Kynbundið ofbeldi er rótgróið mein í íslensku samfélagi, þar sem karlar hafa notið forréttindastöðu gagnvart konum svo öldum skiptir og fram til dagsins í dag. Það hefur viðhafst og viðgengist allt of lengi og mál að linni. Réttlæting, meðvirkni, skömm og þöggun hafa viðhaldið þessu samfélagsmeini og ekki hafa dómar sem falla vegna þessara brota haft fælandi áhrif á gerendur hingað til.

Heimilisofbeldi, kynferðisofbeldi, líkamlegt ofbeldi, andlegt, stafrænt og fjárhagslegt ofbeldi, mansal, vændi og morð eru þegar horft er á staðreyndir og töluleg gögn að miklu leyti ofbeldi karla gegn konum. Ótti og ógnanir hafa og eru enn notaðir til að ná ákveðnum markmiðum, hvort sem er innan samfélaga, fjölskyldna, einræðisríkja eða í stríði, samanber nýlegar fréttir af skipulögðum nauðgunum Rússa á konum og stúlkum í Úkraínu.

Í þau skipti sem fólk hefur tjáð sig um kynbundið ofbeldi gegn konum á vefmiðlum hefur undantekningarlítið verið grafið undan umræðunni með þeim rökum eða ábendingum að umræðan eigi ekki rétt á sér því konur beiti einnig ofbeldi. Víst er það svo að konur beita ofbeldi. Karlar verða einnig fyrir ofbeldi. Minnihlutahópar alls konar verða fyrir ofbeldi. Ekkert ofbeldi á rétt á sér. Það breytir því ekki að umræðan verður að fara fram. Án opinskrárrar umræðu breytum við engu og upprætum ekki þetta mein í íslensku samfélagi. Allar tegundir kynbundins ofbeldis þyrftu að fá þyngri dóma og verða viðurkennd sem þau alvarlegu brot sem þau eru.

Langflestar konur kannast við kynbundið ofbeldi og áreitni og þekkja þá tilfinningu að finnast þær ekki vera óhultar. Hvort sem þær eru einar á gangi að kvöldi til eða að skemmta sér. Meðvitað og ómeðvitað gera þær varúðarráðstafanir til að verjast kynbundnu ofbeldi og það eitt hefur áhrif á lífsgæði þeirra og frelsi.

Við verðum að horfast í augu við staðreyndir eins og þær liggja fyrir. Samkvæmt könnun sem unnin var 2019 hefur um 80% þingkvenna á Alþingi Íslands orðið fyrir kynbundnu ofbeldi en það er mun hærra hlutfall en finnst á þjóðþingum í Evrópu. Þessar tölur benda til þess að ofbeldið beinist ekki eingöngu að konum sem eiga fá eða lítil bjargráð. Þriðja hver kona í heiminum í dag er beitt eða hefur orðið fyrir kynbundnu ofbeldi. Miðað við hátt hlutfall ofbeldis, sem íslenskar konur á Alþingi eru að upplifa, hvert ætli sé hlutfallið hjá íslenskum konum almennt miðað við konur annarra Evrópuþjóða?

Ég ræddi við hóp karlmanna um kynbundið ofbeldi til að fá þeirra sjónarmið. Eftir samtalið stóð upp úr að karlremba, eða eitruð karlmennska sem á það til myndast þegar hópur karlmanna kemur saman, verður oft til þess að talað er til kvenna eða um konur af lítilsvirðingu. Hef sjálf upplifað það á eigin skinni.

Við þurfum að mennta ungu karlmennina okkar, þeir eldri þurfa að vera betri fyrirmyndir í tali og framkomu og sýna konum þá virðingu sem þær eiga skilið. Með gagnkvæmri virðingu og þátttöku ykkar karlmannanna upprætum við kynbundið ofbeldi fyrir fullt og allt. Byggjum betra samfélag fyrir alla.

Höfundur er varaforseti Kvenfélagasambands Íslands og formaður S.V.S.K.

Greinin er birt í tilefni 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi.