Um daginn fékk ég að prófa nýmóðins rafmagnsfjallahjól. Mögnuð græja. Fyrst var ég smeykur þar til fjörutíu ára minning rifjaðist upp í mínum 57 ára skrokki. Allt í einu var ég staddur á grænu skellinöðrunni minni Honda SS50. Gamalt líkamsminni vaknaði. Svipuð spyrna, sömu áskoranir; óttinn hvarf og ég gat notið ferðarinnar.

Líkamsminni er merkilegt fyrirbæri sem býr jafnt með einstaklingum og þjóðum. Líkt og gömul jafnvægislist blundar í miðaldra skrokki býr þúsund ára þekking í þjóðarlíkamanum. Í sumarlok þarf hann að taka hraustlega til hendinni og hann veit það. Nú mun reyna á gömul tök við nýjar aðstæður. Þó eru aðstæður ekki svo nýjar. Við höfum oft áður glímt við pestir og aðrar náttúruhamfarir. Nú hriktir enn í okkar náttúrulegu stoðum bæði af völdum COVID og vegna loftslagsbreytinganna, sem ekki er lengur hægt að hunsa.

Hvað gerum við í náttúruhamförum? Við (1)höfum stjórn á sjálfum okkur og (2)gerum það sem í valdi okkar stendur í þágu heildarinnar. Svo einfalt er það. Þannig höfum við alltaf gert og þannig munum við áfram gera.

Að liðnum vetri vorið '21 munum við þekkja okkur betur. Þá verður komið í ljós úr hverju íslenskur þjóðarlíkami er gerður; hvort okkur hefur auðnast að rifja upp tökin og halda jafnvægi. Viðbrögð okkar við COVID munu jafnframt reynast prófsteinn á getu okkar til að glíma við loftslagsvandann. Verkefnin eru ekki ósvipuð.

Í þakklæti til genginna kynslóða og í auðmýkt gagnvart þeim ófæddu skulum við tengja við langtímaminni þjóðarlíkamans og opna hugann óhrædd fyrir nýjum upplýsingum. Þá mun vel fara jafnvel þótt áskoranirnar komi fljúgandi á móti okkur.