Andstæðingar þess að Ísland leiti eftir gjaldmiðilssamstarfi við ESB og/eða ljúki aðildarviðræðum beita hræðsluáróðri máli sínu til stuðnings.

Fullyrða þeir að smáríki megi sín lítils innan ESB sem fótumtroði fullveldi þeirra. Betra sé því fyrir Ísland að standa eitt og „fullvalda“ en bindast samtökum með evrópskum lýðræðisþjóðum.

Þessi hræðsluáróður stenst ekki skoðun. Fjórtán smáríki í Evrópu hafa tekið upp evru, átta með aðild að ESB en sex án aðildar. Utan ESB eru San Marínó, Andorra, Mónakó, Kósóvó, Svartfjallaland og Vatíkanið. Þessi ríki una hag sínum vel og líta á upptöku fjölþjóðlegs gjaldmiðils, sem tryggir stöðugleika og hagsæld til framtíðar, sem nauðsynlegt skref til að styrkja fullveldi sitt.

Bjarni Benediktsson eldri sagði á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 1969, þegar tekist var á um inngönguna í EFTA:

„Ef menn vilja einangrun, þá verða þeir að taka afleiðingum hennar og reyna þá hvorki gagnvart sjálfum sér né öðrum að hræsna með því að þeir séu hinir mestu framfaramenn. Þeir eru þvert á móti menn afturhalds og úrtölu. Einangrunin, sem nær hafði drepið þjóðina á löngum og þungbærum öldum, er þeim runnin svo í merg og bein, að þeir daga uppi sem nátttröll á tímum hinna mestu framfara.

Vísindi og tækni nútímans og hagnýting þeirra er bundin þeirri forsendu, að víðtækt samstarf eigi sér stað. Þess vegna leita jafnvel stórþjóðirnar samstarfs hver við aðra, jafn stórar þjóðir sem smáar. Ef stórþjóðunum er slík þörf, þá er smáþjóðunum það nauðsyn.

Ef aðrir, þeir sem okkur eru líkastir að menningu og efnahag, hafa svo góða reynslu, hví skyldum við þá óttast, að reynsla okkar yrði önnur og lakari?“

Þeirri spurningu hefur verið varpað fram hvort krónan sé órjúfanlegur hluti spillts valdakerfis sem noti gengissveiflur til að færa til stórfelld verðmæti í þágu valdhafa, eða þeirra sem að baki þeim standa, á kostnað almennings? Látum einangrunarsinna ekki ráða för.