Það er skrýtin pólitík sem leitar ekki allra leiða til að bæta hagsæld almennings og atvinnufyrirtækja í landinu.
En sú arna pólitíkin er rekin hér á landi, raunar af fleiri en einum flokki. Þeir líta á óbreytt ástand sem eina möguleikann fyrir íslenskt samfélag. Og þeir reyna ekki einu sinni að leyna aðdáun sinni á kyrrstöðu. Gott ef stöðugleikinn felst ekki einmitt í stöðnun að þeirra mati.
Því, er ekki bara best að breyta engu?
Í þessu ljósi eru viðbrögð kyrrstöðuflokkanna við síauknum áhuga landsmanna á fullri aðild að Evrópusambandinu harla fyrirséð.
Við höfum ekkert þangað inn að gera. Og þar við situr.
Það tekur því ekki einu sinni að skoða hvað er í boði. Og líklega stappar það nærri óðsmannshjali að kanna hvaða undanþágur eru í boði fyrir þjóðina vegna sérstöðu Íslands á fjöldamörgum sviðum atvinnu, auðlinda, menningar, tungu, hnattstöðu og fjarlægðar frá meginlandi.
Miklu heldur er talað fyrir því að híma áfram frammi á gangi á löggjafarsamkundu sambandsins og taka við regluverki þess án þess að geta haft nokkur áhrif á hana.
Svo er auðvitað alið á samsæriskenningum sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum, en höfuðærslin eru þau helst að Evrópusambandið steli öllu steini léttara í landinu ef þjóðin fái fullgilda aðild að því – og geti þar með verið þjóð á meðal þjóða í álfunni, hvað lagasetningu og framtíð sína varðar.
Spurningin er auðvitað þessi: Halda andstæðingar Evrópusambandsins hér á landi að einhver núverandi aðildarþjóða sambandsins hafi tapað á inngöngunni? Geta þeir hinir sömu bent á einhverja ESB-þjóð sem hefur glatað hagsmunum sínum á aðildinni?
Hér verður vitaskuld að hafa í huga að ríki sem ganga í Evrópusambandið hafa eftir sem áður sjálfsákvörðunarrétt um nýtingu orkuauðlinda í sinni eigu, svo sem olíu, gass og vatns. Þannig hafa til dæmis Bretar og Hollendingar haft full yfirráð yfir olíuauðlindum í Norðursjó, Finnar ráða yfir finnskum skógum og Ungverjar yfir jarðhitaauðlindum sínum.
Ekkert bendir til annars en að sjálfsákvörðunarréttur Íslands yfir auðlindum í efnahagslögsögu landsins, í jörðu og á hafsbotni, haldist óskertur komi til aðildar að Evrópusambandinu.
Ákvarðanir um heildarafla og veiðiheimildir einstakra aðildarríkja eru eftir sem áður teknar af heimamönnum á grundvelli reglunnar um hlutfallslegan stöðugleika. Reglan byggist fyrst og fremst á veiðireynslu og sameiginlegum fiskistofnum og þar hefur Ísland alla söguna og sérstöðuna sín megin.
En hræðslupólitíkin lýgur enn. Og er hreykin af blaðrinu.