Hún var falleg stundin í Laugardalnum á dögunum þar sem krúttlegu hjónakornin, ríki og borg, stilltu sér upp fyrir framan fjölmenni og sýndu hróðug fyrstu sónarmyndirnar af nýrri þjóðarhöll. Alveg kafrjóð í kinnum.

Fólk ærðist úr fögnuði. Og klappaði fyrir draumabarninu. Varla annað hægt þegar blásið er svo hraustlega í lúðra og tilkynnt að króginn sé svo gott sem kominn í heiminn. Að biðin sé loks á enda og vel hægt að fara að sjá fyrir sér andlitsmálaðar stundir á yfirfullum áhorfendapöllum.

En Adam var víst ekki lengi í Laugardal. Ef hann var yfir höfuð einhvern tímann á leiðinni þangað.

Seinna sama dag bárust nefnilega þær fregnir úr fjármálaráðuneytinu að sennilegast hefðu hróðugu hjónakornin í Laugardalnum verið full bráð á sér. Og tónninn í lúðrinum helst til of falskur.

Það á nefnilega eftir að finna út úr því hver á að sjá um uppeldið á draumabarninu. Það mál er bæði óleyst og í þykkum hnút. Þótt vissulega hafi verið ákveðið að slá upp heljarinnar veislu. Ófæddum þjóðarkróganum til heilla.

Ef marka má orð fjármálaráðherra á reyndar líka eftir að finna út úr því hver ber ábyrgð á öllu glensinu. Ef svo má að orði komast. Svo á víst líka eftir að ákveða hvert á að senda reikninginn. Sem verður nú að teljast frekar stór breyta í stóra samhenginu.

Samt er okkur sagt að biðin sé svo sannarlega á enda. Allt innan seilingar í Laugardalnum.

Um meinta þjóðarhöll íslensku þjóðarinnar ríkir því enn mjög undarlegt ástand. Þar stendur yfir einhver stórundarleg og langvinn forræðisdeila. Yfir ófæddu afkvæmi. Vegna þess hve illa foreldrunum gengur að tala saman. Um ósýnilega höll án hirðis.

Hið sorglega er svo auðvitað að landsmenn eru farnir að venjast þessari tegund af samskiptum á milli ríkis og borgar. Eða öllu heldur, samskiptaleysi. Höllin í Laugardal er bara enn eitt dæmið. Enn ein störukeppnin.

Hvernig stendur á því að það gengur alltaf svona illa að fá ríki og borg til að leiða mikilvæg mál til lykta? Og gera það í bróðerni. Þeim virðist fyrirmunað að klára verkefni. Meira að segja þau verkefni sem breið samstaða ríkir um að verði að veruleika. Þetta er eiginlega að verða sjálfsagt rannsóknarefni.

En hvað sem því líður þá mun draumurinn um ófæddu þjóðarhöllina vísast lifa eitthvað áfram. Sónarmyndirnar munu sjálfsagt ylja okkur um hjartaræturnar alveg fram að næsta blaðamannafundi.

Þar sem okkur verður sagt að biðin sé enn og aftur á enda.