Það er skrýtin pólitík sem leitar ekki allra leiða til að bæta hag­sæld al­mennings og at­vinnu­fyrir­tækja í landinu.

En sú arna pólitíkin er rekin hér á landi, raunar af fleiri en einum flokki. Þeir líta á ó­breytt á­stand sem eina mögu­leikann fyrir ís­lenskt sam­fé­lag. Og þeir reyna ekki einu sinni að leyna að­dáun sinni á kyrr­stöðu. Gott ef stöðug­leikinn felst ekki ein­mitt í stöðnun að þeirra mati.

Því, er ekki bara best að breyta engu?

Í þessu ljósi eru við­brögð kyrr­stöðu­flokkanna við sí­auknum á­huga lands­manna á fullri aðild að Evrópu­sam­bandinu harla fyrir­séð.

Við höfum ekkert þangað inn að gera. Og þar við situr.

Það tekur því ekki einu sinni að skoða hvað er í boði. Og lík­lega stappar það nærri óðs­manns­hjali að kanna hvaða undan­þágur eru í boði fyrir þjóðina vegna sér­stöðu Ís­lands á fjölda­mörgum sviðum at­vinnu, auð­linda, menningar, tungu, hnatt­stöðu og fjar­lægðar frá megin­landi.

Miklu heldur er talað fyrir því að híma á­fram frammi á gangi á lög­gjafar­sam­kundu sam­bandsins og taka við reglu­verki þess án þess að geta haft nokkur á­hrif á hana.

Svo er auð­vitað alið á sam­særis­kenningum sem eiga sér enga stoð í raun­veru­leikanum, en höfuð­ærslin eru þau helst að Evrópu­sam­bandið steli öllu steini léttara í landinu ef þjóðin fái full­gilda aðild að því – og geti þar með verið þjóð á meðal þjóða í álfunni, hvað laga­setningu og fram­tíð sína varðar.

Spurningin er auð­vitað þessi: Halda and­stæðingar Evrópu­sam­bandsins hér á landi að ein­hver nú­verandi aðildar­þjóða sam­bandsins hafi tapað á inn­göngunni? Geta þeir hinir sömu bent á ein­hverja ESB-þjóð sem hefur glatað hags­munum sínum á aðildinni?

Hér verður vita­skuld að hafa í huga að ríki sem ganga í Evrópu­sam­bandið hafa eftir sem áður sjálfs­á­kvörðunar­rétt um nýtingu orku­auð­linda í sinni eigu, svo sem olíu, gass og vatns. Þannig hafa til dæmis Bretar og Hollendingar haft full yfir­ráð yfir olíu­auð­lindum í Norður­sjó, Finnar ráða yfir finnskum skógum og Ung­verjar yfir jarð­hita­auð­lindum sínum.

Ekkert bendir til annars en að sjálfs­á­kvörðunar­réttur Ís­lands yfir auð­lindum í efna­hags­lög­sögu landsins, í jörðu og á hafs­botni, haldist ó­skertur komi til aðildar að Evrópu­sam­bandinu.

Á­kvarðanir um heildar­afla og veiði­heimildir ein­stakra aðildar­ríkja eru eftir sem áður teknar af heima­mönnum á grund­velli reglunnar um hlut­falls­legan stöðug­leika. Reglan byggist fyrst og fremst á veiði­reynslu og sam­eigin­legum fiski­stofnum og þar hefur Ís­land alla söguna og sér­stöðuna sín megin.

En hræðslu­pólitíkin lýgur enn. Og er hreykin af blaðrinu.