Það hefur lengi verið tíska á Íslandi að hata blaðamenn. Það hefur ekki þótt neitt tiltökumál að tala illa um þá, gera þeim upp annarlegar hvatir, uppnefna þá, klaga eða stefna þeim fyrir dómstóla fyrir litlar eða engar sakir.

Þetta er landlæg íþrótt. Stjórnmálamenn saka blaðamenn um að gera upp á milli stjórnmálaflokka eða pólitískra andstæðinga í sama flokki. Atvinnurekendur og áhrifafólk hótar lögsóknum. Almennir borgarar hæðast að blaðamönnum á samfélagsmiðlum, kalla þá leigupenna og gera þeim upp annarleg sjónarmið. Ungt og upprennandi fólk sem er að stíga sín fyrstu skref í faginu er kallað blaðabörn í háðungarskyni. Embættismenn og starfsmenn hins opinbera eru ekki undanþegnir því að líta niður á blaðamenn, telja fyrirspurnir þeirra til hnýsni og starf þeirra almennt til óþurftar. Svör við fyrirspurnum og almenn liðlegheit eru eftir því.

Auðvitað þurfum við að þola gagnrýni. Við förum með vald og getum haft mikil áhrif á líf fólks og fyrirtækja. Það er hins vegar ekki í okkar náttúru að verjast gagnrýni opinberlega. Okkur sem tilheyrum þessari stétt er ekki tamt að gera okkur sjálf að aðalpersónum í fréttum. Við störfum ekki við að verja okkur sjálf eða koma okkar eigin sjónarmiðum á framfæri. Okkur er kennt að bíta á jaxlinn og halda áfram að vinna þótt höggin dynji á okkur. Okkur reynist það mislétt. Sérhver blaðamaður á allt sitt undir því að njóta trausts og trúverðugleika meðal lesenda sinna. Þess vegna tökum við gagnrýni alvarlega. Við reynum að læra af henni þegar tilefni er til og hjálpum hvert öðru að yfirstíga ómálefnalega gagnrýni. Það gerum við ekki á sjónvarpsskjánum eða á síðum blaðanna. Við gerum það með starfsfélögum okkar eða ein í hljóði.

Þótt sú aðför að fjölmiðlum landsins sem nú stendur yfir sé án fordæma og ótengd almennu hatri landsmanna á blaðamönnum, þá hittir hún okkur sjálf fyrir ofan á það sem fyrir er, erfiðar starfs­aðstæður og linnulausar árásir úr öllum áttum.

Hún beinist ekki aðeins að Helga Seljan og félögum hans á RÚV. Hún beinist að sameiginlegu fagfélagi okkar, að formanni þess og að Heimi Má Péturssyni, sem var nánast gerður að umboðsmanni Samherja í umfjöllun Kjarnans um svívirðileg áform skæruliðadeildar Samherja. Hún beinist að starfsfólki þeirra fjölmiðla sem skæruliðar Samherja töldu sig geta haft ótilhlýðileg áhrif á. Hún beinist að okkur öllum.

Það verður hlutverk nýrrar forystu í Blaðamannafélagi Íslands að styrkja sjálfsmynd stéttarinnar og samstöðu blaðamanna. Því þótt við séum í samkeppni þurfum við að standa saman sem stétt. Það stendur enginn annar með okkur. Við þurfum að taka velferð fréttamennsku í okkar eigin hendur og loka þeim leiðum sem stórfyrirtæki og spillt öfl kunna að hafa til að ráðast að okkur. Við getum byrjað á að útrýma siðanefndum skipuðum fólki sem kemur okkur ekkert við.