöllunni í vikunni fylltist ég kvíða. Síðast þegar við hittumst skildum við í illu. Þá hafði hann komið til að laga ofninn minn. Hann hafði hvesst á mig augun þegar ég opnaði úti­dyrnar. „Það tók mig hálf­tíma að komast hingað,“ sagði hann eins og tími og rúm væru hindrun sem ég hafði lagt í veg hans. „Má bjóða þér kaffi?“ tuldraði ég af­sakandi. „And­skotans borgar­ráðið,“ svaraði hann.

Raf­virkinn minn býr í næstu götu við mig í Islington-hverfi Lundúna­borgar. Í hverfinu fer nú fram til­raun. Völdum svæðum hefur verið breytt í „lág­um­ferðar­svæði“. Götum er lokað fyrir gegnum­keyrslu bíla og gangandi veg­far­endum, hjóla­fólki og börnum að leik tryggður for­gangur. Er að­gerðinni ætlað að bæta loft­gæði og lífs­gæði. En mál­efnið hefur klofið sam­fé­lagið harka­lega í með-og-á-móti.

„Ég hefði verið fljótari að labba hingað,“ sagði raf­virkinn og skellti verk­færa­töskunni á stofu­gólfið.

„Til þess er leikurinn gerður,“ svaraði ég. Honum var ekki skemmt. Á meðan hann reif í sundur bilaða ofninn minn brýndi hann fyrir mér efna­hags­legt mikil­vægi einka­bílsins. Ég brýndi fyrir honum mikil­vægi þess að geta dregið andann. Hann spurði: „Hvað með gamla fólkið?“ Ég spurði: „Hvað með börnin?“ Hann talaði um frelsið til að fara um. Ég talaði um frelsið til að vera kyrr. Hann sakaði mig um skort á raun­sæi. Ég sakaði hann um að skorta fram­tíðar­sýn.

Síðan er liðið eitt og hálft ár. Nú var það ljósarofinn í stofunni sem var bilaður. Tauga­ó­styrk opnaði ég dyrnar. Raf­virkinn hvessti á mig augun. „Það tók mig hálf­tíma að komast hingað.“ Ég bauð honum kaffi. „Ég myndi keyra yfir borgar­stjóra Lundúna ef ég sæi hann.“ Ég spurði hvað borgar­stjórinn hefði gert honum. Jú, hann hugðist láta öku­menn greiða dag­gjald, sem óku um á gömlum og mengandi bílum innan borgarinnar. Vissi ég hvað dag­gjaldið væri hátt? Vissi ég hvað nýr bíll væri dýr? Vissi ég hvað hann yrði að rukka við­skipta­vini sína mikið auka­lega?

Vand­ræða­leg VG

Sagt er að í stríði standi enginn uppi sem sigur­vegari. Stríðið í Úkraínu virðist hrekja þá kenningu. Olíu­fyrir­tæki um heim allan skila nú met­hagnaði vegna inn­rásar Rússa. En sigur fer mönnum ekki alltaf vel.

Í vikunni til­kynnti breska olíu­fyrir­tækið BP að það hygðist hætta við sett mark­mið sín í um­hverfis­málum þrátt fyrir tvö­falt meiri hagnað 2022 en árið á undan.

Á sama tíma bárust fréttir af því að Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra hefði sent Ur­sulu von der Leyen, for­seta fram­kvæmda­stjórnar Evrópu­sam­bandsins, bréf og farið þess á leit að Ís­land fengi undan­þágu frá aukinni skatt­lagningu ESB vegna losunar gróður­húsa­loft­tegunda í flugi.

Katrín er ekki ein um að vilja vera stikk­frí í há­loftunum. Bill Gates, stofnandi tölvurisans Micros­oft og fjórði ríkasti maður veraldar, ræddi ný­verið störf sín í þágu lofts­lags­mála í Breska ríkis­út­varpinu. Blaða­maður spurði Gates, sem á fjórar einka­þotur, hvort um­hverfis­verndar­sinni á einka­þotu væri ekki „hræsnari“. Gates þver­tók fyrir það. „Ég er ekki hluti af vanda­málinu.“

Sam­kvæmt Lofts­lags­nefnd Sam­einuðu þjóðanna gæti skaði af völdum lofts­lags­breytinga verið orðinn ó­aftur­kræfur árið 2030. Blaða­maður Frétta­blaðsins spurði Katrínu Jakobs­dóttur hvort ekki væri vand­ræða­legt fyrir for­mann um­hverfis­verndar­flokks að falast eftir undan­þágu frá að­gerðum sem ætlað væri að hamla gegn hlýnun lofts­lags. Katrín þver­tók fyrir það. „Nei, það tel ég ekki vera.“

Olíu­risinn. Raf­virkinn. Ríkasti maður heims. Leið­togi Vinstri grænna. Við getum öll fundið á­stæðu til að rétt­læta undan­þágur. En ekkert okkar fær undan­þágu frá af­leiðingum gjörða okkar.