Hugurinn reikar óneitanlega til eftirminnilegrar spurningar Guðna Th. Jóhannessonar forseta í kosningabaráttu um embættið í sumar, þegar rýnt er í málflutning ýmissa sem vilja ekki að ríkið selji 25-35 prósenta hlut í Íslandsbanka. „Ertu stoltur af framgöngu þinni í kvöld?“

Eftir hrunið var lögum breytt á þá vegu að lán til eigenda með yfir tíu prósenta eignarhlut voru takmörkuð verulega. Það virðist skipta bíræfnustu andstæðinga bankasölunnar litlu máli. Fulltrúi verkalýðshreyfingarinnar gaf lítið fyrir nýju lögin og sagði að nýir eigendur hluthafa bankans myndu finna leiðir fram hjá þeim. Þetta eru ekki heilbrigð skoðanaskipti heldur grímulaus áróður án tengsla við raunveruleikann.

Fullyrt er að erfitt sé að verðmeta hlutafé Íslandsbanka í ljósi þess að lán til ferðaþjónustunnar séu í frystingu og því muni nýir hluthafar einkum verða áhættusæknir skammtímafjárfestar. Slíkir fjárfesta einkum þegar aðrir treysta sér ekki til, vegna mikillar óvissu um virði eigna og því er markaðsverðið lágt. Nú er Arion, sem er sambærilegur banki og Íslandsbanki, skráður á hlutabréfamarkað. Gengi hlutabréfa hans er 22 prósentum hærra en við upphaf árs 2020 áður en COVID-19 veikti heimshagkerfið. Þau rök halda því ekki vatni.

Eins hefur stærsti hluthafi Arion banka, vogunarsjóður stofnaður af fyrrverandi lykilmönnum í Goldman Sachs, sett tíu prósenta hlut í bankanum í sölu eftir að hafa átt hlutinn frá árinu 2017. Gróðapungarnir í Taconic Capital telja því aðstæður til sölu á stórum hlut í íslenskum banka ágætar.

Einhverjir tóku upp reiknistokkinn, komust að þeirri niðurstöðu að arðgreiðslur ríkisbankanna hafi numið 207 milljörðum króna á árum 2014 til 2018 og segja því skynsamlegt að eiga bankana áfram. Aftur var kastað ryki í augun á almenningi. Þetta var óvenjulegt tímabil: virði lánasafna, sem hafði farið illa í hruninu, hafði aukist verulega. Auk þess greiddu bankarnir ekki arð á meðan þeir voru í eigu slitabúa og því höfðu þeir safnað ríflegu eigin fé. Það er fráleitt að gera ráð fyrir sambærilegum arðgreiðslum á næstu árum.

Það er dapurlegt hve óvandaður málflutningurinn um sölu Íslandsbanka er.